Fagrar Stundir
© 2008 Inga Birna Jónsdóttir
SÖGUR FRÁ 1974
“Frú Anna Sigríður, hefurðu nokkurn tíma elskað?”
spurði hann ákafur og mundaði blýantinn.
Hann var að taka viðtal og hún hafði beðist undan hljóðupptöku.
“Mér líður illa gagnvart maskínu, sem tekur miskunnarlaust upp allt,
sem maður segir.
Mannshöndin er betri, því maður getur breytt ýmsu eftirá.”
Frú Anna Sigríður Þorgrímsson sat í djúpum, bólstruðum
og útskornum stól í dagsstofu sinni á Silfurgötu 14.
Hún var komin nokkuð yfir miðjan aldur, fremur grönn,
drapplitt hár blandað silfurlitum þráðum, grannar hendur
og brosandi augu, þótt munnsvipurinn væri alvarlegur.
Hann var sterklegur ungur maður með sólbakaða húð,
svart mikið hár og brún möndlulaga augu.
“Tómas Jafetsson,” sagði hann, þegar hann kynnti sig,
frá vikublaðinu FAGRAR STUNDIR,
eftirsóttasta tímariti samtímans.
Frú Anna Sigríður Thorgrímsson hafði ekki samþykkt það
mótþróalaust að láta hafa eftir sér viðtal í svo útbreiddu blaði.
Alls konar fólk mundi lesa það, fólk, sem hún hafði engin kynni af,
verkafólk og jafnvel börn.
Eftir langa umhugsun komst hún þó að þeirri niðurstöðu,
að sér bæri að leyfa viðtalið.
Hún var siðferðilega skyldug tilþess, fannst henni.
Síðan maðurinn hennar sálugi dó, Sigvaldi Thorgrímsson,
fyrrverandi formaður Framfaraflokksins og aðalerfingi
að Skipa- og stálsmíðastöðinni h/f, hafði hún lifað sínu eigin lífi.
Þegar hann dó, sagði hann við hana:
“Anna Sigga mín, gleymdu ekki að lifa lífinu, þótt ég fari.
Ég hef allt of oft gleymt því.
Farðu út á meðal fólks og gerðu gagn.”
Þegar hann var dáinn, var hún ekki alveg viss um
hvað hann hafði átt við.
Hún sat lengi í dagstofunni sinni einn laugardagseftirmiðdag
og hugsaði málið.
“Farðu út á meðal fólks, Anna Sigga og gerðu gagn.”
Hvað þýddu þessi orð?
Hún velti því fyrir sér hvort hún ætti að gerast virkari í kvenfélaginu.
– Æ, nei.
Hann sagði: “Anna Sigga mín, gleymdu ekki að lifa lífinu.”
Henni hafði alltaf leiðst kvenfélagið. – Sóknarnefndin?
– Nei. Það var heldur ekki að lifa lífinu.
Það tók hana heilan laugardagseftirmiðdag að finna leið.
Hún fór að vinna á barnum á aðaldansstað bæjarins, Klúbb 60.
Það var ekkert nýtt fyrir hana.
Maðurinn hennar sálugi hélt margar fínar veislur.
Þá bar hún fram drykki og hafði stúlku í eldhúsinu
til að sjá um aðrar veitingar.
Sigvaldi Þorgrímsson naut þess að hafa konuna sína
mitt á meðal vina.
Það kitlaði hégómagirnd hans, þegar þeir renndu til hennar hýru auga.
Hjónaband þeirra var mjög gott og hún þurfti aldrei
á öðrum manni að halda.
Það var nú liðin tíð. Síðan voru tíu ár og margt hafði gerst.
Henni fannst ungi maðurinn frá “Fagrar stundir,” – hvað hét hann nú? –
Tómas Jafetsson, ganga nokkuð beint að efninu með þessari spurningu,
en aftur á móti líkaði henni vel látlaus framkoma hans,
safari jakkinn og svart faxið.
Hún var vön að virða unga menn fyrir sér og var fljót að sjá
hvernig þeir voru.
Sumir voru svo uppteknir af framtíð og frama,
að þeir gleymdu að lifa. Þeir nutu ekki augnabliksins.
Þannig hafði Sigvaldi oftast verið. Sumir aðrir voru tærir í lund eins og bergvatnslind.
Þeir höfðu tíma til að staldra við og njóta stundarinnar.
Þeirra var lífsnautnin frjóa.
Henni virtist Tómas Jafetsson vera einn af þeim.
“Frú Annna Sigríður, hefurðu nokkurn tíma elskað?”
endurtók hann og mundaði blýantinn óþolinmóður
eins og hann héldi í beisli á óstýrilátum fáki.
“Það að elska er svo margbreytilegt,” svaraði Anna Sigríður.
“Auðvitað hef ég elskað.
Það hafa flestir gert. Ég hef ekki eignast börn og þess vegna
hef ég ekki elskað mina eigin afkomendur.”
“Þú hefur skrifað svo mikið um það að elska, ástina,” sagði hann.
“Lesendur blaðsins hafa sérstakan áhuga á þessari föstu
vikulegu spurningu og þess vegna finnst mér rétt að byrja á henni.”
“Já, hver hefur ekki áhuga á þeirri spurningu,” svaraði Anna Sigríður
og virtist hugsi. “Þegar ég var ung var ég hrædd við ástina.
Ég sá hvað gat gerst, ef ungar stúlkur lifðu hömlulaust.
Ef ég hefði til dæmis gefið mig á vald þeirri tilfinningu vegna pilts,
sem ég kynntist á ferðalagi í sveit fyrir mörgum árum, væri ég bóndakona núna. Það hefur mig aldrei langað til að vera.
Þess vegna varð ekkert úr því sambandi.
Ég vildi hitta þann rétta. Það tók sinn tíma.
Sigvaldi uppfyllti allar þær kröfur, sem stúlka getur gert.
Tómas Jafetsson skrifaði og skrifaði, meðan hún talaði,
en svo sagði hann:
“Ég á ekki við þess háttar ást, heldur ást, sem getur sett mann í vanda
og hefði ef til vill fengið þig til að leggja allt í sölurnar fyrir þann sama.”
Anna Sigríður Thorgrímsson hugsaði sig um.
“Fáðu þér smáköku,” sagði hún og rétti fram disk.
Tómas lagði frá sér blað og blýant og fékk sér köku og kaffi.
Bollin var hvítur með kínverskum blómum.
Meðan hann borðaði og drakk var sem losnaði um stíflu.
Anna Sigríður talaði af hjartans list.
“Víst hef ég elskað. Þér og lesendum þínum finnst það kannski auðvirðilegt,
en ég hef ekki gert annað síðan Sigvaldi dó. Laugardagseftirmiðdaginn,
þegar ég sat hér og hugsaði um hans orð varð ég að finna svarið við því
hvað það er að lifa lífinu.
Eina svarið af viti, sem ég gat fundið var, að það að elska er að lifa
og það að lifa er að elska.
Þegar ég stend inni í barnim sé ég mörg andlit. Fæst þeirra taka eftir mér.
Fólk pantar drykki og fer með þá.
Ég hef séð ungan mann skjálfa og svitna af því einu, að fólk stóð of þétt upp við hann. Hann var hræddur við nálægð þess.
Ég tók hann með mér heim og kenndi honum, að nálægð er góð og hlý.
Þetta var mjúkur og góður drengur, sem þurfti að læra að gefa sig.
Hann fór glaður burt. Hann var góður, þegar hann fór.
Hann hefði getað orðið vondur maður, ef hann hefði ekki fengið að koma
svo nálægt annarri manneskju.
Seinna fór ég heim með nokkra unglinga, sem voru að reykja hass. Dyravörðurinn aðvaraði mig, sagði að hegðun mín gæti þýtt fangelsi og mannorðsmissi.
Ég tók unglinga með mér heim, bjó til mat, setti fína músik
á grammofóninn.
Maður á ekki að spara sig. Þeim fannst mikið til um,
að kona á mínum aldri skyldi nenna að blanda geði við þau.
Þau buðu mér hass. Ég þorði ekki að prófa það.
“Lífið er svo dásamlegt,” sagði ég við þau, “að ég vil ekki sljóvga mig.”
Þau horfðu á mig, dökkum, djúpum augum.
Í sumum þessara unglingsaugna var djúp sorg og einmanaleiki,
sem ég hef ekki séð áður.
Ungur piltur í hópnum fannst skjálfandi af hræðslu inni í kompu.
Hann var hræddur við járnbrautalest.
Hversu fjær raunveruleikanum er unnt að komast?
Hann fékk að leggja sig og vinur hans sat hjá honum,
meðan hann var að róast.
Þau fóru öll um morguninn. Ég hef oft hitt þau síðan,
á barnum og víðar.”
Það var þögn. Tómas hafði alveg gleymt blýantinum.
Anna Sigríður hellti koníaki í glas hans.
“Fáðu þér koníak og vindil,” sagði hún.
Hendur hennar gældu við bollann og koníaksflöskuna,
fagrar hendur og rólegar.
Enn var þögn. Um varir hennar lék hálfgert bros. Þau skáluðu.
Það var afbragðs koníak.
Hann sagði ekkert, en horfði spyrjandi á hana.
“Víst hef ég elskað,” sagði hún “Einu sinni var það sárt,
hættulegt og erfitt, en samt þess virði.
Hann var teiknari,- einn af þessum ríku mönnum,
sem ekki þurfa annað en draga strik á blað, eða lyfta augabrún dálítið og heimurinn stóð á öndinni. Hann fékk skyndilega og ofsalegan áhuga á mér, spurði aldrei hvort hann mætti þetta, eða hitt, allt með elegans,
af því að allt var honum sjálfsagt.
Hann gerði hlutina sjálfsagða.
Við sátum hér í stofunni minni dag einn og drukkum írskt kaffi.
Allt í einu segir hann:
“Anna Sigga mín, elskan mín, viltu lána mér skuldabréfin þín?”
Það kom á mig hik, því skuldabréfin og húsið er það,
sem heldur í mér lífinu og gerir mig frjálsa.
Með skuldabréf og húseign þarf ég ekki að biðja um leyfi til neins
og get lifað áhyggjulausu og hófsömu lífi.
Aurarnir fyrir vinnu á barnum hrökkva varla fyrir mat.
Svart skegg hans, tindrandi augun, röddin og vandræði hans ollu því,
að ég lét hann hafa skuldabréfin.
Eitt augnablik á meðan ég var að afhenda þau hvarflaði að mér,
að nú færi hann, nú sæi ég hann aldrei aftur.
Samt lét ég hann hafa þau.
Hann faðmaði mig fullur þakklætis og elsku. Það faðmlag og sú ást,
sem á eftir kom var meira virði en öll skuldabréf.
Hann fór skömmu síðar, en skildi eftir minningu, sem er heit og hrein.
Hefði ég ekki látið hann hafa bréfin væri hann kannski hér enn.
Tómas Jafetsson var orðinn rjóður í kinnum hvort sem það var af koníakinu, smákökum, eða einhverju öðru.
Hann hafði gersamlega gleymt “Fögrum stundum”
og þegar hönd hennar snerti hans undir kökudiskinum,
sem hún rétti fram, gaf hann sig henni á vald af líkama og sál.
Það var að vísu eftirmiðdagur í mjög svo borgaralegu hverfi
og hún var þegar búin að gefa burt mikla ást og þó nokkur skuldabréf.
Samt var mikið eftir.
Hann furðaði sig á því, að kona sem elskaði jafn mikið ætti svo mjótt rúm.
“Frú Anna Sigríður, – nú hefurðu elskað,” sagði hann.
“Því hætti ég aldrei, kæri vinur,” sagði hún rólega,
“ekki nema maður eti ástina sína.
Það gera svo margir,- raunar flestir. Það hef ég alltaf forðast.”
Tómas Jafetsson skildi ekki alveg hvað hún átti við.
Hann gat ekki gert sér í hugarlund, að fólk æti ástina sína.
– Það er ef til vill eitthvað, sem konur gera,- hugsaði hann.
Á meðan hann var að klæða sig og búast við að ljúka viðtalinu
niðri á blaði. Virti hann hana fyrir sér.
Hann sá ekki betur en að hún væri ánægð, allt að því södd.
Hvað hafði hún etið? Hann?