Einn á ferð

SÖGUR FRÁ 1974

Hjarnið var ýmist slétt eða ávalt svo langt sem augað eygði,
þar til það rann í fjarska saman við þungbúinn himin.
Mannaferða var varla að vænta í dag.
Enginn, sem þekkir náttúru og veðráttu þessa lands
mundi leggja í þá tvísýnu að ferðast um öræfin,
jafnvel þótt brýna nauðsyn bæri til.
Strjála snjómuggu dreif að í hrinum, sendiboði storms.
Hún hringaði sig utan um kotið á heiðinni og undirbjó næturárás.
Stormurinn mundi skekja þakið, sem farið var að losna frá sperrunum.
Ef til vill mundi hann feykja því í heilu lagi,
eða búta það smátt og smátt í sundur.
Það var aukaatriði, fannst henni.
Hún hafði lifað og séð annað eins.
Best væri að hreiðra um sig á loftinu við gluggann
og fylgjast með ofsóknum veðursins, jafnvel hvetja storminn,
ef henni fyndist hann hika.
Langt var síðan hún hafði fundið arma ofviðris takast á við
þennan gamla bústað, sem var að hruni kominnn sakir elli og vanhirðu.
Útihúsin voru löngu farin, leifar kindakofans
grotnuðu niður í síðustu vorleysingum.
Nú var komið að sjálfum bænum og henni.
Hvað skyldi verða um hana?
Jú, hún yrði að flytja, en hvert? Enginn kærði sig um hana.
Hún yrði alls staðar fyrir.
Hún var brotleg að guðs og manna lögum, dæmd til einveru
og að því er virtist til ævarandi útlegðar.
Til allrar hamingju var sumarið liðið með sífelldri umferð
spölkorn frá bæjardyrunum.
Sumir ferðamenn gerðu sér það ómak að staldra við stundarkorn,
taka myndir af hreysinu, stela minjagripum
og traðka um allt eins og bærinn væri allra eign.
Þá hélt hún sig innst inni á loftinu og gætti þess að láta ekki á sér bera.
Piltur einn hafði einu sinni gert sér lítið fyrir
og migið utan í hlóðirnar niðri.
Þá gat hún ekki á sér setið, en skarkaði með fjöl á gófinu uppi
og lét hana svo detta niður um glufu rétt hjá honum.
Hann hafði tekið á rás út og kallað til samferðafólksins,
að sú gamla væri í essinu sínu; hún hefði reynt að drepa hann.
Þetta vakti mikla kátínu.
Öll höfðu þau horft upp í gluggann til hennar,
en enginn hafði árætt að koma inn, eða leita uppgöngu á loftið.
Þar næst þeystu þau úr hlaði á sjálfrenningum sínum
og ekki sá hún þau andlit aftur.
Veturinn var hennar tími.
Þá fór hún allra sinna ferða utan bæjar sem innan,
án þess að verða fyrir því að mæta ókunnugum
og forvitnum manneskjum,
sem ekki áttu annað erindi en að míga utaní.
Stormurinn færðist óðfluga nær.
Ekki varð lengur aðgreint hvað var himinn og hvað jörð.
Hún tók löng skref að bæjardyrunum,
sló lokunni fyrir að innanverðu og fikraði sig síðan inn eftir göngunum,
sem voru ójöfn og forarkennd
vegna slagans og lekans.
Á leiðnni upp á loftið hafði hún ljóskerið með.
Ef svo ólíklega skyldi vilja til, að einhver álpaðist út í þetta veður,
gæti ljósið í glugganum orðið til bjargar.
Hún vafði sjalinu um herðarnar og settist á kassa vð gaflinn,
tyllti ljóskerinu á nagla og beið.
Fyrstu faðmlög illviðrisins voru stutt og krampakennd með hléum,
eins og náttúrukrafturinn væri aðvelta því fyrir sér hvar bestu taki
yrði náð á þessu bæjartildri.
Átökin urðu lengri og hressilegri með skyndiáhlaupum og brestirnir í sperrunum gáfu til kynna hver yrðu leikslok, annað hvort nú eða seinna.
Meðan Ketill lifði hló hann að storminum og manaði húsið
til að svara með traustabrestum.
Ketill. Hann þoldi ekki áfallið. Í stað þess að refsa henni fyrir það,
sem hún gerði veslaðist hann upp.
Hvers vegna drap hún barnið? Vegna þess,
að það var meiri glæpur að láta það lifa í þessum heimi óréttlætis
og fátæktar en að láta það lifa við þeirra kjör.
Hennar barn hefði áreiðanlega þurft að þola sama skort og hún,
sömu þrælkun við að yrkja annarra manna jörð og sömu sultarlaun,
sem voru afskiptaleysi og fyrirlitning.
Aldrei, ekki eitt augnablik, hafði hún iðrast þessa verknaðar.
Um leið hafði hún þó dæmt sjálfa sig til útskúfunar.
En hafði hún ekki alltaf verið útskúfuð?
Var þessi einvera hennar nokkuð verri en einveran,
meðan hún sjálf var barn og unglingur.
Stormurinn var nú orðinn svo æðisgenginn,
að bærinn nötraði og gekk til undan þrýstingnum.
Ljósið flökti. Ýmist var kertisloginn alveg kyrr,
eða titraði og sperrti sig.
Hún lagði andlitið að glugganum eins og til að
skyggnast eftir einhverju,
en sá ekkert nema hvítar flyksur með svartan svörð að baki,
vegg, sem þrátt fyrir stærð sína var ekki nógu þéttur
til að rjúfa loftsgaflinn í einu áhlaupi.
Langt var liðið nætur og hún hallaði sér aftur á kassanum
með bakið upp að loftsstoðinni.
Með hálflukt augu beið hún þess, sem verða vildi,
fullkomlega róleg eins og sú, sem hefur verið dæmd til
að vinna ákveðið verk.
Hugur hennar leið yfir æviskeiðið allt frá byrjun
– á flækingi með móður sinni milli bæja og þorpa, hrædd alla tíð.
Hún var ekki annað en unglingur, þegar móðir hennar
samdi við Ketil um,
að hann fengi hana til sín.
Hann virtist vera ánægður með allt, þar til hún sendi barnið yfir
í annan og betri heim…..
Að eyrum hennar barst nú hljóð, sem ekki var stormsins og ekki hússins.
Úti í myrkrinu var kallað: “Hleypið mér inn.”
Sjáöldur hennar stækkuðu og bros breiddist yfir andlitið.
Loksins, loksins var kominn gestur. Friðþægingin, tækifærið.
Hún hafði hraðann á.
Með ljósker í hönd gekk hún óhikað niður af loftinu og út ójöfn göngin.
Lokan var þung og stíf og þegar hurðin losnaði úr spennunni
steyptist kafaldið inn, svo hún hrökk til baka.
Enginn var sjáanlegur úti fyrir, en hún þóttist viss um,
að hafa heyrt mannsrödd.
Hún barðist á móti veðrinu út úr gættinni.
Á grjótvegg milli húsgaflanna lá hvítt hrúgald.
Þegar betur var að gáð, lá þar mannvera svo máttfarin,
að hún gat sig hvergi hrært.
Hún varð að hálfbera og draga manninn inn og neyta allra sinna krafta
til að spenna hurðina fasta á ný.
Með miklum erfiðismunum gat hún dröslað manninum inn á eldhúsgóflið.
Það var varla mannslag á þessum stirðnaða hvíta ísdrumbi.
Þegar hún hafði náð af honum yfirhöfninni og höfuðfatinu, sá hún,
að þetta var ungur og fríður maður.
Úr pilsvasanum dró hún smáglas og hellti úr því innfyrir varir hans.
Hálffrosnar hendurnar nuddaði hún milli þess,
að hún hellti í hann af glasinu.
“Takk,” stundi hann. “Takk.”
Hún tók af sér sjalið og breiddi ofan á hann. Svo féll hann í mók.
Á loftinu tók hún kassann og annað ljósker.
Með aðstoð ljóssins tókst henni að þíða stígvélin og verma þau.
Langar stundir sat hún á kassanum við hlið hans meðan storminn lægði
og morgunskíman þrengdi sér inn um gluggaborurnar,
sem voru hálffullar af snjó.
Hún hafði ekki augun af gestinum og fylgdist vandlega með
andardrætti hans, sem varð greinilegri eftir því sem á leið.
Án þess að hreyfa sig opnaði hans loksins augun.
Þau horfðust í augu um stund.
Hann hafði dökk, allt að því svört augu, sem horfðu rólega
og hispurslaust á hana. Henni fannst hún hafa séð þessi augu áður.
Hann brosti ekki, hreyfði sig ekki og sagði ekkert, en horfði á hana,
þar til hún spurði hvernig honum liði.
“Betur en í nótt,” svaraði hann. “Ljósið þitt bjargaði mér.
Þegar ég var lagstur til að deyja þarna einhvers staðar útfrá,
sá ég ljós á stærð við fjarlæga stjörnu. Það kom og fór.
Í verstu éljunum hvarf það, en birtist alltaf aftur í hvert sinn,
sem stormurinn dró andann. Svo man ég ekki meir.”
Hún vildi fá að vita hvernig stæði á ferð hans á þessu veraldarhorni,
í þessu vonskuveðri…
Hann sagðist hafa lagt á heiðina í rammbyggðum jeppa með margar vistir
og áttavita, þaulvanur vetrarferðum.
Hann hafði misst bílinn niður um ís á ánni og bjargast með naumindum,
áður en bíllinn sökk. Líklega hafði hann farið yfir á röngum stað.
Hann skimaði í kringum sig og leit undrandi á hana.
“Býrð þú hér?” spurði hann.
“Já,” svaraði hún og brosti.
“Ein og óháð bý ég hér, drottning í litlu ríki.”
Undrun hans leyndi sér ekki. Hann reis upp til hálfs.
“Alein og allslaus? Hér er ekkert.”
“Áttu nokkuð að borða?” spurði hann svo hikandi.
“Já, vissulega,” svaraði hún.
Hún kleif léttum skrefum innar á ójafnt loftið og sótti matarkassa.
Maðurinn var aftur á móti stirður í hreyfingum og hann svimaði,
þegar hann reis upp af bekknum, sem hann hafði legið á.
Hann fór í hálfblautan jakkann og undraðist hvers vegna konan
hafði ekki þurrkað hann við eldstóna.
“Vesalings konan,” hugsaði hann. “Hún þarf að komast til byggða.”
Maturinn var fátæklegur, flatbrauð, harður ostur og tólgarbiti.
Það smakkaðist þó vel, því hann var lerkaður.
Hann spurði hvort hún ætti kaffi, heitt kaffi.
Hún bar honum tinkönnu með hálfvolgu kaffiglundri í.
“Hefurðu búið hérna lengi ein?” spurði hann.
“Síðan maðurinn minn dó fyrir um það bil tíu árum.
Hann var lengi veikur.”
“Langar þig ekki til byggða?” spurði gesturinn.
“Jú,” var svarið, “en þangað á ég af ýmsum ástæðum ekki afturkvæmt.”
“Hvers vegna ekki?”
“Ég drap barnið mitt,” svaraði hún rólega.
Hann hætti að tyggja og hnyklaði brýrnar.
Eftir langa þögn spurði hann:
“Hvers vegna?”
“Ég vildi ekki láta það lifa í þessari veröld.
Það var drengur. Hann væri sjálfsagt á aldur við þig núna.
Hann hafði svona dökk, stór, næstum því svört augu alveg eins og þú.”
Gesturinn lagði kaffikrúsina frá sér.
Þegar hann hafði borðað tvær sneiðar af flatbrauði,
féll hann í væran svefn, nánast í mók.
Fjórum stundum seinna vaknaði hann og sá, að hún sat enn hjá honum.
Hún hafði breitt gatslitið teppi yfir hann.
“Fyrirgefðu að ég sofnaði,” sagði hann.
“Þú varst örmagna,” sagði hún.
“Við vorum að tala um son þinn,” sagði hann hikandi.
“Þú settir hann þó sjálf í heiminn.”
“Ég var ekki spurð,” svaraði hún og brosti út í annað munnvikið.
“Er langt héðan af heiðinni niður til byggða?” spurði hann.
“Tveggja stunda röskur gangur þeim, sem ratar.”
“Viltu fylgja mér áleiðis?” spurði hann.
“Ég get fylgt þér að heiðarbrúninni.
Þá sést til Ýtustaða og þaðan er þröngur vegur hvert sem er.”
“Veðrinu hefur slotað, er það ekki ?” spurði hann.
“Jú, nú er stilla,” svaraði hún.
Hún færði sjalið yfir herðar sér og bjóst til að ganga út.
Hann bað hana að klæðast betur, úti væri kalt.
Hún sagðist ganga sér til hita, auk þess sem hún væri ýmsu vön.
Hann fór í stígvélin og yfirhöfnina.
Hún gekk á undan út göngin.
Úti var hvítt og og bjart með ljósbláum heiðskírum himni.
Þau gengu á hjarninu, sem var mannhelt, undan sól í vesturátt.
“Ég er bóndi,” sagði hann.
“Þegar ég fer austur aftur geturðu komið með.
Það er hlýtt og notalegt í bænum okkar og mun veðursælla en hér.
Hvað heitirðu?”
Hún svaraði ekki strax og þau gengu áfram drjúgan spöl.
“Gríma heiti ég og er þekkt undir því nafni.
Ef þú spyrst fyrir um mig, veit ég, að þú stendur ekki við þetta boð þitt.
Mig vill enginn hafa, hvorki guð né menn.”
“Lífstíðarfangelsi er að mig minnir 16 ár,”
sagði hann hughreystandi.
“Þú hefur þegar afplánað með veru þinni hér,
sem mér sýnist vera verri en fangelsi.
Því skyldir þú vera dæmd harðar en aðrir?”
Þau gengu áfram yfir eggslétt hjarnið. Hann sá hana út undan sér,
þótt hann horfði ekki á hana og beið þess, að hún segði eitthvað.
Hendurnar voru djúpt í handar-krikunum
og jöfnum skrefum gekk hún áfram. Augun voru frán sem arnar, er skimar yfir allt í leit að dökkum díl.
Hann skalf af kulda, því fötin voru frosin á ný og varð að beita sig hörku
til að láta á engu bera.
Heiðarbrúnin varð smám saman greinilegri.
Þegar þau stóðu á barmi dalsins, blasti við landflæmi,
þar sem snævi þaktir sveitabæir og djúpt niðurgrafin,
mórauð jökulá voru einu lífsmerkin í ríki vetrarins.
“Undir neðsta hæðardraginu eru Ýtustaðir,”
sagði hún og bar höndina yfir augun. Þar færðu HEITT kaffi.”
Hann þrábað hana að koma með sér, en hún svaraði því engu,
brosti bara.
Hann sagði að lokum, að hún mundi heyra frá honum, því þau ættu óuppgerðan reikning og hann mundi koma til að ganga frá honum.
Þau kvöddust með handabandi.
Hönd hennar var köld, enda mikið frost.
Þegar hann kom að hæðardragi fyrir ofan einn af bæjunum,
leit hann um öxl. Hún stóð í sömu sporum á brúninni.
Sítt pilsið bærðist til fyrir næðingnum á heiðinni.
Kollarnir á girðingastaurunum gægðust upp úr snjónum undir fótum hans. Reykur liðaðist upp úr bæjarstrompinum á Ýtustöðum.
Hann barði að dyrum. Barnsandlit bauð honum að ganga í bæinn.
Heimafólk sat að morgunverði og honum var boðið sæti.
Hann varð að segja sögu sína í smæstu sem stærstu atriðum.
Fólkið hlustaði með ódulinni ákefð.
Bóndinn vísað honum til herbergis og færði honum þurr og hlý föt.
Síðan bauð hann honum til stofu og þeir tóku tal saman.
“Ég þekkti svolítið til í heimabyggð þinni, Guðmundur,” sagði bóndinn.
“Ég þekki frænda þinn á Hofi. Ég veit, að þið eru ábyggilegt fólk.
Gríma hefur sést æ sjaldnar á síðustu árum og flestir voru farnir að álíta,
að hún væri loksins búin að fá frið.
Hún tók ekki einungis líf á sínum tíma.
Hún hefur margsinnis gefið líf, bjargað lífi.
Hefði hún ekki sent ljósið út í sortann, værir þú eflaust horfinn
undir hjarnið og fyndist ekki fyrr en í vor.
Þannig hefur hún bjargað þó nokkrum.”
“Hvers vegna var hún ekki handtekin fyrir morð?” spurði Guðmundur.
“Hreppsstjórinn lét leita um stórt svæði á heiðinni að staðnum,
þar sem hún gróf barnið. Ekkert fannst og við ekkert var að styðjast
nema ruglingslegan framburð Ketils, mannsins hennar..
Sjálf svaraði hún ekki orði, þegar hún var spurð og þóttist
ekkert eiga vantalað við yfirvöldin.
Stuttu eftir að Ketill dó, fundu ferðamenn Grímu, stirðnað lík,
sem hékk í stigagatinu.
Guðmundur áttaði sig ekki strax á síðustu orðum bóndans.
Smám saman slaknaði á andlitsvöðvum hans
og stór svört augun leituðu út um gluggann að heiðarbrúninni,
en hún sást ekki vegna hæðarinnar, sem bar á milli.