Blómstur í mýrinni

Birt í Tímariti Máls og menningar
1. kafli
Listin og ástin hafa alltaf átt samleið. En það verður að viðurkennast eins og það er – þetta tvennt setti ég lengi vel ekki í samband við hvað annað vegna þess að list var mér ekkert, eins og mótorhjól er mörgæs. Og þótt skömm sé frá að segja var ég fullra sjö ára þegar ég kynntist þeim mikilvæga mannlega þætti – ástinni – af eigin athugun.
Ísland var þá hernumið land og meðan menn bárust á banaspjót í fjarlægari hluta Evrópu spruttu íbjúgar lágar byggingar fram eins og blómstur í mýrinni við flugvöllinn. Útsýnið heima hjá mér var ekki lakara en átta dollara leikhússæti við Broadway, tvílyft timburhús með risglugga í rétta átt.
Kreppunni, þeim eðlilega aðdraganda stríðs, var að mestu lokið en þjóðlífið bar ennþá menjar hennar og stríðsgróðinn hafði ekki rist sinn breiða farveg til fulls. Helstu kreppumenjar voru gífurleg óseðjandi matarlyst og rómantík í veislur og ytri glæsileik svo sem útlendan fatnað og skartgripi. Sem dæmi um langvarandi menningarsult og fáfræði minnist ég þess að ganga fram á tóma flösku sem glitraði við gangstéttarbrúnina eins og kristall og kastaði frá sér regnbogalitum. Flaskan var svo fagurlega snúin og undin að hefði ég haft pata af list ,hefði ég ekki fyllst slíkri óttablandinni aðdáun heldur dregið augað í pung og sagt: tja, en í stað þess settist ég agndofa á gangstéttina og þar sem ég var læs á fleiri en eitt tungumál – skýringin á því kemur seinna – gerði ég ítrekaðar tilraunir til að komast til botns í áletrun flöskunnar. Þar sem ég sat og velti fyrir mér gripnum, bar hann upp að ljósinu og dáðist að litbrigðum sólargeislanna í glerinu drifu að vinir mínir úr nágrenninu. Milli okkar var svo náið samband, að gerðist eitthvað merkilegt hjá einum var sem allir fengju í sig straum og komu á vettvang undir eins. Enginn mælti orð af vörum, svo dolfallin og gagntekin vorum við. Varlega gekk flaskan milli handa sem vönduðu sig þótt enginn segði: passaðu að missa hana ekki. Þegar hún hafði farið hringinn og allir sem læsir voru höfðu muldrað áletrunina með sjálfum sér eins og töfraformúlu – Coca Cola – tók ég hana og bar í broddi fylkingar inn í háspennulífshættugarðinn okkar, en þar áttum við bú og nutum algerrar friðhelgi.
Aðrar helstu minjar kreppunnar var atvinnustétt sem lagði ekki upp laupana fyrr en stríðsgróðinn hreif alla með sér, jafnt háa sem lága. Það voru vinnukonurnar. Svo til hver fjölskylda hafði sína vinnukonu af því að heimilisfeður, sem eignuðust stúlkubörn höfðu um það tvennt að velja að gifta þau fljótlega eftir fermingu eða ráða þau í hús. Engum manni datt í hug að mennta dóttur sína, til þess var hún ekki í heiminn borin, því skrifað stendur: margfaldist og uppfyllið jörðina og meira að segja ég hafði einhvern grun um að til þess þyrfti engan skólabókalærdóm. Um framkvæmd þess máls átti ég síðar eftir að fræðast allítarlega meðan blómstrin uxu í mýrinni.
Nóg um kreppuna og ómeðvitað listskyn, en snúum okkur að stríðinu og ástinni.

2. kafli
Vinnukonan á neðri hæðinni var nýkomin í húsið. Hún hér Maja og hún var svo afslöppuð og óíþróttaleg, að mér fannst hlyti að vanta í hana rafmagn. Mæja stóðst náttúrulega ekki frekar en aðrir þetta síkvika útsýni yfir kampinn og á morgnana. Þegar hún hafði búið um rúmin, stóð hún alltaf drjúga stund og horfði dreymin niðureftir. Í sólskininu gljáði á sveitt bök hermannanna, sem mokuðu hvern skurðinn á fætur öðrum. Og mikið afskaplega varð Mæju bylt við, þegar þýskaraflugvél steypti sér allt í einu yfir öll þessi bök og sírenurnar fóru í gang. Hún var svosum ekki ein um að fá sjokk.
Við vorum öll rekin niður í kjallara og biðum þar heila eilífð eftir heimsendi. Pabbi var hetjan, sem læddist upp að ná í heitt kaffi og teppi. Þetta var alveg eins og í bíó og við börnin nutum hvers augnabliks út í æsar. Hann kom lifandi aftur og rétt um það bil sem við fórum að njóta lífsins og drekka kaffið – krakkarnir fengu alltaf kaffi þegar heimsendir var í nánd – gaf sírenan frelsismerkið og allt grínið var búið. Þýska flugvélin hafði snautað burt, en enginn grafari sást í flugvallarskurðunum og Mæja æpti “Jesús,” því hún hélt að þeir væru allir dauðir og hún grét eins og barn. En uppúr þessu hafðist það, og það fannst mér alltaf hljóta að vera þýskurunum að þakka, að hermenn komu á götuhornið og fóru að grafa og hlaða sandvígi. Svo nálægt okkur höfðu þeir ekki verið fyrr og nú gafst tækifæri til nákvæmrar athugunar. Við krakkarnir stóðum allt í kringum þá og í hverri íbúð stóð fönguleg vinnukona og hélt gluggatjöldunum til hliðar. Þeir sögðu halló- og héldu áfram að moka, en þegar þeir litu upp í gluggana réttu þeir úr sér og studdust við skóflurnar. Mæja brosti – það hafði ég ekki séð hana gera fyrr. Hún gaf merki og ég leit allt í kring og ofan í gryfjuna, en það var ekki um að villast – merkið var til mín. Ég gekk heim og inn til hennar. Í annarri hendi hélt hún á miða, með hinni benti hún út um gluggann og ofaní gryfjuna, sagði mér að fara með miðann og láta þennan með bláa klútinn hafa hann. Ég tók miðann og gekk sem leið lá til baka, en á tröppunum féll ég fyrir freistingunni, opnaði og las: æ lov jú.
Stundum er gott að vera forvitin og áður en ég taldi erindið fullkomnað, læddist ég inn í herbergið mitt og lagfærði handbragð Mæju svo að úr varð: I love you. Um leið fyrirvarð ég mig fyrir kvenlega menntun á Íslandi. Þetta var þó hlutur, sem sjá mátti á hverri blaðsíðu í öllum leikarablöðum. Óséð komst ég svo niður og út að gryfjunni með miðann og afhenti hann með allri þeirri milliríkjakurteisi, sem ég átti til. Maðurinn með bláa klútinn hætti að grafa og leit á mig eins og þetta væri ekki nóg og eitthvað sem átti að vera bros bærðist í munnvikunum. Ég benti á Mæju, sem stóð við gluggann. Maðurinn pataði og talaði og hló og við hlógum öll. Þá stökk hann upp á gryfjubarminn og þreifaði í vösum hermannajakkans og gaf mér heilan pakka af spírmint. Hann skrifaði eitthvað á blaðið, lét mig hafa það og benti á Mæju. Hún stóð í dyrunum, þegar ég kom og greip miðann en skildi ekki. Ég tók við honum og las: meet you here tonite. Nú voru góð ráð dýr, því ég skildi það ekki heldur.
Að stela orðabókinni úr hillunni í stofunni var ekkert gamanmál, en það tókst og brátt sátum við niðri hjá Mæju með þetta gímald, sem við vissum ekki fyrst hvernig átti að snúa. En af því að viljinn var fyrir hendi tókst þetta allt nema “tonite” var hvergi að finna. Útkoman var: hitta þú hér tonite. Leikarablöðin reyndust lítil stoð í þetta sinn og þá var þrautalendingin stóra systir, sem var undantekning frá margföldunarreglunni og sat á skólabekk langt yfir fermingaraldur sakir sérvisku föður míns, sem endaði hverja borðbæn þannig: “og góði guð forðaðu dætrum mínum frá skólpfötunni og skítaklútnum.”
Systir mín krafðist skýringar á tungumálaáhuganum, en ég þagði eins og grjót, þangað til hún gafst upp og sagði að tonite ætti víst að þýða í kvöld. Þá var það komið. Ég brunaði niður stigana og leiddi Mæju í allan sannleika. Hún sagði mér að fara að gryfjunni og segja jes, ekkert nema jes.
Þetta var upphafið að umfangsmiklu og annríku starfi, sem ekki einungis ég heldur yngri kynslóðin í hverfinu tók fúslega á sínar herðar og lauk þar með sælgætis- og tyggigúmmíkreppunni miklu.
Eftir því sem sendiboðarnir þjálfuðust í þeirri ensku, sem til þurfti, gekk þetta fljótar og það voru óskrifuð lög að segja aldrei jessið fyrr en greiðsla hafði farið fram.
En öll góðæri eiga sinn endi og svo fór einnig í þetta sinn. Annað hvort hefur einhver kjaftað frá, eða útsendarar siðgæðisins og þjóðernisstefnunnar í landinu hafa verið á verði, því að einn dag, þegar við vorum á þönum til og frá með skilaboð og lykilorðin “I love you” voru um að bil að berast í hendur réttra aðila, dreif að flokkur fólks, sem var miklu ábúðarfyllra og ægilegra að sjá á svip og framkomu en nokkur sú herdeild, sem við enn höfðum séð. Greip fólk þetta af okkur miðana og hélt annað hvort í eyrun á okkur, eða hálsmálin. Hafði greinilega verið beðið eftir því að slá margar flugur í einu höggi, því sex voru gripin. Vorum við leidd hvert í sína áttina og var það feitur og sver kvenmaður, sem ýtti mér á undan sér og hélt miðanum frá sér eins og vísindamaður með fullt glas af gerlum. Hún krafðist þess að fá að koma með mér heim og mér tókst ekki að sleppa frá henni þótt ég vissi, að hún mundi aldrei ná mér á hlaupum. Teymdi hún mig heim og útundan mér sá ég slíkt hið sama gert við starfssystur mínar og bræður.
Þegar heim kom var gengið til stofu. Mamma var alltof almennilega við konuna, fannst mér og gaf henni meira að segja kaffi. Og þetta kvenveldi lét móðan mása svo að undirhökurnar dingluðu af áfergju, en hið eina sem skiljanlegt var af því, sem hún sagði var, að best væri að senda mig í sveit. Ég var fengin til að lofa að koma aldrei nálægt hermönnum og tala aldrei við þá.
Næstu daga var heill hópur atvinnulausra barna í vandræðum á götunni og sama hve mörgum súkkulaði- og tyggigúmmípökkum hermennirnir veifuðu – við vorum óvígfær her. Við skömmuðumst okkar fyrir að svíkja vinnuveitendur okkar, en enginn þorði að hætta á að verða sendur upp í sveit og missa af stríðinu.
Þetta er einungis inngangur að sögunni um listina og ástina.
Í næsta kafla er fjallað um fyrstu tannsmíði á Íslandi án háskólaprófs.

3. kafli
Tannsmíði hefur löngum verið talin erfið námsgrein. Það þarf bæði glöggt auga og fínlegt handbragð. Samkvæmislífið í höfuðborg Íslands hlýtur að hafa staðið með miklum blóma á þessum tíma, því að með því stóð og féll næsta þátttaka okkar og aðild að stríðinu, sem var hreint ekki svo lítil, þegar þess er gætt, að ánægðir hermenn eru traustasti og sigurstranglegasti grundvöllurinn.
Þegar okkur var sagt upp sendiboðastarfinu, héldum við okkur meira inni við en áður og þar við bættist, að dimma tók á kvöldin og hillti undir vetur.
Hvíldardagur vinnukvenna var ekki stílaður upp á heilaga ritningu þótt svo væri um flest annað í lífi kvenna fyrr og síðar. Á fimmtudögum voru þær frjálsar manneskjur, sem fóru sinna eigin ferða án þess að spyrja kóng eða prest. Þá var allt fágað og hreint á vinnustað. Meira að segja nýbaðaðir hundar settu upp helgisvip.
Þegar hringt var dyrabjöllunni hjá leiksystur minni, varð maður að setja sig í stellingar löngu fyrirfram, áður en hurðin opnaðist vegna þess að á henni var útbúnaður, sem gerði innandyrafólki mögulegt að grandskoða utandyrafólk, án þess að það hefði hugmynd um. Þegar kom inn í ystu forstofuna af þremur, blasti við rókókóspegill og kristaldropaljósakróna, en á hattahillunni var stór hjálmur með merki.
Var það höfuðfat húsbóndans, ef stríðið yrði of ofsafengið og rammíslenskt, svo innfæddir yrðu að berjast sem aðrir. Ég hneigði mig fyrir hattinum og gekk full lotningar gegnum hinar forstofurnar, gegnum skálann og stigann upp á efri hæðina, sem var paradís okkar, því þar voru mörg stór og björt herbergi með fáum húsgögnum og vorum við þar frjáls og ótrufluð af öllum þeim vanda, sem börn eiga við að etja í stofustássheimili fullorðinna. Herbergi vinnukonunnar var á þessari hæð. Hún hét Búdda. Mæja og Búdda voru bestu vinkonur, ágætismanneskjur, góðar við börn og hunda og hreint ekki smámunasamar.
Þennan fimmtudagseftirmiðdag var mikil spenna í andrúmsloftinu á efri hæðinni. Búdda og Mæja svifu frekar en gengu, hölluðu krullupinnahöfðunum saman, hvísluðust á og skríktu, mátuðu föt og stússuðu tímum saman. Um sjöleytið voru þær komnar í sitt fínasta skart, með púffermar, eyrnalokka, háhælaða skó með ökklabandi, gljáandi silkisokka og kálfasíða kjóla. Við fylgdumst með öllu, sem þær gerðu, réttum þeim greiðu og renndum upp lásunum aftanfrá.
“Búdda, hvað á ég að gera, ég er svo föl og næpuleg?”
“Standa á haus.”
“Ertu vitlaus, ég er búin að greiða mér og allt.”
Við stöllur þekktum gamalt íslenskt húsráð og læddumst niður stigann inn í eldhús.
Eftir skamma stund stóðum við vopnaðar rauðu kaffibætisbréfi við hlið Mæju og þegar hún hafði strokið kinnar sínar með því, var hún sem tvítug jómfrú í vöngum og brosti án þess að setja höndina fyrir munninn. Í speglinum blasti við ógn og skelfing. Í efri góm vantaði aðra hverja tönn. Enginn þurfti að segja okkur að konan væri að fara í boð og jafnvíst var, að það var dauðadæmt fyrirtæki að fara í boð án þess að geta hlegið lyst sína með galopinn munn, ef því var að skipta. Enn þurftum við stöllur að læðast niður í eldhús og var sú ferð mun erfiðari, þar eð kertin voru geymd í efsta skápnum yfir ísskápnum. En það hafðist og tannsmíðin hófst.
Við bræddum mátulegan klump og bjuggum til hverja tönnina af annarri upp í Mæju og var sá vandinn mestur að vaxið væri ekki orðið kalt, þegar það var sett í skörðin. Mæja sat eins og ljós og þorði sig hvergi að hræra meðan við bræddum, hnoðuðum, límdum og skófum uppi í henni, þar til hún var altennt. Tókum við henni strangan vara fyrir að láta nokkuð það upp í sig í boðinu, sem límdist við tennurnar, því þá dyttu þær úr, eða hún æti þær. Var hún næstum því lagleg og ekki nærri því eins rafmagnslaus, þegar verkinu var lokið. Búdda var betur sett, því hún var með falskar, en þó þurftum við að gera svolítið við þær líka. Altenntar og rjóðar í vöngum hringdu þær á BSR og hurfu skömmu síðar út í myrkur bæjarins.
Daginn eftir voru þær rosalega syfjaðar og tennurnar allar hrundar úr Mæju, en eitthvað merkilegt hlaut að hafa gerst, því eftir það hétu þær ekki lengur Mæja og Búdda heldur Maddí og Baddí.
Næstu fimmtudaga vorum við stöllur ómissandi við uppfærslu kvöldsins og urðu þjónustubrögð okkar svo vellátin í hverfinu, að við settum upp gjaldskrá: Ein tyggjóplata fyrir hverja tönn og súkkulaði að auki væru tennurnar fleiri en fimm.
Mig minnir það vera í janúar, þegar allir voru orðnir svo vanir sírenunum, að fólk tók varla eftir þeim og þaðan af síður mark á þeim, því að þýskaraflugvélarnar gerðu aldrei annað en róta upp í hermönnunum og stríða þeim og voru venjulega horfnar, þegar þeir höfðu fundið byssurnar sínar. Til þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð gengu hermennirnir í húsin til þess að minna fólk á að draga fyrir gluggana, þegar óvinavélarnar væru yfir bænum. Hjálmurinn lá kyrr á sínum stað og allt var með ró og spekt.
Um hábjartan daginn gerðist það svo, að einhver kom hlaupandi úr mýrinni, veifaði byssu og skaut í allar áttir. Eftir því sem nær dró sást svo ekki varð um villst, að þetta var vopnaður setuliði í vígahug. Hann miðaði ekki á neitt sérstakt, skaut bara út í loftið og til hliðanna og öskraði. Aðrir vegfarendur hafa sjálfsagt skilið óþolinmæði mannsins og bardagalöngun og biðu átekta. Óáreittur komst hann upp að mjólkurbúð, en þá voru fimm aðrir komnir á hæla honum og skutu allir í einu. Maðurinn kastaðist í götuna. Maddí hljóðph jóðandi náföl og hálftennt inn á mitt sviðið: “Bill – Bill!”
Í heilan mánuð eftir það vorum við tannsmiðir atvinnulausar, því að þrátt fyrir vinsældir okkar var Maddí okkar besti og öruggasti viðskiptavinur. Á fimmtudagskvöldum sat hún við að skrifa bréf til móður þess, sem hafði fallið. Á náttborðinu hafði hún mynd af honum, grannleitum pilti með mjótt yfirvaraskegg og bát á höfðinu.

4. kafli
Þegar leið á veturinn fundum við að breytingar voru í aðsigi. Fyrir áramót héldu strákarnir með Bretum og í stríðsleikjunum lágu venjulega allar Þýskaraflugvélarnar í valnum, en eftir áramót varð sú breyting, að fyrir kom að Þýskaraflugvél slapp í burtu. Af kvenlegu innsæi skildum við, að tekið var að halla undan fæti fyrir Þjóðverjum í hinu raunverulega heimsstríði og því var ekki um annað að ræða en að vorkenna þeim svolítið og gefa þeim nokkur tækifæri svo að þetta endaði ekki allt á einum degi. Japanir bættust í hópinn. Fengum við stundum að vera hjúkrunarkonur og bera þá dauðu í burtu. Fullorðnir brostu góðlátlega að þessum barnaleikjum og á afmælum bættust við allskyns leikföng, sem gerðu leikinn enn raunverulegri, grá herskip með einkennisstöfum, tindátar búnir byssum og hjálmum.
Viðurkennd alþýðumenntun var enn við lýði. Hvað sem öðru leið urðum við að fara í skólann, sem var svo undarlega utanveltu í raunhæfu daglegu lífi. Það voru miklir gleðidagar, þegar Rauði Krossinn í Ameríku sendi okkur heila bílfarma af sælgæti. Þá voru allar dyr skólans opnaðar og hver nemandi fékk pakka endurgjaldslaust. Í þeim voru flautur, súkkulaðidrjólar, tyggigúmmí, blöðrur og yfirleitt flest það, sem gleður og kætir barn. Þá daga var þakklætið og samúðin í garð Bandamanna vafalaus og hverri einustu óvinaflugvél grandað í huganum.
Þegar voraði vorum við öll send í sveit – krakkar, hundar, vinnukonur.
Skammt frá borginni var yfirgefið óðal, sem tekið hafði verið á leigu í þessu skyni og mundu foreldrarnir koma um helgar, en þess á milli áttu Búddí og Maddí að annast húshaldið. Húsakynni voru þau, að miðja hússins var einn allsherjar salur með arni. Fyrir framan arininn var boginn sex sæta sófi. Eldhúsið var þar innaf öðru megin, hinum megin svefnherbergisálma með tveimur rækilega aðskildum vistarverum og á annarri svefnherbergishurðinni var sams konar gægjugat og á áðurnefndri útihurð í bænum. Í barnaherberginu voru kojur í röðum meðfram veggjunum. Sváfum við þar fyrstu næturnar, þar til í miðri næstu viku. Þá var okkur sagt að flytja yfir í stóra svefnherbergið með hjónarúminu og komumst við öll fyrir í því. Af breytingunni réðum við, að eitthvað merkilegt væri í aðsigi og höfðum nánar gætur á öllu, sem Maddí og Baddí tóku sér fyrir hendur. Af því leiddi okkar fyrstu alvarlegu kynni af listinni, sem veitti okkur skilning á ýmsu því, sem á eftir fór.
Seinni hluta dags, þegar við áttum að vera úti að leika okkur, skiptumst við á að skjótast inn og athuga hvað vinnukonurnar höfðust að. Í fyrstu virtist það ekki vera neitt sérstakt, en þó bar okkur saman um, að í hvert sinn, sem við komum inn í stofuna, kipptust þær við og stungu einhverju undir sessuna í sófanum og þóttust vera að tala saman. Vorum við reknar út jafnskjótt og inn kom, enda blíðasta veður og óþrjótandi verkefni útivið.
Kvöld eitt, þegar verið var að setja minni börnin í háttinn, tókst okkur stöllum að komast óséðar að sófanum. Undir sessunni var bók með ljósbláum þunnum blöðum og eðlisávísunin sagði okkur, að hér væri “bláa bókin,” er svo margir töluðu um í hálfum hljóðum sem hræðilegan og óbætanlegan glæp. Á titlblaðinu stóð: “Elskhugi Lady Chatterley.” Olli það okkur þó nokkrum áhyggjum hve þykk hún var, en baráttulaust vildum við ekki gefast upp og vannst okkur meira að segja tími til að lesa fyrstu blaðsíðuna áður en við heyrðum umgang. Næstu daga gáfust okkur mörg tækifæri til þess að hnupla bókinni og þrátt fyrir það að okkur tækist að lesa fram í hana miðja án þess að upp kæmist, var þeirri spurningu enn ósvarað hvað væri svo skemmtilegt í henni, að Búddí og Maddí laumuðust, flissuðu og klipu hvor aðra, þegar þær voru að lesa báðar í einu og héldu að enginn sæi til.
Vikurnar liðu án þess að nokkuð óvenjulegt gerðist. Úti fyrir reis smám saman upp sandborg, svo merkileg í okkar augum, að við settum vörð við hana meðan óvitarnir voru úti, svo þeir legðu hana ekki í rúst. Einn óviti hefði á nokkrum mínútum gert að engu margra daga þrotlausa vinnu. Til þess að halda þeim skaðlausum og sæmilega ánægðum, fengu þeir það starf að bera okkur byggingarefni í fötum, en starfsgleði þeirra var ekki á hærra stigi en það, að þeir sátu um að eyðileggja það sem við höfðum byggt upp. Veður voru svo mild og blíð, að Maddí og Búddí fóru í langar gönguferðir með þau yngstu og þá gáfust okkur tækifæri til þess að stelast inn og lesa Lady Chatterley:
- Það er svo gott! Andvarpaði hún. Það er svo indælt! En hann svaraði engu, kyssti hana aðeins blíðlega. Og hún lá endurborin í faðmi hans og andvarpaði af sælu. Hugur hennar var fullur af undrun: – Karlmaður! Styrkur karlmannsins réði yfir lífi hennar! Hún þreifaði á honum og var enn dálítið óttaslegin: – Þetta var karlmaður. Hún snerti hann og fann, að hann var fagur. Hún fór höndum um leyndardóma líkama hans og dulræn fegurð og sæla streymdi gegnum taugar hennar frá þeim. –

5. kafli
Klukkan var sjö að kvöldi – á fimmtudegi – og allt var óvenju snemmbúið. Yngstu börnin hrein og þvegin í náttfötum með mjólkurglös og við hin fengin til að lofa að vera háttuð og komin í rúmið klukkan níu. Við sperrtum eyrun eftir aðkomuhljóðinu. Gluggi okkar vissi út að ánni, svo við sáum ekki til vegarins og góða stund urðum við að láta okkur það eitt nægja að heyra eitthvað, sem líktist bílhljóði nálgast. Gægjugatið á hurðinni þorðum við ekki að nota enn, þar eð vinnukonurnar voru varar um sig og gátu birst hvenær sem var til þess að ganga úr skugga um hvort við værum ekki sofnaðar. Litlu angarnir lágu eins og rotaðir og vissu hvorki í þennan heim né annan. Þegar Búddí kom inn, lágum við því og létumst sofa og hefði hún ekki haft hugann við annað, má vera, að hún hefði séð í gegnum leikaraskapinn. Þegar hún var farin var gægjugatið okkar.
Í fyrstu leit út fyrir að um venjulegt kvöldsamkvæmi væri að ræða, líkt og þegar einhver verður fertugur. Gestirnir báru pakka undir hönd og afhentu Maddí og Búddí. Þeim var boðið sæti og allir sátu í svipbrigðalausu samtali. Búddí fór margar ferðir fram í eldhúskrókinn og bar fólkinu há glös með freyðandi gosvökva. Einn gestanna var sérstaklega skrautlegur. Á brjóstinu hafði hann borða og medalíur og gyllta axlaskúfa og á húfunni var fugl með blómum allt í kring. Þetta hlaut að vera generáll, eða eitthvað slíkt og þótt við vissum ekki hvað svo puntaður maður gerir í stríði, duldist okkur ekki, að það var eitthvað merkilegra en allt annað. Húfan hans lá á borðinu hjá sófanum og Maddí snarsnerist í kringum hann – til að rétta honum öskubakka – hella í glasið – brosa til hans – og vorum við henni innilega reiðar fyrir að láta okkur ekki smíða upp í sig fyrir kvöldið. Búddí skipti sér ekki af þeim, en sá um að bera þremur óbreyttum hermönnum drykki og var allt frjálslegra þar megin í stofunni – þeir komnir úr jökkunum og kipptu henni niður í stól rétt eins og þeir væru heima hjá sér og hún tók fyrir munninn á sér svo að ekki sæist í tennurnar, þegar hún hló. Enn heyrðist í bíl og eftir skamma stund var stofan þéttsetin. Stór og feitur maður í matrósafötum hafði komið með útvarp undir hendinni og leitaði í því, þar til hann fann músíkstöð og þau sungu sem einn maður HÆPOLLÍVOLLÍDÚDDILÍVOLLÍDEJ.
Generállinn var kominn úr jakkanum, sem Maddí hafði lagt varlega hjá húfunni, en sjálf sat hún þétt upp við hann, saup af glasinu hans og horfði í eldinn, sem snarkaði í arninum og sló rauðgullnum bjarma á samkvæmið í rökkri júlínæturinnar.
Okkur fannst generállinn lang-sætastur og þar með þurfti ekki að hafa áhyggjur af Maddí, því hún leit ekki á nokkurn annan. Öðru máli gegndi með Búddí. Hún dansaði við marga og okkur sýndist hún hreint og beint vera rugluð. Hún settist í fang feita mannsins í matrósafötunum og hvíslaði í eyra hans. Hann stóð upp og kallaði eitthvað og allir átu það upp eftir honum, en enskan brást okkur. Hann stillti útvarpið enn hærra og Búddí snarsnerist á gólfinu, fór úr blússunni og henti henn i í matrósafatamanninn. Hann dansaði líka út á gólfið, fór úr sinni blússu og allir klöppuðu. Brátt voru allir farnir að dansa nema Maddí og generállinn, sem sátu afsíðis og horfðu móður- og föðurlega á skemmtun hinna. Var okkur svo mikið í mun að fylgjast með, að við slógumst um gægjugatið. Fólkið tíndi af sér hverja flíkina af annarri, þar til fátt var eftir nema brjóstahöld og nærbuxur, sem eitt af öðru fauk yfir höfuðin og hlógum við dátt, þegar stórar nærbuxur matrósafatamannsins lentu á höfði generálsins. Gátum við hlegið upphátt af hjartans lyst, því glaumurinn var mikill í stofunni og enginn tók eftir neinu öðru. Búddí varð fyrst af öllum allsber og steinhætt að setja höndina fyrir munninn, þegar hún hló. Hún faðmaði og kyssti matrósafatamanninn og voru þau svo góð hvort við annað, að við höfðum hreint aldrei ímyndað okkur að fólki gæti komið svona vel saman, allra síst í boði. Svo þétt höfðum við aðeins séð strákana kútveltast í slag. Aðrir fóru að dæmi þeirra og brátt veltust naktir kroppar um allt gólf, þar til tvö og tvö og tveir og tveir hurfðu inn í kojuherbergið, en þangað náði gægjugatið okkar ekki. Maddí og generállinn voru nú ein í stofunni. Þau lágu í sófanum, létu vel hvort að öðru og afklæddust eins og hitt fólkið. Síðustu spjarirnar flugu og glæður arineldsins slógu fölum bjarma á þau, þar sem þau elskuðust ofan á Elskhuga Lady Chatterleys. Í okkar huga varð Maddí Lady Chatterley á þessari stundu og við vissum hvar hún hafði lært þennan leik.
Enginn hafði tekið eftir bólhljóði, hvað þá séð húsmóður staðarins ganga heim tröðina. En þarna stóð hún samt og kveikti ljós. Kom slíkt fát á fólkið, sem var í húsinu, okkur sem lágum á gægjum jafnt og aðra, að boðið sundraðist og bílar, sem settir voru harkalega í gang brunuðu á fullri ferð út í buskann. Við stöllur töldum öruggast að hypja okkur í bólið.
Undir sænginni vorum við hjartanlega sammála um, að þetta hefði mamman ekki átt að gera. Að okkar dómi var hér um að ræða mun skemmtilegra samkvæmi en nokkurt fertugsafmæli, sem við höfðum enn verið vitni að og reglulega miskunnarlaust að eyðileggja það. Enginn hafði verið skammaður, barinn eða drepinn og engu hafði verið stolið og þar með er upptalið það, sem við töldum vera refsivert og óverjandi athæfi. Slíkt er siðleysi barnsins gagnvart ástinni, áður en það hefur gengið í gegnum siðferðisskólann.
Daginn eftir kom sjálfur húsbóndinn að sækja vinnukonurnar, en eftir varð mamman og það, sem eftir var júlímánaðar var tilveran einkennilega tilbreytingalaus og hversdagsleg, meira að segja fimmtudagar.
Eitt lá þó enn á milli hluta, óuppgötvað og óupptækt: Elskhugi Lady Chatterley. Lukum við þeirri bók skömmu seinna, án þess að uppgötva glæpinn í henni. Svo mikið vissum við þó, að yrði þetta ritlistareintak dregið upp á yfirborð sófans og “þjóðfélagið” sæi á hve hálli braut við vorum, hefði því verið kastað á aringlæðurnar. Við þögðum og þjóðfélagið hélt áfram sinn vanagang með öllu sem því fylgir, stríði sem öðru.