Minni kvenna
© 2008 Inga Birna Jónsdóttir
Ævintýrið um prinsessuna,
sem svaf í þúsund ár
og vaknaði við,
að veröld öll var full af
undursamlegum tækifærum,
hvorki tími til að sofa, nér sýta,
um að gera að bretta upp ermar,
takast á við tröll og þursa.
Fara á fund,
segja við guðina:
“Ekki einu sinni fjármálaguðinn
ræður við sína eigin hringiðu,
allt í skuld og kaldakoli.
Rétta fjárhaginn við,
lækka skattana,
auka lífsgleðina,
hækka kaupið,
gera hreint í landinu.”
Guðirnir yggla sig,
akkorðsguðinn,
láglaunaguðinn,
guðinn eineygði,
heimur trölla og þursa,
púka og drauga.
Hlið skjálfa öll.
Fer hún á fund konan sú,
segir við guði og hyski,
að konur,
heimilisefnahags-
og hreingerningasérfræðingar,
séu að skipuleggja umhverfisvernd
og virðingu fyrir almannaheill
um veröld alla.
Segir hún við þursa:
35 stunda vinnuviku á fullu kaupi,
- hvenær annars að njóta lífsins
í hreinni sveit?
Í vinnunni, eða hvað?
Vituð þér enn, eða hvað?
Guðirnir yggla sig,
akkorðsþursinn,
láglaunaguðinn,
guðinn eineygði,
hlið skjálfa öll.
Fer hún á fund, konan sú.
Segir við eineygða guðinn:
“Stríðsvélar þínar eru til skammar
fyrir þig og þína líka.
Í stað stríðsvagna þinna
smíða ég sólvagna,
sem ferðast í tíma og rúmi,
vekja lifandi upp frá dauðum,
svo þeir finni, að þeir lifa.”
Guðirnir yggla sig,
akkorðsremban,
láglaunaþursinn,
stríðströllið mikla,
guðinn eineygði,
allur heimur jötna hlær,
hlið skjálfa.
Og þessi prinsessa, sem vaknaði
við vondan draum,
eftir eitt þúsund ára svefn,
fór að lokum til hins æðsta dómara,
guðsins eineygða og sagði:
“Notaðu nú hitt augað
og hjálpaðu okkur konunum
að búa til betri heim
handa börnunum okkar.”
Guðirnir yggla sig,
akkorðsruddinn,
láglaunagreyið,
mengunarþursinn,
stríðsjötunninn,
guðinn eineygði,
karlkonur þeirra hrína,
hlið skjálfa.
Guðinn eineygði reiðist,
því hver er sú kona,
sem dregur í efa
aisku alvaldra?
Geldingar guðanna vilja
stinga hana svefnþorni,
en hún bregður yfir sig,
huliðshjálmi.
Angurgapi, konan sú.
fær hvergi ró,
Skiptir um hagstofu,
skiptir um þrældómsvinnu,
skiptir um nafn,
ruglar kerfi hagsmunabræðra,
er ósýnileg,
óþekkjanleg heimskum hölum
og eineygðum guði.
Guðirnir yggla sig,
akkorðsbjálfinn,
láglaunakrílið,
stríðsgleðiguðinn,
karlkonur þeirra hrína.
Guðinn eineygði
hvetur til vopna,
hlið skjálfa öll.
Næst, þegar kona sú gengur fyrir valdið,
er hún í nýju líki og hefur breytt um rödd.
Hirðskáldið reynir að hindra veg hennar
til guðanna.
Úr barka hennar berst
djúp og þroskuð konurödd
og engir píkuskrækir.
Hárkollan úr lifandi hári.
Hún hefur keypt sér hugrakkt hjarta
úr konu,
sem gaf líf sitt fyrir kvenkynið
og þessa erindisferð.
Þegar guðinn eineygði,
hinn æðsti dómari,
sér þessa undraveru,
sem er tvær konur
- tvíefld -
sundlar hann,
því hún er sú magna mater,
sem hann óttast mest.
Í fyrsta sinn
opnar þessi guð hitt augað og sér,
að hér er manneskja á ferð.
Og guðinn mikli býður upp á
te og jarðaber,
gerir konuna að ráðgjafa sínum
Í víðsýni,
Því betur sjá augu en auga.
Geldingar koma,
geldingar fara,
enn og æ þeir reyna
að stinga hana svefnþorni sem fyrr,
en það hrekkur af henni
sem vatn af gæs.
Og mis-til-teinninn,
geldingur geldinganna,
sem aldrei breytir um svip,
leyniþjónustugripur guða og jötna,
gat hvorki
bitið hana í hælinn,
né
brennt skip hennar,
því konan mundi eftir
að standa hann að verki
og taka hann í eið.
Mannkvensagan
mátti ekki endurtaka sig.
vituð þér enn,
eða hvað?