Atómstöðin í Stokkhólmi
© 2008 Inga Birna Jónsdóttir
Formáli í leikskrá ”Lítil eyja í hafinu” — Frumsýning á leikriti Halldórs Laxness í Dramaten leikhúsinu í Stokkhólmi,
31. janúar 1987 Atómstöðin er áfangi á rithöfundaferli Nóbelsverðlaunaskáldsins Laxness.
Skáldsagan fjallar um vanmátt almennings gagnvart stjórnmálamanni, sem misnotar vald sitt, stjórnmálamanni,
sem gegndi erindum stórveldis og ruddi leiðina fyrir hernaðaraðstöðu á lítilli eyju. Laxness kallaði það ”að selja landið.”
Þessi litla eyja Laxness heitir Ísland.
Búi Arland, ein af aðalpersónum bókarinnar, er alþingismaður og mágur forsætisráðherrans. Hann er heigull, sem starfar í andstöðu við samvisku sína og betri vitund. Hann lætur mág sinn, forsætisráðherra íhaldsflokksins stjórna sér. Þess vegna auðnast honum hvorki að njóta ástar né hamingju.
Uggla er andstæða hans, einföld en heilsteypt. Hún er þó ekki dæmigerð íslensk sveitastúlka. Hefði Ísland átt fleiri hennar líka, hefði nútíma saga Íslands kannski orðið önnur.
Þegar Ísland sleit böndin við Danmörku árið 1944 og varð sjálfstætt lýðveldi, hafði það í för með sér innri og ytri byltingu í lífi fólksins. Það var einungis í fjarlægum héruðum, að tilveran leið fram nokkurn veginn óbreytt. Þar lifði fólk nokkurn veginn eins og áður. Þar varðveitti fólkið sambandið við náttúruna, sauðkindina, fiskinn og það Ísland, sem Uggla er hluti af.
Meðal þeirra, sem hlýddu ”kallinu” og breyttu um stefnu var Lögreglan. Í sögunni hrífur straumurinn hann með sér, svo hann missir fótfestuna í ólgu tíðarandans og verður fórnarlamb hinna grimmu afla auðvaldsins.
Þegar ”Atómstöðin” kom út 1948 vissu allir hvaða fyrirmyndir Laxness hafði notað við persónusköpunina.
Fólk þekkti forsætisráðherrann, utanríkisráðherrann, organistann, guðina og atómskáldið.
Guðirnir og höfundur hinna órímuðu ljóða voru ný fyrirbæri á götum Reykjavíkur.
Heimspekingar og listmálarar voru farnir að segja til sín í stað þess að svelta, eða drekka sig dauða í Kaupmannahöfn.
Ég, sem skrifa þessar línur kem frá litlu eynni í hafinu og man eftir ólgu stjórnmálaumræðnanna og óttanum við, að Bandaríkin fengu að hafa hermenn á Íslandi. Meirihluti kjósenda hafði jú veitt íhaldinu meirihluta og sá meirihluti kallaði sig ”Sjálfstæðisflokkinn” (sic!). Valdsins sérfræðingar fengu sitt ”fljótandi flugmóðuskip á Atlantshafinu.” Návist bandarísku hermannana átti að skipa Íslandi ákveðinn sess í valdabaráttu stórveldanna.
Ég var þá í 7. bekk. Elvis Presley-kynslóðin skildi atómskáldið, guðina með eða án brilliantíns og allan þann boðskap, sem var undirstaða valdabaráttunnar.
Daginn, sem tillögu stríðssérfræðinganna var þröngvað í gegn á Alþingi, þrátt fyrir hávær mótmæli hins fjölmenna minnihluta, stóðum við fyrir framan Alþingishúsið. Sameiningartákn sjálfstæðisbaráttunnar meðan landið var ennþá sambandsríki Danmerkur, Jón Sigurðsson, stóð á bak við okkur. En nú var hann bara bronsstytta. Þeir íslensku stjórnmálamenn, sem höfðu haldið vörð um hans markmið, beittu nú lögregluvaldi gegn okkur.
Hinum alvarlegu átökum á torginu fyrir framan Alþingishúsið lauk með því, að mótmælendunum var tvístrað með táragasi og bareflum.
Margir mótmælendanna fengu fangelsisdóma og þeir voru sviptir borgararéttindum. Lítil eyja í hafinu fyrir 40 árum síðan. Eitt Norðurlandanna.
Lögregluvaldið á Íslandi hefur hvað eftir annað ráðist gegn mótmælendum, sem ekki vilja sætta sig við hervæðinguna.
Ég minnist vorsisns 1968. Við vorum að undirbúa okkur undir próf við háskólann í Reykjavík. Við sátum á lesstofunum og undirbjuggum okkur.
Allt í einu vorum við rekin út úr Háskólanum, því aðalfundur NATO var í undirbúningi þar.
Við settumst á tröppurnar og reyndum að hindra þá háu herra í að leggja undir sig húsið.
En sei, sei nei!
Íslenska lögreglan með aðstoðarliði frá Noðurlandi rak okkur burt og í hryggnum á mér situr enn minningin um hörkulegt spark.
Þeir höfðu fengið þær röngu upplýsingar, að við værum kommúnistar og vissu ekki betur.
Það var um að gera að fjarlægja okkur eins og hverja aðra óværu.
Slíkt heitir lýðræði í orðabók hinna háu herra. En ekki í minni.
Þegar ég sé myndir frá öðrum ríkjum heims, þar sem íbúum er ógnað af útlendum herdeildum, hvort sem það er í Nicaragúa, eða Afganistan, hugsa ég til eyjarinnar minnar í hafinu, sem ég hef nú flutt frá. Ég hef leitað þangað, sem Norðurlöndin eru óskert. Það er mín Patagónía.