Húsið

SÖGUR FRÁ 1974

Húsið er gamalt, garðurinn gróinn, gatan haglega gerð
og frágengin, friðsæl.
Það var einu sinni fínasta hverfi bæjarins.
Þar bjuggu embættismenn, húsameistarar, skipstjórar, menn,
sem voru þekktir vegna atvinnu sinnar og menntunar.
Menntun var fín.
Konur voru heimagangandi húsmæður.
Á sunnudagsmorgnum gengu þeir niður götuna til þinghússins
og tjarnarinnar.
Þegar Dómklukkan sló tólf í kyrrðinni, var sem töfrasproti
beindi þeim upp brekkuna á ný.
Þeir sveifluðu stöfum sínum og sneru í áttina heim, á vit hádegismenningarinnar,
sem var steikt lambalæri, brúnaðar kartöflur, grænar baunir,
brún sósa og heimalagaður ís.
Ef húsfreyjan settist á annað borð til að matast,
gerði hún það síðust,
tilbúin til að bæta meiru á fötin hvenær sem var
og stóð fyrst upp frá borði.
Hún var með hvíta strokna línsvuntu og greiddi hárið aftur,
svo það færi ekki í matinn.
Borðstofan var rúmgóð. Skápurinn við gluggann var merkisgripur, handskorinn, danskur, gamall og ómetanlegur.
Börn voru yfirleitt hugfangin af útskornum drekamyndunum
og vafningunum á hurðum og hliðum.
Börnin fóru í menntaskóla. Þannig hafði það verið
og þannig var það ennþá í flestum tifellum á sjötta áratugnum.
“Byggjum meðan fyrirtækið gengur vel. Það er góð fjárfesting,”
stóð á innrammaðri töflu í forstofunni.
Ásta var ánægð, en hann var óánægður og bar því við,
að hverfið væri orðið úrelt, gamaldags.
“Það er komið bæjarfólk í næstu götu,” en það er fólk,
sem bæjarfélagið útvegar húsnæði.
Þau eignuðust þrjá syni í viðbót. Þá var orðið þröngt á þingi.
Enn ympraði Símon á því að byggja, en var nú ekki eins ákafur,
því fyrirtækið gekk ekki sérstaklega vel.
Markaðurinn hafði dregist saman.
Ástandið fór hríðversnandi.
Þau fór að vanta ýmislegt, sem þeim hafði áður fundist sjálfsagt.
Þar kom, að þau seldu bílinn.
“Eigum við ekki að selja húsið?” spurði Símon.
”Hvað annað getum við gert?”
“Ég get sett upp vinnustofu,” sagði hún.
“Vinnustofu?” hann gapti.
“Já, í kjallaranum. Við fáum einhvern ungling til að gæta barnanna
og ég vinn meðan gengur illa hjá þér.”
Þannig byrjaði það, þrátt fyrir mótmæli hans.
Hann var agndofa, því honum hafði aldrei dottið í hug,
að Ásta þyrfti að fara að vinna frá fimm börnum.
“Óhugsandi,” sagði hann. “Þú hefur ekki þrek til þess.”
“Sjáum til,” sagði hún.
Næstu daga mokaði hún drasli út úr kjallaranum.
Það voru gömul borð, leirskálar, árgangar af dönskum vikublöðum,
postulín, verkfæri, gamlar myndir. Vörubílshlass fór á haugana.
Sumt fór á fornsölu.
Talsvert fé fékkst fyrir marmaraborð og postulínskönnu
með þvottafati, ítalskt góss.
Hún keypti sér trönu, striga og liti og lét dúkleggja gólfið í kjallaranum.
En þú hefur ekki málað, síðan þú útskrifaðist úr skólanum
fyrir fimmtán árum,” sagði Símon.
Hann var hræddur við áræði hennar.
Hann óttaðist, að hún tapaði kvenlegum sjarma sínum
og þau ræddu það vandamál.
Hún hló að athugasemdum hans.
Það eina, sem skipti hana máli var, að þau kæmust yfir
hið erfiða tímabil án þess að þurfa að selja húsið.
Grannur líkami hennar stæltist við aukna hreyfingu
og átakið, sem breytingarnar kostuðu.
Í fyrsta skipti á ævinni fannst henni hún vera sterk,
sterkari en sá, sem hún hafði stuðst við hingað til.
Henni fannst velferð heimilisins hvíla á hennar viljastyrk.
Hún byrjaði að mála, æfði sig langt fram á nætur,
teiknaði boga og horn, dýptir og skugga.
Hver stund var áfeng, þó að mörg ár væru liðin
síðan hún var í skóla. Gáfan var þarna enþá.
Trygg og lítillát hafði hún legið ósnert, án þess að henni væri sinnt.
Nú óx hún og blómstraði og varð mikils virði.
Dag einn kom Símon heim klukkan þrjú eftir hádegi.
Slíkt hafði aldrei gerst fyrr. Hann var venjulega sá síðasti,
sem fór út úr verksmiðjunni og versluninni.
Andlitið var herpt og þreytulegt..
“Það er búið,” sagði hann. “farið á hausinn.”
Hún sagði ekkert, en fór úr hlífðarsloppnum.
Hann kom á versta augnabliki, þegar engu má muna, að mynd takist.
Hún lét á engu bera, tók hönd hans í sína og sagði:
“Þú byrjar upp á nýtt. Þá gengur það betur.”
Enn var hverfið friðsælt og þrifalegt, þótt það væri ekki lengur
fínasta hverfið í bænum.
Húsfreyjurnar höfðu hvorki tíma nér áhuga lengur á að ganga um beina
á sunnudagsmorgnum með stroknar línsvuntur.
Margar unnu úti og vildu hvíla sig, eða skemmta sér um helgar.
Menntaskólarnir voru orðnir margir, en það þótti engu síðra að fara í verslunarnám.
Fáir voru öðrum meiri. Dómklukkan hafði engin áhrif lengur,
enda fáir á ferli á sunnudagsmorgnum,
nema þeir, sem fóru einn rúnt í bílnum.
Húsið hafði oft verið málað í gegnum tíðina.
Ein stór hæð og ris í rjómagulum lit með brúnleitu þaki.
Meðan þau voru nýgift var þröngt hjá foreldrum hennar,
þar til faðir hennar dó.
Þá flutti gamla konan upp í risið, en ungu hjónin tóku við húsinu
og viðhaldi þess.
Þegar þau áttu tvo syni og sá þriðji var á leiðinni, dó gamla konan.
Rétt áður en hún skildi við, benti hún Ástu á að koma til sín
og sagði:“Haltu áfram að vera í húsinu.
Það fylgir því gæfa.”
Hún skildi eftir sig óþægilegt tóm.
Ásta hugsaði oft um orð móður sinnar
og velti því fyrir sér hvað hefði komið henni til
að leggja aðaláherslu á þetta að lokum.
Hún var þó varla köld í gröfinni fyrr en Símon fór að tala um
að selja húsið og byggja.
“Við skulum vera hér áfram,” sagði Ásta og í röddinni fólst ákvörðun.
“En þetta er orðið svo gamaldags, elskan mín,” sagði Símon.
“Þú skilur þetta ekki,” bætti hann við.
“Við missum húsið, sem þér þykir svo vænt um.”
“Það verður ekki tekið,” sagði hún.
“Börnin eiga það. Það er arfur frá foreldrum mínum.
Það verður ekki selt.”
Hann horfði áhyggjufullur á hana.
“Ég er öreigi,” sagði hann. “Það versta er, að ég dreg þig
og börnin niður með mér.
Ég fæ ekki séð hvernig þú ætlar að bjarga húsinu.
Það er líka svo skammarlegt fyrir mig að lifa á konunni minni
og börnunum. Heldur vil ég deyja.”
Hann fól andlitið í höndum sér.
“Láttu mig um það,” sagði hún.
“Ég er búin að fá nokkur stór og dýr verkefni.
Við rífum okkur up. Þú byrjar á einverju nýju.”
Stórt, drengslegt andlit hans var alsett áhyggjumerkjum.
Hún hafði aldrei séð hann svona fyrr.
Venjulega var hann sléttur í framan, vel greiddur og með skær augu.
Nú var hann grár og lotinn og rúnum ristur.
Barnfóstran kom inn með tvö elstu börnin.
Meðan börnin drukku heitt kakó við eldhúsborðið, fór hann upp í kvistherbergið og háttaði.
Hann gat ekki meira.
Ásta fór niður í kjallarann og lauk verki sínu.
Það var sólblómaakur í dögun. Það var líf og áræðni í myndinni.
Hún virti hana fyrir sér.
Var það ekki einkennilegt, að nú, þegar gjaldþrotið var orðið að veruleika, gladdist hún yfir verkefni, sem átti hug hennar allan.
Var hún ekki kaldrifjuð að geta glaðst á slíkri stundu?
Hún gekk frá áhöldum sínum og stillti myndinni upp við vegg til þerris.
Svo slökkti hún ljósin, gekk upp stigann
og studdist við grófa kalkaða veggina.
Þegar hún opnaði eldhúsið, streymdi matarilmur á móti henni.
Barnfóstran var við matargerð og steiktur fiskur var brúnaður á pönnunni.
Börnin ólmuðust og þráttuðu í herberginu við hliðina á.
“Maturinn er til,” sagði barnfóstran og Ásta fór upp til að kalla á Símon.
Hann svaraði ekki, lá grafkyrr í rúminu og starði upp í loftið.
“Símon,” hvíslaði hún.
Hann svaraði ekki.
Hún tók hönd hans í sína.
Hann var gjörsamlega daufur og andvaralaus, lokaður inni í sjálfum sér.
Hún reyndi að þrýsta á, en hann hélt áfram að einblína á loftið,
hreyfingarlaus, andvaralaus.
Hún fór niður til barnanna og gaf fóstrunni leyfi til að fara.
————-
Hótelið var uppljómað. Ásta og Símon fóru venulega á árshátíð stúdentafélagsins.
Þá keypti hún sér nýjan kjól á Markaðnum og hann fór í smoking.
Um árabil höfðu þau setið með sama fólkinu til borðs.
Það byrjaði oftast með cocktail.
Í ár keypti Ásta ekki nýjan kjól.
“Þú hefðir átt að fá þér nýjan kjól,” sagði hann og draup á drykknum;
Martini að venju fyrir kvöldverð.
“Þetta er fallegur kjóll,” sagði hún.
“Auk þess hef ég ekki efni á að kaupa nýjan kjól fyrir eitt kvöld.”
Henni gramdist, að hann skyldi ekki virða það, að hún sparaði.
“Þú hefðir getað látið skrifa hann,” sagði hann og dreypti á glasinu.
Málverkið hafði gengið mjög vel hjá henni.
Hann var aftur á móti fangi sinna gömlu skulda og þurfti að greiða allt,
sem hann aflaði til bankans.
Ásta átti í erfiðleikum með að hneppa kjólnum að aftan.
Hún hafði þykknað nokkuð undanfarin ár.
Símon sá merki fertugsaldursins á andliti hennar.
Hún var ekki lengur granna, netta draumadísin,
sem hló af minnsta tilefni.
Á örskömmum tíma hafði hún breyzt í alvörugefna konu,
sem í auknum mæli horfði gagnrýnin á umhverfi sitt.
“Eigum við ekki að panta bíl?” hafði hann spurt.
”Nei, elsku vinur,” sagði hún, ”veðrið er svo gott
og ég hef svo lítið getað verið úti.
Við skulum ganga.”
Brosið hvarf af andliti hans.
Hann herpti saman varirnar, drakk það sem eftir var í glasinu
og hrukkaði ennið.
Þau gengu til hótelsins.
Bílar streymdu að og prúðbúið folk fór inn um aðaldyrnar.
Þau gengu inn.
Símon tók pelsinn af öxlum hennar og afhenti miðana.
Þau gengu upp stigann og inn í salinn.
Þau voru síðust að borðinu og fólkið var farið að bíða.
Augu Ástu og Odnnýjar mættust og Ásta fann,
að gamla skólasystirin fékk svar við ýmsum spurningum,
sem beðið höfðu í huga hennar. Ásta brosti og heilsaði.
Þau settust.
Símon var hreyfur af drykknum heima og pantaði óðar í glösin.
Þau borðuðu þungan mat, steikt svínakjöt,
brúnaðar kartöflur, grænar baunir, brúna sósu, ís og írskt kaffi,
vodka og engiferöl.
Hljómsveitin lék létt klassísk lög, meðan á borðhaldinu stóð,
en breytti svo yfir í danslög.
Fólk fór að hreyfa sig og teygja úr sér eftir matinn.
Símon sat iðandi við hlið hennar og langaði greinilega að dansa.
Hann var hlýr og glaður og augu hans hvörfluðu yfir mannhafið.
Hann tók þétt utan um hana og þrýsti sér að henni.
Eftir dansinn fór hann að barnum með Steinari.
Þær sátu eftir Oddný og hún.
“Þú hefur ekki sést í háa herrans tíð,” sagði Oddný.
“Hvar hefurðu verið, manneskja?”
“Að vinna,” sagði hún rólega. “Ég er að mála.”
“Nei, hættu nú, margra barna móðir. Hefurðu húshjálp?”
“Nei, þess þarf ekki,- elsti strákurinn er svo laginn og hjálpsamur.”
Oddný var orðlaus. Hún hafði alltaf öfundað Ástu
af því áreynslulausa og auðvelda lífi,
sem hún hafði lifað. Sjálf hafði hún þurft að vinna fyrir sér
og sínum manni, meðan hann fór í gegnum háskólanám.
Hún hætti í háskólanum svo hann gæti lokið læknisfræði.
Síðan fóru þau til Svíþjóðar og þar vann hún fyrir þeim
og börnunum, svo hann gæti lokið sérgrein.
“Aldrei hefði ég trúað því, að þú færir að vinna,” sagði hún og hló.
“Það er gaman,” sagði Ásta lágt og vonaði að Símon kæmi,
svo samtalið beindst að einhverju öðru.
“Hvað ertu að gera?” spurði Odný.
“Málverk, “ sagði Ásta annars hugar.
“Æ, já, alveg rétt. Ég var búin að gleyma því, að þú ert lærð í því.
Finnst þér samt ekki dálítið seint að byra á því núna?”
Ásta fann fyrir sting í hjartanu.
Guðný hitti auman blett.
Vinur föður hennar hafði einu sinni sagt,
að hún væri frábært efni í listakonu.
Hún hafði aldrei látið eftir sér að hugsa svo hátt.
Hún leit í kringum sig og sá hvar Steinar stóð við barinn,
en Símon var hvergi sjáanlegur.
Allt í einu sá hún hvar hann dansaði í miðri kösinni við mjög fagra konu.
Henni varð við eins og hún hefði verið slegin
og augu hennar voru full af spurn, þegar hún leit á Oddnýju.
Oddný brosti út í annað munnvikið og sagði:
“Veistu þetta ekki.? Það veit allur bærinn.”
“Veit hvað?” spurði Ásta.
Oddný sagði ekkert.
Ástu fannst þetta vera draumi líkast.
Þarna dansaði Símon þétt vafinn í fangi annarrar konu,
meðan hún sat hér og hlustaði á Odnnýju segja fréttir.
Hana sundlaði, þegar hún stóð upp, en hiklaust gekk hún út á dansgólfið.
Það var erfitt að troðast á milli paranna,
en hún sló létt á öxl konunnar.
“Þetta er minn dans,” sagði hún.
Það var engu líkara en þau tvö vöknuðu af draumi
og þekktu hana ekki.
Símon varð fyrri til að átta sig.
Þau hættu að dansa og horfðu á hana.
Hún ýtti konunni frá sér og fór að dansa við Símon,
sem fylgdi henni eins og svefngengill.
Hann kom lengi vel ekki upp orði af undrun.
Konan hafði gengið hlæjandi í burtu,
Allt í einu stansaði hann, ýtti henni frá sér og sagði:
“Heyrðu elskan, þetta er einhver misskilningur.
Ég var að dansa við aðra konu.
Má ég það kannski ekki?”
“Ég er konan þín,” sagði hún einarðlega.
Hann hló háðslega. “Ertu það elskan? Það vissi ég ekki.
Ég hélt að þú værir fyrirvinna heimilisins, húsbóndi þess,
rauðsokka og allt það.
Ég var að dansa við konu, þegar þú komst. Láttu mig í friði.”
Hún blindaðist af tárum, gekk svo til borðsins og Oddnýjar,
en sneri svo frá og fór út úr salnum,
niður stigann.
Hún gleymdi að taka pelsinn úr fatageymslunni,
enda var Símon með miðann í vasanum.
Kápulaus gekk hún heim í svölu næturloftinu, grét þungt og hljótt,
en enginn tók eftir því, því það var niðamyrkur
og engir á ferli nema þá í bílum,
sem liðu hjá eins og í heimi út af fyrir sig.
Það eina, sem komst að í huga hennar var að komast heim í húsið.
Þar átti hún eitthvað; þar átti hún margt, sem var mikils virði
————–
“Við getum ekki haldið svona áfram,” sagði hann.
“Við erum að slíta hvort annað í sundur.”
Hún tók ekki litasvuntuna af sér, eins og hún var vön,
þegar Símon kom niður í vinnuherbergið til hennar.
Hún sneri sér við og horfði á hann stóran og myndarlegan í gættinni.
Hann var svo hávaxinn, að hann varð að beygja sig
til að komast úr stiganu og inn í herbergið.
Þetta var gamalt hús.
“Hvað vilt þú að við gerum?” spurði hún og horfði á hendur sínar.
“Við skulum skilja,” sagði hann.
“Nei,”sagði hún, “Það vil ég ekki.”
“Þú veist allt,” hélt hann áfram. “Það er búið að vera svona lengi.
Ég hef viljað halda áfram með þér, en það er orðið svo erfitt.
Þú ert svo sterk og ég er veikgeðja.
Ég skammast mín oft, þegar ég hef svikið þig.
Það fer í taugarnar á mér hvað þú ert fullkomin
og aldrei veik á svellinu.
Þú gerir aldrei neinar vitleysur……
“Ég hef aldrei kært mig um annað en þig,” sagði hún
og leit á hendur sínar.
“Ég vil ekki deila þér með annarri. Annað hvort er það ég eða hún.”
Það var þögn. Hann kom alveg inn í herbergið,
virti fyrir sér teikningar hennar og rissmyndir,
tók upp litatúbur og hagræddi penslum.
“Ég er að hugsa um að byrja aftur sjálfstætt,” sagði hann.
“Ég vissi, að þú hefur kjark,” sagði hún brosandi. “Gerðu það.
Ég veit, að það tekst í þetta sinn.”
“Viltu hjálpa mér?” spurði hann. “Vinna með mér í fyrirtækinu,
sjá um að ég sólundi ekki öllu,
sem inn kemur? Það er mín veika hlið.”
Hún þagði. Hún vissi hvað þessi spurning þýddi.
Hún yrði að hætta að mála, loka vinnustofunni, fleygja litunum.
Hvernig gat hann beðið hana um þetta?
Var hann alæta? Fékk ekkert að sleppa?
Annað hvort hún öll, líkami, sál, allt, eða ekkert…..
Það var verðið, sem sett var upp fyrir trúnað hans og hjálp.
“Nei,” sagði hún. “Ég verð að halda áfram að mála.”
“Þú getur ekki lifað af því,” sagði hann.
“Því ekki það?” sagði hún og leit á hann.
“Þú tapar húsinu,” var hans svar.
Hún þagði.
Hann horfði lengi á hana, kyssti hana svo á kinnina og sagði:
“Það er hvort sem er of seint.”
Þegar hún sá hann beygja sig til að komast út úr herberginu,
fannst henni stór stífla sitja í hálsinum á sér.
Sem lömuð sat hún og horfði á hálfklárað málverk.
Það var af húsinu og garðinum.
“Getur það verið að ég láti hann fara frá mér fyrir þetta?”
hugsaði hún, en kom ekki upp orði.
Þótt hún hefði viljað kalla á eftir honum,
að hún gengi að skilmálum hans,
gat hún ekkert sagt, gat ekki hreyft sig.
Hann gekk á gólfinu fyrir ofan, út í forstofuna,
opnaði og lokaði útihurðinni, garðshliðinu,
sem ískraði í, bílhurðinni og ók í burtu.
Hún sat og horfði á hálfmálaða myndina,
skóf svo litina af og byrjaði að nýju.
Það verk gaus upp úr vitund hennar
og hafði beðið þess lengi að fá að koma fram.
Það vortu fuglar í rauðum og bláum hyllingum,
frjálsir farfuglar haustsins að fara suður.