Jens Blendstrup
© 2008 Inga Birna Jónsdóttir
© Jens Blendstrup
Útivist karla í maj
Maðurinn þinn hefur aftur pissað í runnann
Hann vildi allt í einu kasta af sér vatni á blöð, sem beygja sig.
Maðurinn þinn sá allt í einu að nágranninn skeit á hnetutrén sín
Hann hékk í reipum og skeit á runnann ofanfrá
Maðurinn þinn sá að granninn á móti var líka í gangi
Hann hrækti sífellt á garðstyttu með munninn fullan af nöglum
Maðurinn þinn fann sannanir gegn endurskoðandanum í númer 18
Hann ók sleða yfir skattaskýrslur í skrítnum kanínubúningum sem vildu vera menn
Maðurinn þinn fann líka lyktina af Hr. Madsen í raðhúsinu
Hann át síld og gubbaði þeim upp í himininn
Maðurinn þinn heyrði einhvern góla og æpa
Gert Svendsen óð í saltsýrubeðinu sínu
Maðurinn þinn sá sólina steypast niður í númer 30
Píanóleikarinn hafði hæft hana með tóni frá útipíanóinu sínu
Maðurinn þinn stóð kyrr nokkuð lengi
Það gerðu líka hinir drengirnir
Við karlar erum víst að gera eitthvað sérstakt í maj.
Spor einhvers sem þú þekktir
Spor einhvers sem þú þekktir
Mynd af páfagauki á glanspappír
Hnífur neðst í skáp sem hallast til hægri
meðan sólin sýnir 4.
Labrador sem stekkur fram og aftur á gulri grasflöt.
Hann hét Bimsi og var í fótbolta og kom of seint
og sagði Va´er klukkan nefmæltur.
Spor einhvers sem þú þekktir
Blár Ford Escort með brotna rúðu í Valby
Jarmandi belja á akri í Lystrup
Blautt Opal í vattjakkanum frá Bilka í Tilst
Hún hét Rikka og hafði eigið herbergi
Gamlir múrsteinar hafa skolast á ströndina
Útvarpið illa stillt svo hljóðin blandast urgi
Einhver lemur á stólarm
Ský sem svífur hægt hjá
Hálfur bjór með hliðarvagni á Egå Havn
Hann hét Uff og var pabbi minn
Spor einhvers sem þú þekktir
Spor einhvers sem þú þekktir
Spor
Einhvers
Sem
Þú
Þekktir
Heyrnablindir tala í hvers annars hendur
Þeir segja ýmislegt
Eins og
Höll
Og
Þráður
Og
Ríki
Allt, sem ég á hef ég erft
Ég erfði kommóðuna mína eftir langafa minn
Og hringinn sem ég get ekki haft á fingrinum.
Ég hef erft rödd mína frá pabba mínum
Og handleggurinn er víst frá Knúti föðurbróður.
Ég hef erft brosið frá mömmu minni og
Hendurnar erfði ég frá ömmu minni
Ég hef erft martröðina um Rip, Rap og Rup
og holurnar í asfaltinu
frá Knúti frænda sem sagði það í kofa
þar sem var orðið dimmt.
Og kærleikann – hann hef ég fengið frá náunganum.
Ég hef erft fylliríin frá pabba mínum
En iðrunina hef ég erft eftir föðursystur mína
Sem iðraðist þess alltaf að hafa dregið andann.
Ég hef erft hrifningu mína eftir eina stórabróður minn
Og efann eftir hinn
Og eftir þann þriðja hef ég erft hláturinn
og hvítar leewis buxur með klauf.
Ég hef erft lífið eftir aðrar manneskjur
Og erft loftið sem ég anda að mér með þakklæti.
Ég hef erft allt
Þó ekki kaffikönnuna úti í eldhúsi,
sem ég fékk með brögðum.
Púki í franskbrauði
Það er púki í franskbrauðinu frá Faktabúðinni.
Ég gæti sleppt því,
en nú borða ég sneið með osti og marmelaði
og verð að djöfli.
Endurkoma Jesú
Ég gruna gamla græna hanskann í leðurjakkanum mínum um að vera Jesús sem er kominn til baka.
En ef hann er Jesús er hann í vanda.
Sagt er að veturinn verði strangur
og einn hanski er ekki nóg fyrir hendur mínar.
Svo græni hanskinn fer út þótt hann sé Jesús
og vilji kannski segja eitthvað sem yljar mér um hjartað.
Kynóðir bílar
Bílarnir eru kynóðir.
Þeir standa meðfram gangstéttunum og leka vökva sem lyktar eins og bensín.
Þeir standa og nudda sér upp að kantsteinunum og senda frá sér þessi langdregnu kynmakahljóð sem eigendur reyna árangurslaust að þagga niður með fjarstýringu ofan úr gluggunum.
Það er ómögulegt.
Það er desember.
Það er kynæsingatími bílanna.
Það er mánuður hönnunar næstu kynslóða Honda, Ford og Toyota.
Í þeim mánuði hittast karldýrin á Islands Brygge og mylja höfuð hvers annars í skjóli frosts og auðra gatna.
Á meðan standa kvendýrin ógnvekjandi með uppblásna bakhluta stökkþróaðra loftpúða.
Í þeim mánuði á að ákveða hver á að fá Jørgensens lekkera toyota Corolla. Og hver verður að láta sér lynda Simka-druslu.
Það er desember.
Stóri bílamánuðurinn er þeir rymja og brosa og gráta af gleði.
Í þeim mánuði berja þeir saman ryðrauðum hulstrum hvers annars með djúpum málmhöggum. Í þeim mánuði rísa þeir upp á afturhjólin og brjóta allar umferðarreglur og hraðinn fer auðveldlega yfir 1000.
Það er ógnarsýn.
Enginn fær að gert.
Það er kynæsingatími bílanna.
Það er lögmál náttúrunnar.
Leyfið þeim fjandakornið að sýna sig eins og við hinir með gyllta sál og stuðara.
Exon Valdez
Kona liggur í rúmi og hórast með manni og þekkir bara taktinn
- Ég kem hvíslar hann
- Komdu þá stynur hún og þrýstir lærunum að stinnu baki mannsins sem hún þekkir bara á snertingunni og litlum ópum kroppanna sem hallast til vinstri.
- Þykk svört olía veltist út úr skauti hennar á rúmið, á vekjaraklukkuna, á íbúðina sem þau eru í.
- Hver ert þú? Segir hún meðan hún reynir árangurslaust að ná sér í rettu.
- Ég heiti Exon Valdez, svarar hann. Ég lenti í slysi.
- Hann rís augnablik hátt yfir hana. Svo fellur hann niður með miklum hávaða lóðrétt gengum rúmið hennar.
Sársaukabarnið
Kona liggur á bekk.
Hún er komin 7 mánuði á leið.
Það er ung falleg kona með þétt læri og mjaðmir.
En verkirnir sem fylgdu þunguninni hafa aukist og aukist.
Í fyrstu var eins og hún hefði verið stungin með nál.
En með tímanum hefur það versnað og versnað. Læknirinn tekur sýni og myndir af legi hennar með sínum gætnu vitru höndum.
Hún grætur og þrýstir höndunum niður í stólinn.
– Ég finn svo mikið til, læknir. Ég finn svo ægilega mikið til, heldurðu að ég missi fóstrið?
Læknirinn brosir og klappar huggandi á handlegg hennar.
Nei, svarar hann.
Þú átt bara að fæða þitt fyrsta sársaukabarn.
Fyrsta sársaukabarn? Endurtekur hún hissa.
- Já, segir hann og sýnir henni svarthvítu myndina.
- Barnið þitt liggur þarna.
- Og þarna heldur hönd hans á hamri.
Áþreifanleg þögn
Sjáðu:
Hrár laukur og ristaðar rúnir.
Þú skalt hnoða náungann
Vansköpuð morgunstund
Himinninn var dökkur þegar ég vaknaði í rimlarúminu mínu. Einhver öskraði og öskraði einhvers staðar á lóðinni.
Það var hár á loftinu sem ég andaði að mér.
Og lerkitréð varð óhuggulega holótt beint fyrir utan gluggann minn, þar sem pabbi stóð og barðist við eitthvað í fötu.
- Hvað er að, pabbi? Hrópaði ég.
- Það er morgunninn, sem er vanskapaður sagði hann, það gerist stundum þegar ég sef ekki á næturnar.
Bollumamma
Bollumamma var gift bollupabba, húsverðinum á Strandskólanum.
Hún var með blátt hár og krítarhvítt andlit og svo seldi hún þessa hérna nestispakka með hálfum rúgbrauðssneiðum og mjólk.
Bollupabbi vakti ugg með fýlunni í sér, en Bollumamma var verri, því hún litaði matinn með hárvökvanum sínum og púðraði mjólkina með púðrinu sínu, svo kartöflusneiðarnar höfðu acetonebragð og lifrarkæfan var eins og blý og mjólkin varð eins og nýmjólkursement.
- Hvað var´ða, hvað var´ða, þarf þetta að vera svona erfitt? Viltu grænan matarpakka, eða viltu rauðan matarpakka, eða viltu gulan matarpakka!
- Þennan….gula takk!
- Lifrarkæfa, pulsa, hálf gulrót – hármeðal, hármeðal, hármeðal, strá strá strá – éttann svo strákur!
- Bollumamma er skelfileg.
- Hún er nefnilega skipulagslega fúl.
- Hún gat brosað til kennara og hlegið að nemanda í einu.
- Hún málaði vatnslitamyndir handa kennurunum þegar þeir fóru á ellilaun.
- En þegar 7undu bekkirnir fóru í útilegu til Borgundarhólms stóð hún uppi á þakinu og henti súru borðtuskunum sínum upp í loftið til að skapa mótlætia- og hausttilfinningu.
- Og þegar 3ju bekkingar gerðu tilraunir með dverghænsn og “eigin” hreðkur beit hún hausana af dverghænsnunum og sleikti ormagötin á hreðkunum með oddmjórri tungunni sem hún gat beitt að vild.
- Og á jólaskemmtuninni gekk hún um og tróð ofaná músastigunum okkar og setti kertavax í augun á okkur.
- Sérðu jólasveininn, geturðu nú séð jólasveininn, skítakrakki?
- Bollumamma var í heimatilbúnu lífsstykki til að leyna sínum innri jökli.
- Skrúfurnar voru svo voldugar að þær sáust undir bollumömmukirtlinum hennar.
- Þegar hún gekk hristist allt portið svo við gátum ekki spilað fótbolta.
- Þegar hún settist þrýstist loftið svo saman að röddin í okkur varð eins og Andrés Önd væri að tala.
Við komum sjaldan í Strandskólann eftir tímana.
Þá var skólinn þakinn húð.
Þá opnaði hún lífsstykkið og fór í þessa hérna reiðu fullorðins-leiki með manninum sínum, húsverðinum, bollupabba, sem fægði píkuna á henni með kústinum sínum.
Eriksen bíður átekta
Í Ishøj situr maður. Hann er með langt skegg og þung – þung augnalok sem hann heldur uppi með krepptum hnefum og lyftum augnabrúnum.
Eriksen er svo hræddur við dauðann. Sál Eriksens er alls ekki tilbúin. Eriksen er harðákveðinn í að vera áfram á jörðinni.
Ég vil ekki vera á þeim flota. Ég vil ekki fara út á það fljót. Ég vil ekki fara yfirum. Til súlnanna og Guðs og frænda sem teflir í skugga dauðs sedrusviðar.
Viðargólf Eriksens er eyðilagt.
Veggir Eriksens eru fullir af djópum götum.
Líkami Eriksens er fastspenntur við stólinn með ólum.
Líkami Eriksens ber merki tímans sem hann dregur á langinn með blóðugum lykli.
Slowfox 5.44
Á nóttunni þegar Níls hefur ekki lokað öllum augunum sínum greinir hann 47 stjörnur sem einhver hefur skilið eftir á loftinu milli bitanna.
Þá fer hann að íhuga hver hann er og hver komi á eftir.
Þá fer hann að stíga dansinn sem bindur hann við jörðina.
Á næturnar þegar Lena hefur ekki lokað öllum augunum sínum finnur hún að einhver er að anda á augasteinana í henni.
Þegar hún liggur alveg kyrr pressast líka tár út.
Þá fer hún að hugsa um hver hún er og hver komi á eftir.
Þá rís hún upp og stígur þann dans sem gerir byrðina dálítið léttari.
Á næturnar þegar Níls og Lena hafa ekki lokað öllum draumunum sínum, stígur hún þennan hérna hæga dans milli þvottarins, sonarins og mánans.
Og þótt það líti kátlega út vegur það allt varlega salt milli lífs og dauða.
Þau fljóta að heiman
Þegar manneskjubörn ná vissum aldri opna foreldrarnir alla kranana, þar til allar rúðurnar springa, þar til þrýstingurinn verður svo mikill að engar hendur halda takinu. Og þá fljóta allar dæturnar og synirnir út með sína óstýrilátu limi og efasemdir sínar og forvitni sína og sitt góða uppeldi sem er pakkað inn í ofurlitlar vatnsþéttar blöðrur með verkjapillunum og draumunum sem eru þeirra leiðarljós.
Þá flytja börnin hreinlega að heiman og göslast í gegnum lífið eins vel og vatnið í eyrum þeirra leyfir.
Og kuldann í fötunum. Og hraðanum sem þau fljóta með.
Á leið til Isola 2000
Mig dreymdi svo afkáralegan draum í nótt.
Mig dreymdi að einhver hélt utan um mig.
Mig dreymdi að ég var að fá taugaáfall, þegar kona kom allt í einu inn í tjaldið mitt og hjálpaði mér að halda á mér hita. Bráðum finnur þú stungu sagði hún, en vertu ekki hræddur því það er bara atropinsprautan með kærleika sem ég þrýsti að hálsi þínum. Og vel getur verið að þú farir að elska mig hávært (það sem eftir er lífsins), en það er nauðsynlegt ef þú átt að komast af. Þetta var sami draumurinn sem mig dreymdi í basisbúðunum fyrir nokkrum mánuðum.
En þá var siðmenningin ekki mjög langt undan.