Flyðran í sjónum

Tölfræði, tölfræði,
seg þú mér
frá flóttakonum í heimi hér.
Áttatíu af hundraði
þær eru,
þá allt er talið með.
Tuttugu prósent er karlalið.
Hver hefur sett þennan leik á svið?
Segðu mér satt,
segðu mér alltaf satt.
Þegar jörðin brennur,
tek ég minn hatt.
Ég fer út í heiminn
sem beiningakona.
Allt vil ég heldur
en lifa svona.
Segðu mér satt,
segðu mér alltaf satt.
Þegar þú tekur líf mitt frá mér
og beygir mig niður í gólf,
tek ég minn hatt,
Segðu mér satt.
Þú,
sem ert sterkur
og ræður öllu
og gerir svo margt,
bara,
að þú gætir lært
að segja satt.

Mig langar að vita
hvað menn mega elska,
en hvernig læt ég,
það er hérna allt.
Tölfræðin hefur loksins
sagt satt.

Þeir kjósa hvern annan,
þeir hylla hvern annan,
þeir klappa í kór.
Menntun þeir fengu,
matinn á borðið
og Kalli varð stór.

Hann horfði á heiminn
gegnum glugga síns vilja,
Já,
allir það skilja.
Svo leit hann á Evu
og sagði:
“Heyrðu góða,
hér er svo óhreint.”
Hana setti hljóða.
“Þú vilt víst ekki,
að vinirnir haldi,
að ég sé giftur sóða.”
Eva sagði og roðnaði soldið:
“En Kalli, þú veist,
að ég verð að vinna.”
Þá Kalli tók keyrið
og af alvöru mælti:
Neyðin kennir
naktri konu að spinna.”

Og hún vann
og hún spann
og hún vann
og hún vann
og Kalli hann fann,
að hún elskaði hann.

Hvað er nú
þetta kvendýr að kvarta
um atvinnuleysi
og illa meðferð,
allt saman rauðsokkur,
það er meinið.
Þær ráðast á Kalla,
sem er besti drengur
inni við beinið.

Nei,
tölfræðin leysir engan vanda.
Fagur fiskur er flyðran í sjónum,
gættu þinna handa.
Fagur fiskur er flyðran í sjónum,
með rauða kúlu á maganum,
bröndótt á halanum,
vanda, vanda,
gættu þinna handa,
fetta og bretta,
brátt skal högg á detta.