Fjallkonan – ræða

Ræða haldin á samkomu 17. júní 1997
í Islands Center, Ubby, Danmörku
Saga Fjallkonunnar:
Árið 1752 orti Eggert Ólafsson erfiljóðið “Ofsjónir” um danska drottningu.
“Lengst uppi í dalnum, þar sem áin kemur fram, situr kona nokkur á steini.
Yfir höfði hennar stendur skrifað “Ísland.” Hún hefur yfir sér svarta kvenskykkju þrönga,
undir hefur hún stuttan niðurhlut og silfurbelti um sig miðja, þunna skó á fótum,
lítinn stinnan kraga um hálsinn, hulið höfuð með svörtu silki og kvenhatt með silfurskildi.
Þessi kona hefur með öllu sorglega ásýnd, styður vinstri hönd undir kinn og horfir til himins.
Til hægri handar standa nokkrar kýr og blína á hana, sem þeim finnist hún vera óvenjuleg að látum og limaburði.”
Hún var síðan kölluð “Eykonan Ísland.”
Skáldið bregður upp mynd af óhamingjusamri konu.
Vestur Íslendingar tóku upp siðinn um þá fjallkonu, sem við þekkjum, frá aldamótunum 1900 á þorrablótum og frá 1924 á Íslendingadegi.
Þetta varð að Fjallkonunni fríðu á Íslandi.
Þegar Kristjana Milla Thorsteinsson, dóttur-dóttir Hannesar Hafsteins, átti að flytja ræðu Guðmundar Böðvarssonar vegna stofnunar íslenska lýðveldisins árið 1944, var rigningin svo óskapleg, að ekki þótti ráðlegt, að hún færi upp á sýningarpallinn, því hætta var á, að hinn lánaði búningur skemmdist.
Loks, þegar stytti upp eitt andartak og hún var á leið upp, hafði Vignir Andrésson notað tækifærið fyrir fimleikasýningu sína.
Þannig er með Dóru Diego og Gulla Arason, eigendur Islands Centers hér í Ubby á Sjálandi, að það er ekki veðrið, heldur skortur á skautbúningi,
sem gerir, að ljóshærð, ung og falleg leikkona kemur ekki fram hér, eins og siður er.
Samt: til hamingju með 53 ára afmæli íslenska lýðveldisins.
Þjóðaratkvæði fór fram um sambandsslitin við dani og stjórnarskrána. Þátttakan var 98.6%. 97.4% vildu sambandsslitin, 95% stofnun lýðveldisins.
17. júní var afmælisdagur Jóns Sigurðssonar.
Á Þingvöllum voru 25 þúsund manns samankomnir þennan stofnunar dag.
Á Völlunum voru 2500 tjöld, vegurinn til Þingvalla var gerður ökufær að þeirra tíma mati.
1944: Þingvellir, úrhellis rigning, Oddur sterki í fullum víkingaskrúða, fjölmargar ræður, biskupinn, sem blessaði mannfjöldann,
300 manna blandaður kór söng, Sameinað Alþingi hélt fund á Lögbergi – á dagskrá var gildistaka nýrrar stjórnarskrár og forsetakjör.
Stjórnarskráin var samþykkt og kirkjuklukkum var hringt um allt land kl. 14. Þá var þögn í eina mínútu.
Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands.
Kristján X danakonungur sendi heillaóskaskeyti og lúðrasveitin lék “Kong Christian stod ved Højen Mast.” Þá var hrópað ferfalt húrra fyrir konungi.
Eins og áður segir, gat Fjallkonan ekki komið fram vegna látlausrar stórrigningar.
Í ljóðasamkeppni dagsins sigruðu: Hulda: Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, fyrir “Hver á sér fegra föðurland” og Jóhannes úr Kötlum fyrir “Land míns föður.” Tónskáldin Emil Thoroddsen og Þórarinn Guðmundsson sömdu lögin við og unnu lagasamkeppnina.
Síðan hefur 17. júní verið haldinn á margvíslegan hátt.
Haldnar voru kvöldvökur, fyrst í Hljómskálagarðinum og svo á Arnarhóli með balli á Lækjartorgi og Ingólfstorgi.
17. júní 1957 dansaði Helgi Tómasson ásamt Önnu Guðnýju Brandsdóttur á barnaskemmtuninni á Arnarhóli.
Frá árinu 1950 stóð Fegrunarfélag Reykjavíkur fyrir fegurðarsamkeppni kvenna í Vatnsmýrinni.
Í fréttum árið 1960 fjallaði Morgunblaðið um “æðisgenginn drykkjuskap” aðfaranótt 17. júní.
Næsta ár, 1961 kvað Vedurstofan upp úr með “Norðankalda, en stinningskalda síðdegis. Skýjað en þurrt.”
Hið kaldasta hafði þó komið til Íslands árið 1949, en það var “Kalda stríðið.” Það var verra en nýlendustjórn dana.
Þjóðin skiptist í tvennt. Orðið “kommúnisti” virkaði eins og svipuhögg á marga.
“Humanistar,” þ.e.a.s. menntamenn, mannúðarsinnað fólk, barnapíur, einstæðar mæður, allir, sem vildu eitthvað annað en kaupahéðinsstefnu í hvívetna,
fundu fyrir svipu orðsins.
Svo kom “bæling hamingjunnar” á dagskrá.
Borgarstjórinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur sagt: “Það kostar vinnu, djörfung og ræktarsemi að efla fullveldi og sjálfstæði.
17. júní á því ekki sðeins að vera til minningar um atburði, sem gerðust fyrir fimmtíu árum, heldur á hann að efla okkur til dáða og nýrra landvinninga í nútímanum.”
Þegar ég las orð Sólrúnar hugsaði ég, að á þráðlausum elektróðutímum ætti að vera opin braut fyrir íslenska andagift. Hvað þá með Fjallkonuna? Gaman væri að sjá hana á veraldarvefnum, því hún er tákna ytri fegurðar og reisnar, eins og allt Ísland.
Vættur hvíslaði að mér, að íslendingar séu alveg eins duglegir og danir að bæla hamingjuna, því dansinn í kringum gullkálfinn gerist æsilegri með hverju ári, sem líður.
Vætturinn sagði einnig, að grafa beri upp mikla hamingjuforða, sem liggja bældir, bæði á Íslandi og í gamla konungsríkinu Danmörku.
Ef ekki væri svona mikil bæld hamingja í mestum hluta heimsbyggðarinnar, þá hefði enginn þorað að gerast liðhlaupi í Kalda stríðinu og fara leiðar sinnar á vit þess, sem verða skal.
Þá værum við ekki að halda upp á 17. júní í dag í Ubby á Sjálandi.
Nú er tími vætta að grafa upp hina bældu hamingju.
“Islands Center” er eina íslenska kaffihúsið á Sjálandi fyrir utan Jónshús í Kaupmannahöfn. Kaffihús er staður samtalsins.
Það er því engin furða, þótt íslendingar leiti víða og setjist að í löndum langt frá Fjallkonunni.
Fyrr eða síðar tekst engum að bæla hamingju annarra.
En eins og Sólrún sagði: “Það kostar vinnu, djörfung og ræktarsemi að efla fullveldi og sjálfstæði.
17. júní á því ekki einungis að vera til minningar um atburði, sem gerðust fyrir mörgum áratugum, heldur á hann að efla okkur til dáða og nýrra landvinninga í hugarheimi nútímans.”
Innilegar hamingjuóskir með 53. afmælisdag frelsisins.
Ef til vill er það ekki langt undan.