Óskastund

Þegar konur elska
er ekki spurt um
hver sé undir,
eða ofaná.
Þegar konur elska
breytist bókhaldið
Í rúgbrauð
með rjóma á
og barnarím.

Þegar brjóstin anga
af móðurmjólk
og skautið af
hreinu blóði,
blómin í augum þér
boða vor
og rödd þín er líkust ljóði.

Meðan tölfræðin vex
og vinnur sitt verk,
meðan sól siglir á fjalli,
dögg perlar í grasi,
Fugl dvelur söng morguns,
Við ökum á Þingvöll
um miðja nótt,
sem baðar í birtu.
Prinsessan hvílir
Í blárri tign,
sauðkindin rennur sitt skeið.
Útvarp Keflavík:
“It´s Dancing in the Night –
It´s Dancing in the Night –
Dancing in the Night –
Our next number is
Dancing in the Night.”

Við leggjumst í hyl
Öxarár,
vín fyllir lungu og vit.
Sögnin
um ást í meinum:
“What a funny story –“
Dollars
fyrir eina ósk
á óskastund.

Þegar konur elska
er ekki spurt
hver sé undir
eða ofaná.
Bókhaldið er
rúgbrauð með rjóma á
og barnarím.

“Ef vernda ég þig gegn meini
verður þú aldrei að steini,
sussu nú og þei þei
og korriró í blárri tign,
aldrei að meini,
aldrei nokkrum að meini.
Þögul tign í blárri ró,
sussu nú,
þei þei
og korriró.”