Dúdda Jónasar

SÖGUR FRÁ 1974

“Silla mín, hann Tómas er það, sem ameríkanar kalla “a selfmade man.”
þú getur reitt þig á það.
Þegar þetta pakk er að kjamsa á því, að hann sé í svindli,
þá er það bara öfund, hrein og skær íslensk öfund
og annað ekki.
Ég er svo hissa á blöðunum að birta þetta með bókhaldið,
því annað eins hefur nú skeð.
Krakkarnir fá engan frið í skólanum út af þessu, þeim er strítt greyjunum,
eins og þau hafi gert eitthvað af sér.
Það vantar ekki ótuktina. Það er líka allt að fyllast af kommum hér.
Maður verðu að fara að selja og flytja í betra hverfi
….svei mér…ha?…hvað segirðu?
Dúdda Jónasar trúði varla sínum eigin eyrum.
Silla skellti á í miðju samtali. Hvað sagði hún ?….Hættu þessu röfli!…Nei…Það gat ekki verið. Síminn hlaut að hafa bilað.
Hún valid númer vinkonu sinnar aftur….1273….”Halló! Er það Silla?
Það er ég aftur; það slitnaði.
Ég ætlaði að fara að segja þér frá því, þegar hann Friðrik minn
kom skælandi heim úr skólanum
….Ha? Hvað segirðu?….nennir ekki að hlusta á þetta þvaður. Silla!
Ertu þarna?
Ekkert svar. Hún hafði skellt á aftur. Líka Silla.
Voru allir að snúa við þeim bakinu?
Nágrannarnir voru hættir að heilsa, eða þá þeir glottu
út í annað munnvikið. Það var óþægilegast.
Gamlir vinir fóru undan á flæmingi og sögðust ekki hafa tíma til að líta inn. Allt út af þessum blaðagreinum,
sem höfðu dunið yfir þau upp á síðkastið undir fyrirsögnum eins og “skattfrjálsar eiginkonur aðstoða eiginmenn sína í viðskiptalífinu.,”
eða “Bókhaldi hagrætt!” og sá svívirðilegasti
“Almenningur greiðir skólavist fyrir milljónera.”
Allt voru þetta persónulegar árásir og aðdróttanir
og svo nákvæmar lýsingar, að þótt nafnið væri ekki nefnt, vissu allir um hvern var að ræða.
Eins og það sé eitthvað skrítið, að kona hjálpi manni sínum,
þegar hann er í fjárhagskröggum?
Maðurinn hennar tók að sér að ávaxta fé fyrir aldraða.
Um það urðu náttúrulega að gilda sömu lög og reglur
sem um önnur mál í viðskiptalífinu.
Þau höfðu unnið geysimikið í þessum málum
og margir hinna öldruðu höfðu hringt til hennar
og þakkað hrærðir í huga,
af því að ellilaunin hefðu drýgst til muna vegna þessarar
nýju lánastofnunar.
Dúdda Jónasar hrökk upp úr hugleiðingum sínum við það,
að Tómas maðurinn hennar, kom inn með miklum asa.
“Dúdda mín, hitaðu kaffi og gerðu pönnukökur
og hafðu það til í grænum hvelli.
Það er að koma stórlax eftir hálftíma.
Brostu, vertu sæt, vertu í nýja kjólnum, hafðu áhrif á hann.
Hann verður að sjá, að það ríkir samheldni á heimilinu.
Segðu honum, að þú vitir ekkert betra en vera húsmóðir
og sjá vel um mann og börn. Þá fær hann traust á mér.
Ég held, Dúdda mín, að við séum dottin í lukkupottinn.
Hann vill selja okkur verðbréf, sem halda áfram að hækka í verði.
Það þýðir, Dúdda mín, að við getum fjárfest í útlandinu
og hagnast á því”.
Meðan Tómas lét dæluna ganga, athugaði hann vandlega
hvort hann ætti ekki nokkrar tegundir af víni til þess að
herra Reymond sæi,
að hann skorti ekkert og byggði á traustum grunni.
“Veistu það Dúdda mín, að Reymond er einn kænasti
fjármálamaður á Vesturlöndum. Hann ávaxtar fé sitt með lánum,
bæði vestan hafs og austan, frjálsum lánum með háum vöxtum.
Það er einhver munur að búa í löndum, þar sem folk er frjálst
og ekki umsvifalaust stimplað glæpamenn,
þegar það stundar viðskipti á frjálsum markaði.
Dúdda mín, þetta er stóra tækifærið,
sem kemur bara einu sinni í lífi manns.
Nú verðum við að standa saman.”
Dúdda var svo vön löngum ræðum um fjármál og stór tækifæri
og hálftíma til að búa til fínasta kaffiborð,
að hún tók þessu sem sjálfsögðum hlut. Hún gat þó ekki stillt sig um,
að nefna þetta með Sillu.
“Veistu það, Tommi minn,” sagði hún,”að Silla vill ekkert við mig tala.
Hún skellti símanum tvisvar á mig.
Það er örugglega út af þessari vitlausu grein í blaðinu um,
að þú lifir af að féfletta aldraða.
Eins og þú hafir ekki hjálpað mörgum að ávaxta fé.
Hvar væri þetta fólk statt, ef enginn gerði slíkt?
Þá væri allt stopp.
Við erum stimpluð fyrir að hjálpa öðrum.
Það er öfund og ekkert annað.”
Tómas lokaði skápnum og sneri sér að henni.
“Dúdda mín, hversu oft á ég að segja þér,
að taka ekki mark á móðursjúkum kerlingum.
Hvað gerir það til þó hún skelli á?
Hvers virði er hún eiginlega? Mér er nákvæmlega sama um hana.
Vertu fegin að losna við hana og hennar líka.
Þá fáum við frið.”
Dúdda horfði hnuggin á hann.
“Tommi minn, mér er ekki sama. Mér líður svo illa. Ég vil eiga vini.”
Hann faðmaði hana að sér, strauk burt tárin og kyssti nefbroddinn.”
“Tommi, mig langar út að vinna og hitta fólk.”
“Við höfum engan tíma til að tala um þetta núna, elskan mín.
Hertu þig upp. Eins og þú hafir ekki allt, sem þú þarft.
Hvað þarftu meira? Vantar þig eitthvað?
Ég veit ekki betur en þú hafir allt til alls. Vinna!
Hvað geturðu gert? Skrifstofu?
Það er þá eitthvað til að sækjast eftir! Nei, mín kæra, nefndu það ekki.”
Hann þreif töskuna sína og setti ljósgráan hatt á byrjandi skallann,
kyssti hana létt á vangann.
“Dúddilídúin mín. Ég kem með sir Raymond eftir tæpan klukkutíma.
Þú verður að reynast mér vel. Nú, eða aldrei.”
Hún horfði á eftir honum út um skálagluggann. Hann ók rösklega út úr innkeyrslunni og dökkrauður bíllinn hvarf fyrir hornið. Hún var ein.
Eins og sálfvirk vél tók hún til höndum, setti blúndudúk á borðið,
blóm úr garðinum í vasa, kaffivélina í samband
og tók tilbúið vöffludeig út úr ísskápnum.
Brátt ilmaði húsið af nýbökuðum vöfflum.
Hún var að þeyta rjómann, þegar þeir renndu í hlaðið.
Herra Raymond var þéttvaxinn miðaldra maður, fremur hár,
hvíthærður, augun blá, ung og róleg.
Hann virti Dúddu vel fyrir sér og leit á kaffiborðið með augsýnilegri velþóknun. Af kaffiborðinu leit hann á Tómas, eins og hann vildi segja:
mjög gott.
“Gerið svo vel,” sagði hún á ensku.
Hún gætti þess að tala ekki mikið, þegar Tómas tók gesti með heim,
talaði hún helst ekki nema á hana væri yrt.
Þá svaraði hún jafnan kurteislega og brosandi.
Þau drukku kaffið og herra Raymond gerði vöfflunum góð skil.
Hún hellti koníaki í staupin, en fékk sér ekki sjálf.
Skömmu seinna, þegar þau sátu í dagsstofunni krosslagði hún fæturna.
Herra Raymond horfði þannig á hana, að hana hitaði í kinnarnar.
Tómas var svo upptekinn af samtali þeirra um vexti af lánum, veltu og rekstrarfjárlán, að hann tók ekki eftir hinum þögla samtali.
Hún lét sem hún væri mjög upptekin af orðum Tómasar.
“Ef hver lífeyrisþegi,” sagði hann, “ávaxtar fimm prósent af tekjum sínum
í fyrirtæki okkar, getum við greitt arð eftir þrjú ár.
Það er mjög freistandi fyrir fyrir þá, sem ekki sjá fram á annað en aukna dýrtíð.
Þetta hefur gefist vel annars staðar. Vandinn er að skapa traust.
Nokkrir slíkir sjóðir hafa farið á hausinn og komið óorði á þessa tegund viðskipta.
Það þyngir róðurinn. Gamla fólkið treystir þessu þá ekki eins vel.
Ef ég legg stofnféð inn hjá þé, getur þú lagt mínar prósentur inn á n
afnlausan reikning. Við splittum fifty fifty.
Herra Raymond virtist hlusta með athygli. Loks kom að því,
að hann stóð upp og þakkaði fyrir sig.
Hann tók í hönd þeirra og hneigði sig.
Tómas náði í frakkann hans.
Herra Raymond brá hægri höndinni ofan í vinstri boðungsvasann
á jakkanum sínum
og fiskaði upp nafnspjald. Hann skrifaði nokkur orð á það í flýti.
Rétt áður en Tómas kom með frakkann,
smeygði herra Raymond nafnspjaldinu undir þykkan öskubakka
á sófaborðinu. Um varir hans lék bros,
eins og hann vildi segja meira en orð leyfðu.
Þau kvöddust formlega. Þeir gengu út í bílinn og óku burt.
Hún var ein. Eftir smáhik gekk hún að borðinu,
lyfti öskubakkanum og las: “Dr. Erik Raymond.”
Heimilisfang hans var prentað.
“Kl. 8 í kvöld, Hótel Saga” var handskrifað.
Best væri að sýna Tómasi þetta og vara hann við.
Hún setti spjaldið á borðið í anddyrinu.
Hún bar fram af borðinu og var að setja diska
og glös í uppþvottavélina, þegar sonur hennar snaraðist inn.
“Mamma, mamma, er pabbi heima?”
“Nei, hann var að fara.”
“Voru gestir?”
“Já, erlendur fjármálamaður.”
“Var það hann?”
“Hann hver?”
“Pabbi sagði mér frá honum í gærkveldi. Hann sagði, að ef hann fengi samvinnu við þennan gauk, væri hann ofaná.
Hann sagði, að Siggi í Seli væri að reyna að spilla.
Er það satt, mamma, að pabbi sé að verða gjaldþrota?
Það stendur í blöðunum. Strákarnir sögðu mér,
að þá yrði hann drepinn.
Gamla fólið á elliheimilinu á svo mikið af peningum í fyrirtækinu.
Er það satt, mamma?”
Dúdda Jónasar horfði agndofa á son sinn.
Hann talaði um blaðamálið, eins og það væri spennandi reyfari.
Hann var glaður og reyfur. Gjaldþrota?
Gat það verið, að Tómas væri að verða gjaldþrota?
Það var þá satt, sem hann sagði um samninginn
við herra Raynold. Það var síðasta hálmstráið.
Hún gaf syni sínum mjólk og vöfflur og hugsaði sig um.
Tómas var einkennilega spenntur fyrir samvinnu við þennan mann,
eins og á nálum. Hún skipti sér aldrei af peningamálum hans,
en fékk mánaðarlegan eyðslueyri fyrir sig og heimilið.
Gat það verið?
Ýmislegt í framkomu hans undanfarið studdi þennan grun.
Þegar strákurinn hafði hámað vöfflurnar, sem eftir voru í sig,
fór hann inn í herbergið sitt.
Miðinn lá á borðinu í anddyrinu. Hún tók hann og setti hann í veskið sitt.
Þegar Tómas kom heim, kyssti hann hana á kinnina.
Það var glampi í augum hans.
“Þú varst frábær,” sagði hann. “Alveg frábær elskan.”
Herra Raymond virtist hafa meiri áhuga á þér en samningnum.
Þannig sannast, að konan er mikilvægari en maðurinn.
Ef vð fáum samninginn, er það þér að þakka.
Það sá ég í augunum á karli.”
Tómas gekk um gólf og neri saman höndunum.
Sviti perlaði á enni hans.
Hann var í mikilli spennu.
“Raymond sagðist ekkert geta svarað ákveðið fyrr en eftir tvo daga.
Það finnst mér einkennilegt, því þetta liggur á borðinu.
Ég er með fimm hundruð lífeyrisþega klára.
Hann ætti þess vegna að geta svarað strax.
Þau hjónin fóru snemma í háttinn þetta kvöld.
Dúdda lá lengi vakandi. Óþægileg tilfinning truflaði hana.
Hana dreymdi draum:
– Hún sat í parísarhjóli, sem snerist mjög hægt hring eftir hring.
Tómas kom hlaupandi, baðaði út höndunum og hrópaði upp til hennar.
Hún stöðvaði hjólið svo hann gæti komið upp í körfuna.
Han skalf af hræðslu og sagði, að einhver væri að elta hann,
einhver ætlaði að drepa hann.
Hún studdi á takka og hjólið fór aftur að snúast upp á við.
Þegar þeirra karfa var komin efst upp,
sá hún hóp fólks stika í átt til þeirra. Hún herti á ferð hjólsis.
Fólkið kom æ nær og sveiflaði dagblöðum.
Brátt snerust þau svo hratt, að þau sáu ekki mannfjöldann lengur.
Henni fannst hún mundi þjóta út úr körfunni,
út í mannhafið…..
Spenna næsta dags var óbærileg. Tómas var á ferðinni allan daginn,
komandi heim og spyrjandi margsinnis hvort síminn hefði hringt.
Dúdda fór í gufubað og nudd.
Hún ók litla bílnum sínum eftir breiðstrætum sem leið lá til hótelsins.
Hún spurði eftir herra Raymond.
Henni var vísað upp til hans. Hann var í gráteinóttum fötum,
hendur hans hvítar og sléttar.
Á borðiu í herberginu var vínflaska og matardiskar.
Hún var ekki svöng; þáði aðeins lauksúpu.
Þau mötuðust og hann virti hana fyrir sér af óduldum áhuga.
Hann spurði hvort hún ferðaðist stundum til annarra landa.
Þau gætu hist. Eftir matinn drukku þau kaffi og koníak.
”Kallaðu mig Eric,” sagði hann blátt áfram.
Þau skáluðu og hún kallaði hann Eric.
“Veit Tómas, að þú ert hér?” spurði hann.
“Nei,” svaraði hún og roðnaði.
“Auðvitað ekki. Hann heldur, að ég sé í saumaklúbb.”
“Gott,” sagði Eric. Þau skáluðu.
Hann fór að gæla við hár Dúddu Jónasar.
Hann hafði greinilega þörf fyrir mikla hlýju.
“Mér nægir að hvíla í örmum konu,” sagði hann.
“Þá er ég alsæll.”
Eftir stundarþögn bætti hann við:
“En ég er löngu búinn sem karlmaður.”
Dúddu Jónasar létti. Hún lét hann hvíla í örmum sér.
Líkami hans var mjúkur og barnslegur.
Hún hafði búist við öðru.
“Undarlegt,” hugsaði hún. “Þetta er engu líkara en að
hvíla nakin hjá syni sínum.”
Dr. Eric Raymond var voldugur maður, sem gat ráðið örlögum annarra.
Samt var hann svo umkomulaus.
Dúdda Jónasar var eins góð við hann og hún gat látið sér til hugar koma.
Hún fór um hann höndum eins og hún hafði gert við Friðrik son sinn,
meðan hann var enn ekki yfir það hafinn að gæla við mömmu sína.
Klukkan átta um kvöldið var Erik sofnaður.
Höfuð hans hvíldi á öxl hennar. Andlitið var blítt og slétt.
Hún færði sig hægt og rólega frá honum og klæddi sig.
Hann varð einskis var.
Breiðstræti bæjarins voru uppljómuð. Hún ók rólega heim á leið.
Henni leið vel.
Ef hún gat orðið Tómasi að liði, var líf hennar ekki til einskis.
Allt valt á afstöðu herra Raymonds og hann gat varla verið annað en
jákvæður eftir þeirra samskipti.
Þegar hún renndi upp að húsinu, var allt uppljómað.
Tómas gekk um gólf og var þreytulegur.
“Hvar í fjandanum hefurðu verið?” hreytti hann út úr sér.
“Í saumaklúbb,” svaraði hún og hengdi upp kápuna.
Hún gætti þess að líta ekki á hann.
“Hvar?” spurði hann hvasst.
“Hjá Erlu Sím,” sagði hún lágt.
“Lýgi!” þrumaði hann. “Þú varst heldur ekki hjá Oddnýju.
“Heldur ekki hjá Siggu. Hvar varstu?”
Hann minnti hana á föður hennar, þegar hann beið heima í forstofunni,
ef hún fór út á laugardagskvöldum.
Hann hrópaði alltaf: “Hvar hefurðu verið? Með hverjum?
Hvað varstu að gera?” En trúði samt engu, sem hún sagði.
Dúdda Jónasar stillti sér upp á miðju gólfi og sagði ískalt og rólega:
“Ég háttaði Dr. Eric Raymond. Hann á svo bágt með að sofna einn.
Nú sefur hann eins og lítið barn.
Áður en hann sofnaði, leit hann á mig og kinkaði kolli.
Ég held hann hafi átt við samninginn.
Tómas var agndofa. Svo snerist hann í hring. Það næsta var á kostnað húsgagnanna.
Rauði flauelissófinn brotnaði. Hann reif gluggatjöldin í skálanum niður.
Dúdda Jónasar fór inn í eldhús og hitaði sér kaffi.
Það var engu líkara en henni kæmi ekkert við hvað Tómas aðhafðist.
Hann kom á eftir henni og settist við eldhúsborðið;
eins og soltinn hundur á svipinn.
“Hvað sagði hann um samninginn?” spurði hann niðurbældri röddu.
“Ekkert,” sagði hún.
Tómas stóð upp og barði í borðið:
“Ef það bregst, drep ég þig. Mundu það!” öskraði hann.
Dúdda Jónasar bar fram kaffi fyrir tvo. Friðrik kom inn rétt í því.
“Hvað hefur komið fyrir?” spurði hann.
“Þetta voru gamlar gardínur,” sagði Dúdda. “Tími til að kaupa nýjar.”
“Hafðu þær bláar, mamma,” sagði Friðrik.
“það fer svo vel vð nýju húsgögnin. “Hafðu þær ljósbláar.”
“Ég skal hafa þær ljósbláar, elskan mín,” sagði Dúdda og strauk hár hans.
“Ljósbláar eins og augun í þér, eins og augun í okkur öllum.
Þannig skal það vera.”