Júlíana

Juliana bjó í litlu þorpi við Svartahafið. Hún var elst 8 systkina, þó aðeins 19 ára, brúnhærð, limafögur, kurteis og aðlaðandi.
Fimm kílómetra frá þorpinu var ferðamannaborgin Constansa með heilsuhælum og strandhótelum við Svartahafið, börum og veitingastöðum, allt sérstaklega byggt fyrir ferðamannaiðnaðinn, eins konar erlend borg í eigin landi, þar sem giltu önnur lög en í þorpunum í kring.
Juliana hafði valið að vera herbergisþerna á hótel Amor, í stað þess að afgreiða á bar að kvöld- og næturlagi. Þá gat hún hjálpað fjölskyldunni, sérstaklega móður sinni, sem var lúin eftir margar barneignir og ýmsa þjónustuvinnu. Faðir Juliönu vann við skógarhögg í fjöllunum og kom heim eina helgi í mánuði.
Tímakaup Juliönu var mjög lágt, en það gerði henni kleyft að kaupa sér fallegan kjól, eða gjafir handa minnstu börnunum af og til. Það drýgði tekjurnar, að sumir ferðamenn skildu eftir dálitla upphæð á náttborðinu, þegar þeir fóru. Þetta var mjög misjafnt og fór eftir því hvaða landi fólk kom frá. Svíar og íslendingar gáfu mest, stundum heilt vikukaup á hennar mælikvarða, en oft voru það erlendir peningar, sem hún gat ekki notað eða skift. Hún gat heldur ekki notað þá erlendis, því enda þótt múrinn væri fallinn, var mjög dýrt að ferðast til annarra landa og það tók óratíma að fá vegabréf, því ennþá sátu menn gamla kerfisins á flestum skrifstofum.
Juliana átti því orðið dálitla fúlgu af sænskum og íslenskum peningum, sem hún geymdi sem minjagripi. Yngri systkinum hennar fannst gaman að leika sér að þeim og þóttust þau þá vera auðkýfingar, sem bjuggu í Ameríku.
Hótelstjórinn hélt uppi ströngum aga varðandi umgengni starfsfólks við ferðafólkið. Herbergin voru hreinsuð, meðan fólk borðaði morgunmatinn, bannað var að sitja og rabba við gestina hvort heldur var á herbergjum, eða göngum og eftir kvöldmat kom næturvaktin. Starfsfólkið mátti ekki sitja í matsalnum, eða á barnum.
Þar eð Juliana var orðin 19 ára, var kominn tími til að hún fyndi sér eiginmann, svo hún gæti stofnað sína eigin fjölskyldu. Án eigin fjölskyldu, ekkert almennilegt líf fyrir unga konu. Juliana var bókhneigð og ef til vill kæmist hún til náms í Bukarest, ef hún sækti um ríkisstyrk, en mamma hennar gat enn sem komið var ekki verið án hennar. Ungu mennirnir í þorpinu sýndu Juliönu talsverða athygli vegna útlits hennar, frjálslegrar framkomu og lífsgleði. Hún söng stundum á skemmtunum og hafði mjög fallega rödd, oft gamlar ballöður um ástina og örlögin og var mikið á danspallinum á eftir. Jafnaldri hennar Georgiu virtist vera sigurstranglegastur, agfgreiðslumaður í minjagripaverslun í Constansa, vespueigandi. Þau höfðu kysst lítillega bak við tré, en Juliana var gætin. Hún vissi hvað varð um stúlkur, sem fóru ógætilega. Ef piltarnir vildu ekki giftast þeim, voru óæskileg fóstur fjarlægð hjá þorpslækninum. Giorgiu vildi giftast að hausti og Juliana íhugaði málið. Þau mundu búa heima hjá foreldrum hans í mjög lítilli íbúð í sömu blokk og hennar fjölskylda og hún yrði hægri hönd móður hans. Enn sem komið var, vildi Juliana heldur vinna á hótelinu og ráða sér sjálf.
Svo var það í júlímánuði þetta sumar, að stór hópur íslendinga kom í hópferð til Constansa. Þetta var stórmyndarlegt fólk, sem virtist hafa svo mikið fé á milli handanna, að það gat leyft sér hvað sem var. Það keypti nær því allan varninginn í minjagripaversluninni fyrstu dagana, handunnar blússur, hatta, ábreiður, helst það sem var litríkast. Það ók í hestvögnum staðarins, drakk heilu flöskurnar af whisky á börunum, keypti sér nudd við ströndina, velti sér í lúxus.
Morgunn einn, þegar Juliana kom inn á herbergi glæsilegra hjóna, sem voru komin út á strönd, varð hún að tína undirföt þeirra niður af veggjunum, en þau höfðu greinilega farið í þann leik, að henda undirfötunum sínum upp um alla veggi, sem voru mjög hrjúfir, málaðir með eins konar munstur-málningu. Á náttborðinu var íslenskur þúsund krónu seðill og miði, sem stóð á “for you,” en Juliana þorði ekki að taka hann, því hver var þessi “you?” Daginn eftir var allt eins með undirföt upp um allt og nýr þúsund krónu seðill ofan á hinum, en þótt Juliana hefði varið allt of löngum tíma í að tína föt af veggjunum og mundi fá skammir í afgreiðslunni fyrir að vera of lengi inni á þessu herbergi, lét hún seðlana liggja. “You” gat verið hver sem er.
Einn morguninn var hún í óða önn að hreinsa baðherbergi á neðstu hæðinni, þegar ungur og myndarlegur maður kom hlaupandi, tróð höfðinu niður í klósettskálina og kastaði svo rosalega upp, að hann kipptist allur til og krepptist á milli hviðanna. Juliana kenndi svo mikið í brjóst um hann, að hún bleytti handklæði og hélt því um enni hans. Það var mikil áfengislyktykt af gusunum. Hann stundi og vældi, þessi fríði maður með ljóst hár og stór blá augu, svo Juliönu fannst sér bera skylda til að hjálpa honum, – hvað hún gerði. Hún hjálpaði honum að fara úr útgubbaðri skyrtu og stuttbuxum og eftir töluvert írafár komst hann í rúmið og stundi og vældi. Hún vætti nýtt handklæði og lagði á enni hans. Hann ríghélt í höndina á henni og mændi bænaraugum á hana, eins og hún hefði einhvern lækningakraft. Henni tókst að rífa sig lausa og sækja vatnsglas handa honum og titrandi og skjálfandi tók hann nokkra sopa, áður en hann féll í mók.
Þegar Juliana kom niður í afgreiðsluna heilum tíma seinna en venjulega, horfði hótelstjórinn á hana stórum augum og þá uppgötvaði hún, að hún var með gubbuslettur framan á sér. Hún útskýrði málið og hann hrukkaði ennið og minnti hana á reglu númer eitt, að hafa engin náin samskipti við ferðafólkið, heldur hringja í afgreiðsluna og fá hjálp þaðan og ef slíkt gerðist aftur, yrði hann að segja henni upp.
Juliana gekk alla leið heim, til að forðast athygli fólks í strætisvagninum. Hún baðaði sig og þvoði með sterkri sápu, en varð að lokum að fara út í Svartahafið til að losna við gubbulyktina, sem loddi við hana.
Höfrungar léku sér ekki langt frá og stórt hvítt farþegaskið leið áfram úti við sjóndeildarhringinn. Sólin þurrkaði og vermdi hana og hún slakaði á svolitla stund í volgum sandinum. Á leiðinni heim skreytti hún hárið á sér með blómum úr runnunum meðfram götuslóðanum. Nú var hún aftur hrein og frjáls og á morgun var dans á torginu og hún mundi dansa salsa við Georgiu. Kannski færu þau í smáhring á vespunni hans.
Daginn eftir, þegar hún fór að taka til í herbergi unga mannsins á hótelinu, kom hann henni að óvörum, nú fínn og pússaður, brosandi og búinn að jafna sig. Hann sagði einhver ósköp á máli, sem hún skildi ekki bofs í, en þegar honum varð það ljóst, fór hann að tala bjagaða ensku og hún skildi soldið af því. “Thanks, good girl, friend” og fleira af því tagi og Juliana brosti og bjó um rúmið hans. Hann kom mjög nálægt henni og endurtók “thanks” og ætlaði að snerta hana, en þá rauk hún út úr herberginu og flýtti sér inn í það næsta, þar sem hann gæti ekki fundið hana. Hún skalf frá hvirfli til ilja. Ef hún missti þessa vinnu út af samskiptum við ferðamann, yrði talað um hana í þorpinu. Hún yrði kölluð gála.
Juliana sagði engum frá þessu, en gætti þess vandlega að taka til í herbergi unga mannsins, þegar hún vissi, að hann var í morgunmat, eða á ströndinni. Það tókst bara ekki, því einn daginn kom hann henni að óvörum og áður en hún vissi af, voru þau farin að kyssast, eins og í bíómynd. Og allt varð eins og í bíómynd og þegar það var búið, flýtti hún sér að koma kjólnum sínum í lag og greiða úr hárinu. Í þetta skipti var góð lykt af manninum og velllyktandi hans loddi við hana allan daginn. Hún vissi ekki einu sinni hvað hann hét. Hún yrði að minnsta kosti að vita hvað hann hét.
Þetta kvöld fékk hún lánað hjól mömmu sinnar og fór niður í ferðamannaborgina með stóru, gráu skýjakljúfunum. Herbergið hans var á jarðhæðinni og það var ljós og glugginn hálfopinn. Hún gægðist inn. Hann sá hana og greip í hönd hennar og hún klifraði inn um gluggann með hans hjálp.
Upp frá þessu áttu þau heitar stundir og þar kom, að hótelstjórinn fékk nasaþef af atferli þeirra. Hún var rekin á stundinni og fékk ekki kaupið sitt fyrir þá viku. Hún sagði Hadda það. Haddi hét hann. Hann fór beint niður í afgreiðslu, barði í borðið og heimtaði “money for girl.” Hótelstjórinn gaf sig og rétti honum nokkra seðla. “Fuck,” sagði Haddi, en það var ljótasta enska orðið, sem hann kunni.
Nú var ástarleikur Juliönu og Hadda orðinn opinber og þar með var allt leyfilegt. Hún mátti þó ekki sofa á hótelinu um nóttina, jafnvel þótt Haddi byðist til að borga auka fyrir tveggja manna herbergi, “Ekki fyrir innfædda,” fékk hann að vita.
Juliana var ástafangin upp fyrir eyru. Hún skreytti rúmið hans með rauðum rósum og bauð Hadda heim til fjölskyldunnar. Mamma hennar var yfir sig spennt og bjó til sögur um rósrauða framtíð Juliönu á hinu ríka og frjálsa Íslandi. Haddi hafði beðið hennar. “We marry,” sagði hann.
Það varð að hafa hraðann á, því ferðamannahópurinn hafi bara eina viku til stefnu og það þurfti að sækja um vegabréf handa Juliönu og votta, að þau ætluðu að giftast og búa í Hafnarfirði á Íslandi. Það tókst þó ekki að afgreiða málið, áður en Haddi flaug heim. Hann varð að mæta í vinnu næsta mánudag. Málið yrði afgreitt með þeim hraða, sem skrifstofubáknið megnaði og þá gæti Juliana flogið til Íslands og gifst sínum Haraldi Hallvarðssyni, lagermanni.
Faðir Juliönu kom heim þá helgi, en Þegar hann fékk fréttina um fyrirhugað ferðalag dóttur sinnar til Íslands, brá honum all mikið. Hrukkurnar á sólbökuðu andliti hans urðu enn dýpri, stórar, grófar hendur hans skulfu, þegar hann lyfti kaffibollanum og honum svelgdist á. “Fólkið í kapítalísku löndunum hugsar ekki um annað en gróða,” sagði hann. “Það eru vægðarlausir villimenn, sem nauðga konum og margt fólk er heimilislaust.” og “Hvað á fátæk stúlka eins og þú og mállaus að auki að gera þangað og það er fullt af jöklum og ís og það rignir nætur og daga og stundum springa fjöllin þar og spúa eldi og drepa fólk og þekja jörðina með teppum úr logandi grjóti. Og, hvað heitir hann, – Addi, þú þekkir hann ekkert.”
Juliana sýndi honum þrjú stór samanrúlluð seðlabúnt með íslenskum peningum, sem hún hafði safnað saman í tvö ár, en hann fussaði og ætlaði að halda áfram. “Helvítis kapítalistapakk,” en móðir Juliönu greip fram í fyrir honum: “Leonid, hættu að telja úr telpunni. Foreldrar Adda eiga heilt hús og ungu hjónin fá eigið herbergi og það er stórt baðherbergi við hliðina á með flísum og þvottavél og Addi á sjálfur bíl, stóran amerískan bíl og mamma hans er heimahúsmóðir, sem þarf ekki að vinna og bakar fínar kökur og þau fara í bíltúra á sunnudögum. Það er ekki eins og hér í blokkinni, þar sem börnin sofa í fletum og það er aldrei stundarfriður og ég verð að þvo þvottinn í höndunum úr köldu vatni og við erum ellefu í heimili í þremur herbergjum og stigarnir að molna og eitt reiðhjól og ríkisstjórn, sem sýgur úr okkur blóðið. Nei, Leonid, það er engin framtíð fyrir Juliönu, hún fer, hún fer til Íslands.”
Leonid fór á krána og kom ekki heim fyrr en daginn eftir, rétt áður en hann átti að fara aftur upp í fjöllin. Stór trukkur kom að sækja hann og fleiri menn úr þorpinu. Juliana hljóp út á veg að kveðja hann og þegar hún kyssti hann hvíslaði hann lágt: “Komdu aftur heim, ef það gengur ekki.”Heima í Hafnarfirði var laufið á trjánum orðið gult og rautt. Fegurð fjarðarins var sveipuð djúpri ró. Hvítt og blátt lék í öldunum við fjörusteinana, tvö fiskiskip voru á leið út, friður og ró og varla nokkur umferð svo snemma morguns.
Haddi vaknaði við kaffiilm, fór í sturtu og mætti í morgunverð Sigurlínu, móður sinnar, með sömu tilhlökkun og venjulega, kannski soldið meiri en venjulega. Hann hafði fréttir að færa.
“Það er gott þú ert kominn heim, Haddi minn,” sagði mamma hans og hellti kaffi í bollann hans. “Fáðér heita bollu, elskan.”
Pabbi hans, Hallvarður, kom á morgunsloppnum og dró ilskóna eftir nýbónuðu gólfinu. “Velkominn heim,” sagði hann og settist gegnt Hadda. “Hvernig var ferðin?”
Haddi lýsti hótelinu og ferðinni upp í Karpatafjöllin og hvað það var gott að geta gengið léttklæddur um allar götur og ekið í hestvagni og synt í sjónum. “Allt annað loftslag,” sagði Haddi. “En fullt af kommúnistum,” sagði mamma hans. “Já, já, fullt af kommum, mamma,” sagði hann og hló. “Var nokkru stolið af þér?” spurði hún. “Nei, ekki af mér,” hló Haddi, “en einn í hópnum lagði myndavélina sína við hliðina á sér á bekk, sem hann sat á og, þegar hann ætlaði að nota hana, var hún horfin.” “Meira þjófahyskið,” muldraði pabbi hans. “Fólkið á ekki svona hluti,” sagði Haddi. “Það er mjög fátækt og býr þröngt í stórum gráum blokkum, eða kofahreysum.” “Helvítis kommúnisminn,” sagði Hallvarður.
“Eintómar reglur og fólk verður að hlýða, annars missir það vinnuna,” útskýrði Haddi.
“Ég hélt að þeir væru hættir þessum kommúnisma,” sagði Hallvarður. “Það stóð í Mogganum.”
“Það var gott, að engu var stolið frá þér, drengurinn minn.” sagði mamma hans.
Nú varð löng þögn, þar til Haraldur Hallvarðsson mannaði sig upp og sagði: “Já, en samt tapaði ég soltlu.” Ennþá lengri þögn. “Ég tapaði hjartanu, – ég, – ég varð ástfanginn.”
Sigurlína og Hallvarður litu hvort á annað. Munnur hennar var nú sem mjótt strik og enni hans hrukkað. Hún leit spyrjandi á son sinn og loks tókst honum að segja þeim frá Juliönu og áformum sínum um að fá hana til Íslands og giftast henni. Augu hans tindruðu, þegar hann sagði nafn hennar og bros hans var blítt og dreymandi, þegar hann lýsti henni. Loks, þegar honum hafði tekist að segja foreldrum sínum frá ferðinni og hamingju sinni, datt á djúp þögn, eins og fjarðardýpið fyrir framan gluggann hefði gleypt borðstofuna. Hallvarður starði niður í bollann sinn og andlit Sigurlínu varð sorgmætt, gráti næst.
Svo var sem tundurdufl spryngi. Sigurlína ruddi út úr sér svo mörgum spurningum, að sonur hennar átti bágt með að fylgjast með.
“Hvenær kemur þessi Júlíana, – hvað er hún gömul, – hvar ætluðu þau að búa, – kann hún íslensku, – hefur hún einhverja menntun, – á hún kannski börn fyrir, – hvað á hún að gera hér uppi á Íslandi?”
Hallvarður varð alltaf mjög taugaóstyrkur, þegar konan hans fór í þennan ham og hann reyndi að láta bera eins lítið á sér og unnt var.
Haddi hafði búist við neikvæðum viðbrögðum, en alls ekki slíkri orrahríð. Hann stóð upp og ýtti stólnum harkalega aftur fyrir sig, henti tauservíettunni á mitt borðið, strunsaði inn í herbergið sitt og skellti hurðinni á eftir sér. Hann titraði allur af reiði og vonbrigðum og fór svo að gráta. Hann skyldi sýna þeim, að hann væri maður fyrir sínu. Eftir smástund fór hann í bláa vinnugallann sinn og fór út bakdyramegin. Hann átti að mæta í vinnu.
Heil vika leið án þess að þetta viðkvæma mál væri rætt. Sigurlína kepptist við að gera húsið hreint og setja upp nýjar gardínur og Hallvarður fór í sínar löngu gönguferðir, en hann var í mánaðarfríi frá skrifstofunni vegna nýafstaðins uppskurðar.
Einn dag kom hann gangandi til verkstæðisins, þar sem sonur hans vann. Það var lítið að gera þá stundina, svo þeir feðgar gátu sest við borð bakvið afgreiðsluna og spjallað saman. Hann vildi bara láta son sinn vita, að þegar stúlkan kæmi til landsins, mætti hún búa hjá þeim. Það munaði ekki um eina manneskju í viðbót í fæði. Sigurlína hafði veitt sitt samþykki. Svo gæti Haraldur sótt um lífeyrissjóðslán og ungu hjónin keypt sér litla íbúð.
Haddi endurheimti gleði sína og var þakklátur foreldrum sínum og það kvöld borðuðu þau saman og ræddu um heima og geima, þó ekki um fyrirhugað hjónaband.
“Það er þó gott, að hún ber íslenskt nafn, Júlíana, það er þó íslenska,” sagði Sigurlína.
Nú gæti hann svarað bréfi Juliönu og sagt, að hún væri velkomin, þegar hún fengi passann.
Húsið á Hraunhóli var nú sem nýtt og hvergi blett að sjá. Sigurlína hafði sjaldan áorkað eins miklu í sínu húsmóðurstarfi. Juliana var væntanleg á laugardagsmorgun. Haraldur átti að sækja hana á völlinn. Allt var tilbúið. “Ekki dreyfa vindlaösku út um allt, Halli,” áminnti Sigurlína mann sinn. “Stúlkan gæti haldið, að við séum sóðar.”
Þessi laugardagsmorgunn í september í Hafnarfirði var eins og mynd á konfektkassa, því byggðin speglaðist í ljósbláum fleti fjarðarins. Haddi hafði þvegið og bónað Fordinn og keypt rauðar rósir. Sigurlína bakaði pönnukökur. Hallvarður las dagblaðið, eins og hann var vanur. Og Haddi sótti sína Juliönu. Hann söng alla leiðina og blóðið í æðum hans þaut fram og aftur, svo hann átti erfitt með að aka ekki allt of hratt, en stillti sig, því allt varð að takast nú, þegar hamingjan kom fljúgandi í fangið á honum.
Þegar Juliana kom út úr tollgæslunni, tók hjartað í honum slíkan kipp, að það var nær liðið yfir hann. Hann hafði munað hve falleg hún var, en nú var hún þarna ljóslifandi og mun fallegri en sú mynd, sem hann hafði geymt innra með sér. Hárið var kastaníubrúnt, liðað og hálfsítt, rósóttur kjóllinn lagðist sem hanski að kvenlegum líkama hennar og hún hljóp í faðm hans, eins og barn, sem fær ósk sína uppfyllta. Endurfundir þeirra voru heitur munaður. Það, sem snart þó hjarta hans hvað dýpst var, að Juliana hafði kennt sjálfri sér dáldið í íslensku. Hún gat sagt eins atkvæðis orð, sem skildust. Þegar hún reyndi að segja setningar, varð það erfiðara. Hún hafði fengið lánað snældunámskeið í íslensku á bókasafninu í Bukarest.
Þegar þau renndu í hlaðið heima í Hafnarfirði, stóð Hallvarður við innkeyrsluna og opnaði hliðið fyrir þeim. Þegar hann heilsaði Juliönu, sagði hún: “Góður dagur.” Sonurinn sá, að faðir hans féll fyrir komandi tengdadóttur sinni á því augnabliki. Meira þurfti ekki til.
Sigurlína stóð með krosslagðar hendur við stofugluggann og þóttist vera upptekin af útsýninu, þegar þau komu inn. Hún sneri sér við, skoðaði Juliönu eldsnöggt, rétti svo út eins langan handlegg og hönd og henni var unnt og sagði: “Sæl.”
Eins og dýrin, fann Juliana, að hér var hætta á ferðum, rétti fram álíka langan handlegg og hönd og sagði: “Sæl.”
“Flott,” varð Hallvarði að orði.
Kaffið var tilbúið, heimabakaðar kökur og pönnukökur með sultu og þeyttum rjóma og enda komið yfir hádegi. Samtalið var stirt, en eitt og eitt orð á ensku og, eða íslensku leysti smám saman upp spennuna.
Heimilisfólkið á Hraunhóli kunni nóg í ensku til að skilja þau orð, sem Juliana notaði, þegar hana vantaði íslenskt orð, en hún hafði litla þýsk-íslenska orðabók við höndina og var mjög fljót að finna það, sem hana vantaði.
“Aðra pönnuköku,” sagði Sigurlína brosandi og rétti henni staflann. “Oh, no, takk,” sagði Juliana og hló, tók um magann og sagði “gott, very gott.”
Haraldur Hallvarðsson sat sem dáleiddur og horfði nær því skammlaust á langþráða unnustu sína. Hann var dáleiddur, hugfanginn, hamingjusamur, svo foreldrum hans þótti nóg um.
Hamingja annarra getur verið óþægileg þeim, sem enga hamingju eiga sjálf. – Minna má nú gagn gera,- hugsuðu Hallvarður og Sigurlína í kór og litu hvort á annað.
Eftir þessa fyrstu kynningu, fóru skötuhjúin út að ganga. Juliana var heilluð af fegurð staðarins, – blá og blá og hvítur auga lands,- sagði hún við Hadda sinn og horfði djúpt inn í hans hafbláu augu. – Like you, – sagði hún svo seiðandi röddu.
Fyrstu dagar Juliönu í frelsinu, þar sem ekki þurfti að sýna vegabréf, þegar maður ók út úr bænum, eða mæta endalaust á skrifstofum til að sanna hver maður er, voru framar öllum hennar vonum og draumum. Hún átti það til að fara allt í einu að dansa um í fínu stofunni á Hraunhóli og syngja, – free, free, free! -
Einu sinni fannst Sigurlínu nóg um og spurði son sinn lágum rómi í eldhúsinu, hvort Juliana væri sígauni.
“Það held ég ekki, mamma,” svaraði hann hissa. “Hún er bara glöð og sýnir það.”
“Fyrr má nú vera,” sagði Sigurlína.

Juliana Leonida Shaposhnikova og Haraldur Hallvarðsson voru gefin saman á skrifstofu borgarfógeta einum mánuði eftir komu hennar til Íslands. Eftir það hét hún Júlíana Hallvarðsson. Henni fannst það mjög fyndið og sagðist heldur vilja vera ”dóttir.” Nú gat hún sagt nokkrar setningar á íslensku og ekki var annað að sjá en hún væri sem fiskur í vatni í sínu nýja og framandi umhverfi.. – Hér er hreint, – hér er gott loft, – hér er pláss, – voru uppáhalds setningar hennar.
Starfsfélagar Hadda komu í brúðkaupið, konur þeirra og kærustur, vinahjón fjölskyldunnar og Pálína, systir Sigurlínu. Þau biðu öll fyrir utan, þegar ungu hjónin komu út og höfðu nær kæft þau í hrísgrjónahríð og svo beið þeirra svört, blómum skreytt límúsína fyrir utan skrifstofuna.
Brúðhjónin óku til Blómaskálans, nýjasta veitingastaðar bæjarins. Þar fór veislan fram. Ekki hafði tekist að fá ferðaleyfi fyrlsdóttir, systir Sigurlínu. Þau biðu öll fyrir utan, þegar ungu hjónin komu út og höfðu nær kæft þau í hrísgrjónahríð og svo beið þeirra svört, blómum skreytt límúsína fyrir utan.
Juliana var í hvítum silkikjól, skreyttum rauðum strikum. Hún henti brúðarbúkettinum í fang systur Sigurlínu, roskinnar, virðulegrar ekkju að austan og starfsfélagar Hadda reyndu að leyna hlátursgusunum.
Brúðhjónin óku til Blómaskálans, nýjasta veitingastaðar bæjarins. Þar fór veislan fram. Ekki hafði tekist að fá vegabréf fyrir foreldra Juliönu, en Haddi vildi bjóða þeim. Slíkt fékkst ekki á svo skömmum tíma.
Faðir brúðgumans hélt ræðu um fegurð Hafnarfjarðar og svo að síðustu fegurð Juliönu. Formaður bílaverkstæðisins, sem Haddi vann á, hélt ræðu um hlutverk brúðhjónanna í framtíðinni; eignast mörg börn og vinna hörðum höndum. Pálína hélt ræðu um mikilvægi þess að vera íslendingur og það yrði miklu auðveldara fyrir suðurlandastúlkuna að verða íslensk, ef þau flyttu austur á land, því þar væri ekki eins mikil örtröð og hér fyrir sunnan.
Svo var skálað og sungið og síðan dansað við hammondorgelleik. Strákarnir frá verkstæðinu voru snemma orðnir slompaðir og kátir og allir vildu dansa við brúðina.
Ef það var eitthvað, sem Juliana kunni, þá var það að sleppa sér lausri í dansi og úr því varð slík skemmtun og sýning, að Pálínu, Sigurlínu og Hallvarði þótti nóg um.
“Heldurðu ekki, að hún sé sígauni?” hvíslaði Sigurlína. “Jú, það er líkast til rétt hjá þér,” sagði hann rauður í kinnum eftir all æsilegan dans við tengdadóttur sína. Hann verkjaði í bakið. “Svona er allt fyrir sunnan,” muldraði Pálína.
Allt í einu kvað við skerandi óp. Dans, tal, andardráttur, lífið – fraus. Það var Sigurlína, sem tók um höfuð sér og æpti gráti næst:
“Hún er með gullkeðjuna mína um hálsinn!”
Hún stökk á fætur, óð út á dansgólfið, greip þéttingsfast um handlegg Juliönu, sem dansaði ljúft við Hadda sinn.
“Þjófur!” æpti hún svo hátt, að orgelmaðurinn fipaðist og fólk varð felmtri slegið.
Sigurlína seildist eftir gullkeðjunni og reyndi að rykkja henni af Julönu, en keðjan hélt, svo þær voru báðar nær dottnar, en þá greip Haddi inn.
“Mamma!” kallaði hann miður sín og stöðvaði hana áður en henni tókst að toga aftur í keðjuna.
Það var dauðaþögn. Juliana tók keðjuna af hálsi sér, rétti tengdamóður sinni og sagði: “fyrirgefa ég lána í dag.”
Sigurlína greip keðjuna titrandi, sneri sér eldsnöggt við og strunsaði út úr skálanum.
Haddi leiddi Juliönu til sætis hjá Hallvarði og Pálínu. Snöktandi útskýrði hún á sinni bjöguðu íslensku, að gullkeðjan hefði legið á borðinu í baðherberginu og hún vildi bara fá hana lánaða á brúðkaupsdaginn.
Hammondorganistinn náði taktinum á ný og fólk fór aftur að dansa, en ekki af eins mikilli gleði og áður.
“Pabbi,” sagði Haddi, “viltu ekki ná í mömmu, svo við getum útskýrt þetta fyrir henni.” En Hallvarði var svo illt í mjöðminni, að hann treysti sér ekki til að fara út og finna konu sína, svo sonurinn varð að fara.
Það var myrkur úti og kalsavindur, en úti við veginn stóð Sigurlína í silkiblússu, titrandi af reiði og skjálfandi af kulda með gullkeðjuna í hendinni og veifaði bíl, sem ekki stansaði.
“Mamma,” sagði Haddi, “þetta var misskilningur. Hún fann festina á baðinu og hélt hún mætti fá hana lánaða.”
Sigurlína hætti sem snöggvast að skjálfa og sagði: “Enga sígauna í mínum húsum. Hún kemur ekki inn fyrir mínar dyr aftur skal ég segja þér og ég fer heim núna, þó ég verði að ganga, heyrirðu það.”
Haddi leiddi mömmu sína að bílnum þeirra á stæðinu, bað um lyklana og ók mömmu sinni heim. Hún þaut inn og skellti á eftir sér hurðinni.
Hann ók til baka til Blómaskálans. Nú voru flestir gestirnir farnir, en organistinn lék undir söng tveggja félaga, sem sungu hástöfum – Ísland ögrum skorið.
Juliana, Hallvarður og Pálína sátu þögul ein sér við borð og biðu.
“Ég skal keyra ykkur heim,” sagði Haddi.
Þegar þau komu að húsinu, sagði hann: “Pabbi, við Juliana förum á hótel í nótt. Tölum saman á morgun.”
“Já, vinur,” sagði Hallvarður og hann og Pálína gengu stirð og álút inn í Hraunhól.