Minni karla á Þorrablóti Íslendinga
© 2008 Inga Birna Jónsdóttir
GIMLI, KAUPMANNAHÖFN, 5. febrúar 1988
Kæru karlar, Sá karlmaður, sem hefur haft mest áhrif á mig fyrr og síðar er
……………William Shakespeare.
Hann hefur kennt mér mest um eðli manneskjunnar.
Hann lætur handhafa valdsins, Macbeth, segja, að líf mannsins sé ei meira en skuggi og maðurinn sé lélegur leikari,
sem hamast á sviðinu um stund og saga hans sé full af háreysti og hamagangi án nokkurrar þýðingar.
Hlutverkin, sem karlar leika eru þó sem betur fer æði mörg og þótt handhafi valdsins hafi orðið sð svartsýnismanni,
er ekki víst, að öll hlutverk karla fari þannig með leikendur sína.
Hlutverk karla eru mörg, en ef til vill ekki nógu margvísleg.
Það byrjar með syninum, sem verður kærastinn- eigimaðurinn- elskhuginn- sumir tala um heilagan anda
í framhaldi af föður og syni og öll þekkjum við bræðralagið.
Sumir taka hlutverk sitt hátíðlega í þessum kynferðislega afmörkuðu hópum, aðrir leita jafnvægis í sínu eigin blandaða eðli.
Flestir menn reyna að gera hlutverk sitt sýnilegt á sviðinu.
Að einum undanteknum:
DRAUMAPRINSINUM.
Einn allra er hann upphafinn og ósýnilegur.
Ég hef því hafið vísindalega rannsókn í þá veru að gera hann sýnilegan.
Fyrsta stig rannsóknarinnar var að athuga hvort hann fyrirfyndist.
Könnun leiddi í ljós, að það gerir hann.
Hann lifir á bak við tjöldin, en langar mjög mikið til að koma fram á sviðið.
Annað stig rannsóknarinnar leiddi í ljós hvar hann er að finna.
Hann er að finna í hjörtum allmargra kvenna.
Aðspurðar konur, þverskurður af stéttaskiptingu kvenna á meðal, lýstu honum þannig:
1.Aldur:
Í gamla daga átti hann að vera 6 árum eldri en konan.
Þetta gildir ekki lengur.
Frægt er orðið, að Janni, 24 ára, var gefin ferðaskrifstofueiganda, Simon Spies 62 ára.
Hjónabandið gekk mjög vel í 2 ½ ár, þar til maðurinn dó. Sárabót 1000 milljónir danskra króna..
Á draumaprinsinn kannski að vera ungur, yngri en konan? Og ef til vill vera hreinn sveinn?
Það sakar ekki að spyrja.
Sé óskað eftir löngu samlífi, má hann ekki vera mikið yfir fimmtugt.
Sé óskað eftir styttra samlífi, má hann gjarnan vera yfir fimmtugt.
Það fer eftir efnum og ástandi, sérílagi efnum.
Yngri karlar eru frægir fyrir að vera húslegir.
Valið er sem sagt: eldri maður í efnum, eða ungur og húslegur maður.
Niðurstaða rannsóknar um aldur:
KARLAR ERU TÍMALAUSIR EINS OG GUÐIRNIR.
DRAUMAPRINSINN
2.Atriði rannsóknarinnar: Útlitið
Athyglisvert er, að nú keppa sjö karlmenn um titilinn ”Herra Ísland.”
Á hann að vera ljóshærður?
Margar sögðu ”já.”
Á hann að vera dökkhærður? Margar sögðu “já.”
Sem sagt: Það skiptir ekki máli, enda breytist hár karlmanna oft með aldrinum, eða hverfur alveg.
Ein sagði: “Ég elska bónaða skalla.”
Á hann að vera gráklæddur með hornspangagleraugu?
Eða hvítklæddur í mjúkum íþróttafötum, á hjóli?
Skoðanir voru mjög skiptar, en mjúki maðurinn vinnur á.
Á hann að vera öldurhúsamaður með kúlu á maganum?
Í Englandi hefur nýlega verið grætt móðurlíf í karlmann og hann gengur nú með sitt fyrsta barn.
Kúlan er því ekki lengur bara tákn um lífsstíl, heldur og líf undir belti.
Niðurstaða rannsóknar: Útlit mjög breytilegt.
DRAUMAPRINSINN
3.Atriði rannsóknar: Hverra manna er hann?
Allar þær konur, sem tóku þátt í rannsókninni luku upp einum munni um, að hann ætti að vera
ÞINGEYINGUR – hreinræktaður.
Þær sögðu, að skýringin væri sú, að á Íslandi ríkja hreinar línur varðandi kynstofna.
Taki menn vel eftir, hafa hreinir þingeyingar dálítið skásett augu, há kinnbein og eru ljóshærðir.
Því má kalla þá hvíta mongóla og enda sleðaferðir auðveldar og tíðar á Norðurskautssvæðinu á örófi alda.
Að þessu leyti eru Íslendingar og Sovjetbúar miklar andstæður.
Það var enginn vandi að komast inn í Sovjet.
Maður komst bara ekki út aftur.
Öfugt á Íslandi.
Handhafar valdsins haga því þannig, að enginn vandi er að komast frá Íslandi.
Að komast inn er mjög erfitt, sé maður ekki af hinum eina rétta kynstofni.
Þingeyingar hafa falið sig
á bak við eldfjöll og jökla og forðast blóðblöndun með örfáum undantekningum.
Niðurstaða rannsóknar um hverra manna draumaprinsinn á að vera er,
að hann á að vera hreinræktaður Þingeyingur.
DRAUMAPRINSINN
4.Atriði rannsóknar: Hvað gerir hann?
Hér var heldur enginn vafi.
Draumaprinsinn á Íslandi er byggingameistari.
Þá er unnt að sameina helstu áhugamál og atvinnu.
Aðeins byggingameistari megnar með góðu móti að byggja yfir sig og fjölskyldu sína tvisvar sinnum.,
350 fermetra hverju sinni.
Hús hans eru úr gleri. Sá, sem býr í glerhúsi kastar nefnilega ekki grjóti.
Minni hætta er á heimiliserjum, ef húsið er úr gleri.
Glerhús spretta nú upp eins og gorkúlur á Íslandi.
Reiður eiginmaður hugsar sig um tvisvar, áður en hann kastar öskubakka í hausinn á konu sinni,
ef á bak við hana er glerveggur, sem hann hefur hannað og byggt.
Nokkrar þeirra kvenna, sem tóku þátt í þessari vísindarannsókn voru gallharðar á því,
að draumaprinsinn ætti að vera LISTAMAÐUR.
Þær sögðu, að enginn gæti orðið góður listamaður nema hann þróaði bæði kven- og karleðli sitt
og kæmi jafnvægi á ying/yang, sem heitir á latínu anima/animus.
Þar eð þessar konur voru í minnihluta, varð niðurstaða rannsóknarinnar sú,
að DRAUMAPRINSINN á að vera byggingameistari.
LAUN: alveg sama.
Allir íslenskir karlmenn kunna að leika milljónera.
Það eina, sem þarf er VISA-kort.
DRAUMAPRINSINN
5.og síðasta atriði rannsóknarinnar: HVAÐ SEGIR HANN?
Sá ungi segir í sífellu: “Ég elska þig.”
Það er svolítið þreytandi einkum og sérílagi, ef það er bara hann, sem keyrir bílinn.
PRINSINN,
Sem allar þær konur, sem tóku þátt í rannsókninni dreymdi um sagði:
KÆRU KONUR,
Nú erum við búin að tala svo mikið um þetta bansettans jafnrétti, að ég er orðinn hundleiður á því.
Eigum við ekki að fara að GERA EITTHVAÐ Í MÁLINU?
Við skulum þar með hrópa húrra fyrir
DRAUMAPRINSINUM,
Sem mætti gjarnan verða sýnilegri á leiksviði lífsins og
um leið ”húrra” fyrir öllum þeim draumaprinsum, sem hér eru saman komnir
til að skemmta sér með okkur í kvöld.
Þeir lengi lifi!
Húrra……húrra…………háúerrerra……..húrra……húrra!