Ritgerðir
© 2008 Inga Birna Jónsdóttir
ÞEGAR VELJA SKAL LÍFSSTARF
“Hvað ætlarðu að verða, þegar þú ert orðin stór,” spyrja krakkar hvern annan,
sitjandi á sandhaug við hús í smíðum, eða þegar verið er í “búinu.”
Sumar telpurnar ætla að verða húsmæður, aðrar ætla aldrei að giftast,
en ætla að verða eins og fínu konurnar á skrifstofunum og borða súkkulaði.
Strákarnir eru afskaplega mannalegir og segjast ætla að verða bílstjórar,
flugmenn, eða skipsstjórar.
Telpurnar horfa á þá, máttlausar af aðdáun, en einnig dálítið öfundsjúkar.
Krakkarnir eldast og þroskast og þegar þeir eru ekki lengur börn, verða þeir
ólíkari og ólíkari hver öðrum. Leiðirnar skiljast og nú er spurningin:
“Hvað gerir þú? – Hefurðu góð laun?”
Annað hvort hafa menn þá skilið við æskudrauma sína, sem hafa orðið að veruleika,
eða láta reka á reiðanum og taka því, sem býðst.
Hvort þeir hafa sniðið sér stakk eftir stærð í atvinnuvali sínu, er undir ýmsu komið.
Hvert einasta starf krefst hæfileika. Störfin krefjast aðeins mismunandi “dýrmætra” hæfileika.
Mennirnir meta sjálfir hæfileika sína og munu þeir ekki sæta verðlagseftirliti hér.
Hæfileikar manns eða konu geta beinst að einhverju ákveðnu starfi og munu þeir verða honum, eða henni ómetanlegur leiðarvísir, ef hlutaðeigandi fær þeirra notið.
En hæfileikar manneskju geta líka beinst að mörgum ólíkum störfum og fengið hana til að halda,
að hún sé alhliða sjení.
Þá vandast valið, en oft er lausn og huggun alhliða sjenís, hvort sem það er orðið misskilið skáld,
forsmáður listmálari, eða eitthvað ennþá verra, að það “lenti á rangri hillu” í lífinu.
Ennfremur má nefna þá manneskju, sem aldrei kemst að neinni niðurstöðu um það, hvort hún hafi yfirleitt nokkra hæfileika. Hún lætur “reka á reiðanum” og viðurkennir aldrei fyrir sjálfri sér, að hún hafi “misst af lestinni.”
Ásamt hæfileikum ber að líta á orku manneskjunnar, líkams- og sálarorku hennar,
til að standast þær holskeflur, sem kunna að verða á vegi hennar í starfsins og lífsins ólgusjó.
Manslíkaminn er hvumpin skepna, sem lætur ekki bjóða sér allt og getur tekið upp á ýmsu, eiganda sínum til skapraunar og erfiðleika.
Letin, sem margir kalla mesta ógnvald mannkynsins, á að miklu leyti rætur sínar að rekja til líkamlegra veilna.Menn verða að hugsa vel um sitt dauðlega hismi og gæta þess, að það nái aldrei yfirhöndinni sem kvalari sálarinnar og tortímandi starfsins.
Til þess að öðlast þá hamingju og þann frið, sem flestar manneskjur þrá, er mikil að reyna að finna starf við eigið hæfi, starf, sem getur veitt allt í senn: frið, gleði og þreytu, – starf, sem um leið heldur hugsun og athafnaþrá óbrjálaðri og vakandi, en gerir fólk ekki sem steypt í mót andlegrar stöðnunar og makræðis.
***************
“Svo líður í önnum, sæld og sorg
hver sólarkoma og hvarf;
um morgun hvern er hafið verk,
kvöld hvert sé endað starf,
en dagsverk unnið, nokkurs nýtt,
gefur næturhvíld í arf.”
(Einar Benediktsson)
MR, Reykjavík, 13. febrúar 1955
****************
MÁTTUR TÍSKUNNAR
Tíska nefnist sá háttur manna að herma hver eftir öðrum.
Þetta fyrirbrigði er sjálfsagt jafngamalt mannkyninu og mun óefað fylgja því til efsta dags.
Segja má, að sálarástand sumra meðbræðra okkar og systra sé að miklu leyti háð því að fylgjast með tískunni eins og hún er í dag og bregðast nógu fljótt við, ef eitthvað nýtt gerist í tískuheiminum.
Íslendingar eiga, eins og flestar aðrar þjóðir, sína tískufrömuði í klæðaburði, hegðun, bókmenntum og listum.
Oftast hafa tískunnar menn á Íslandi sótt hugmyndir sínar til annarra þjóða.
Hugmyndin um þjóðbúning er ekki íslensk að uppruna, en íslenski þjóðbúningurinn,
eins og hann er nú á tímum, er íslensk hugmynd.
Það væri skemmtilegt og um leið gagnlegt, ef sýnd væri framtakssemi um val þjóðbúnings karlmanna á Íslandi. Sigurður Guðmundsson listmálari, sem uppi var á síðari hluta 19. aldar, var “þjóðbúnings Dior” Íslands
og honum tókst vel sitt verk.
Skautbúningurinn og peysufötin eru allt í senn glæsilegur, skrautlegur og þó látlaus búningur.
“Hvers vegna er þjóðbúningur mikilvægur?” kann einhver að spyrja. Því er auðsvarað.
Saklaus tilbreyting í hinu hversdagslega lífi er mönnum holl, ef ekki nauðsynleg.
Nýr og fallegur hálsklútur getur breytt ömurlegu skapi okkar á illviðrisdegi.
Það gleður augað að sjá hóp manna í glæsilegum þjóðbúningi.
Hvílíkur fagnaðarfundur, þegar einmana landar, sem dvelja fjarri ættjörðinni, mætast á förnum vegi.
En því miður ganga þeir oft framhjá hver öðrum, þekkjast ekki.
Þjóðbúningur gerbreytir þessu.
******************
Páll Ólafsson kvað:
“Ást er flestum) óþekk kind,
ást er veik sem bóla,
ást er fædd og alin blind,
ást sér gegnum hóla.”
Ástarsæla er oft skammvinn og svo er einnig með tískuna.
Oft lifnar þó í gömlum glæðum.
Skoðum til dæmis myndir frá æskuárum foreldra okkar. Þær vekja oft kátínu,
því hattarnir líkjast oft koppum.
En, ef við athugum myndirnar nánar, stirðnar brosið og kuldahrollur hríslast niður eftir bakinu.
Tískan frá byrjun 20. aldarinnar er að koma aftur.
En skjálftinn líður þó hjá, og eftir nokkur ár, jafnvel bara mánuði, drögum við andann léttara.
Dior hefur fengið sitt fram.og við höfum vanist hugmyndum hans.
Í sakleysi okkar erum við þess fullvís, að tískan í dag sé sú, sem við höfum alltaf beðið eftir og loksins fengið,
en hugurinn hvarflar ekki að því, að í þögn sinni var hinn frægi Dior að semja nýja hernaðaráætlun.
Margir hlæja að þessu umstangi, aðrir fyrirlíta það. Þeir hinir sömu geta þó ekki neitað því, að örlítið sannleikskorn felst í orðtakinu: “Fötin skapa manninn.”
************************
Jónas Hallgrímsson kvað:
“Æ, hvað níðir svanna sá
Satans hattur ljótur,
Undir honum er auðargná
Eins og bullufótur.”
Enda þótt það hljóti að hafa verið þægileg tilfinning að vera yrkisefni skáldsins,
gefur vísan ekki tilefni til mikillar gleði.
Fátt er það í mannheimum, sem ekki er að einhverju leyti tengt hugtakinu tíska.
Hún hefur skotið öngum sínum inn í skrúðgarða andlegs og veraldlegs lífs,
sums staðar sem illgresi, annars staðar sem angandi Nílarlilja.
Algengasta merking orðsins felst þó í klæðaburði og hefur þess vegna verið tekin til íhugunar hér.
Við nánari athugun kemur í ljós, að ýmsar stefnur bókmennta og lista hafa átt rót sína að rekja til
tísku andlegs lífs á ýmsum tímum.
Stefnur eiga og hafa átt sín blómaskeið, fella síðan blöðin og önnur fræ skjóta rótum.
**************************
Jónas Hallgrímsson kvað einnig:
“Það er svo bágt að standa í stað,
og mönnunum munar
annað hvort aftur á bak
ellegar nokkuð á leið.”
MR, Reykjavík, 18. apríl 1955
*************************
JÓN GUÐMUNDSSON LÆRÐI
Í Ófeigsfirði á Hornströndum fæddist Jón Guðmundsson árið 1574.
Móðir hans, Sæunn Indriðadóttir, var Svalbarðsættar.
Af forfeðrum hennar má nefna Sigurð á Svalbarði, Magnús á Skriðu, Jón
á Svalbarði og Pál á Staðarhóli. Faðir hennar var Indriði prestur í Kálfanesi.
Staðarhóls-Páll var mjög gott skáld, lærður í Munkaþverárklaustri. Hann bauð Jóni,
Þegar hann var um tvítugt, til sín til náms.
Faðir Jóns, Guðmundur Hákonarson á Ósi í Steingrímsfirði, var Salómons- og Svalbarðsættar.
Hann var niðji Auðunnar Saómonssonar á Hvanneyri, Salómons prests í Árnesi, Svarts skálds Þórðarsonar
og margra annarra mætra manna.
Hákon Þormóðsson, föðurafi Jóns, ól hann upp. Um Hákon og Snjálaugu ömmu sína, segir Jón:
“Þau önduðust á þeirra áttræðisaldri hjá þeirra syni að Ósi í Steingrímsfirði.”
Um föður sinn segir hann:
“Minn faðir, Guðmundur Hákonarson, andaðist um haustið, föstudaginn fyrstan á vetri, um 50 ára aldur sinn.
Þá var ég 24 vetra og var þá kominn til hans aftur.”
Skömmu eftir allraheilagramessu árið 1601, kvæntist Jón Sigríði Þorleifsdóttur. Var hún grunuð um galdra og gerningar. Hún var frá Húsavík í Steingrímsfirði. Þau giftu sig á Kirkjubóli í Steingrímsfirði og reistu bú vorið eftir á Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði. Sonur þeirra var séra Guðmundur á Hjaltastöðum. Sagt er, að Jón hafi átt laungetinn son, sem kallaður var Jón “litli lærði.”
Þau Sigríður fluttust frá Kollafirði til Ólafseyja á Breiðafirði. Þaðan náði Jón í bækur til Skarðs,
því að bókalausum leið honum ekki vel.
Geirmundur heljarskinn byrjaði að hrella Jón með því að ganga aftur, en Jón þaggaði fljótt niður í honum.
Þrátt fyrir miklar fortölur vildi hann ekki fara úr eynni.
Á Snæfjallaströnd byrjaði draugur að hamast. Var Jón þá fenginn til að kveða draugsa niður.
Í því skyni orti hann Snæfjallavísur. Er fyrsti hluti þeirra nefndur Fjandafæla, miðhlutinn hinar eiginlegu Snæfjallavísur og síðasti hlutinn Umbót eða Friðarhuggun.
Var því almennt trúað, að Jóni hefði tekist að kveða draugsa niður.
Eftir þetta bjó Jón um tíma á Snæfellsnesi.
Jón lenti í málaferlum vegna galdra. En þau urðu að engu í það sinn.
Árið 1614 og 1615 voru Spánverjar hér við land vestra og stunduðu þeir hvalveiðar.
Urðu róstur og bardagar með Spánverjum og Vestfirðingum undir forystu Ara sýslumanns Magnússonar í Ögri. Spánverjarnir voru drepnir vægðarlaust án dóms og laga, eftir að þeir höfðu brotið skip sín
og ekki komist af landi burt.
Jón vildi ekki gera Spánverjunum mein, en varð vegna ofríkis Ara Magnússonar að flýja frá ættslóðum sínum.
Jón fór frá Snæfellsnesi fyrir tilstilli séra Guðmundar Einarssonar á Staðarstað.
Séra Guðmundur deildi ákaflega á Jón og galdra hans.
Guðmundur sagði m.a., að Jón hafi “hjúfrað djöfulinn að sér með Fjaldafælu sinni, að hún væri “djöflanna skækja,”
en faðirinn sjálfur (Jón) þeirra flón og narri.”
Þá sagði Guðmundur og: “Hvar verður þá (á dómsdegi) Jón Guðmundsson með alla sína djöflasvæfning á Snjáfjöllum eða fjandafælu sína og öllu því fíflskudrafli og heimskuþrugli, sem þar í stendur með hverju hann hefur svo hér á kjálka sem vestra æst og fælt vitgranna menn? Hvar, segi ég, mun hann og þess konar svikarar og djöfulsins útsendarar með öllum sínum kraftaverkum lenda?
Svar: Í Helvíti, nema þeir í tíma sjái að sér.”
Jón fór þá suður til Akraness.
Fyrsta dag júlímánaðar árið 1635 lýsti Jens Söfrensson yfir útlegð Jóns lærða.
Hann bjó þá um sig á eyðieyju í Héraðsflóa.
Var hann þar aleinn um tíma og má nærri geta hvernig honum hefur liðið þar með draugum þeim, sem hann átti sífellt í erjum við.
Árið 1636 komst hann með verslunarskipi til Kaupmannahafnar með syni sínum og var þar næsta vetur.
Ole Worm, fornfræðingur mikill, komst þá að þekkingu hans á rúnaletri.
Kom Worm því til leiðar, að mál hans var upp tekið með konunglegu bréfi árið 1637.
Jón og sonur hans fóru þá til Íslands og var Jón hafður í varðhaldi á Bessastöðum til þings.
Alþingi staðfesti dóminn.
Jón fluttist nú til Austurlands og var þar hjá vinum sínum til æviloka.
Þar skrifaði hann flest verka sinna til ársins 1649.
Hann dó 84 ára gamall árið 1658.
Jón varð frægur sem kraftaskáld.
Ásamt galdrakvæðum orti hann danskvæði, fuglakvæði o.fl. Um fuglana kvað hann:
“Furðu kann ég fátt af skemmtaninni,
Íslands þó fuglanöfn ég finni,
Eftir því sem mitt er mál og minni.
Óðinshani, örn og hrafn,
Er það þriggja fugla nafn.
Hann lætur fuglana tala saman:
“Undarlegt mér þykir þetta,
Þú mig gjörir að nafni frétta.
Hefirðu ekki, hjala´ ég rétta
Heyrt oft nefndan tittlinginn?”
Stígðu á bátinn, stalli minn.
“Settur er ég til stórra stétta,
stýri ég ránar gróða.”
Megirðu nokkru miðla úr þínum sjóði.
Efni þessa kvæðis er ákaflega skemmtilegt og bragarhátturinn liðlegur og auðskiljanlegur.
Stelkurinn hefur fengið far hjá tittlingnum, sem er formaður skipsins. Förinni er heitið til konungs fuglanna.
Þegar stelkurinn ætlar að greiða farið, krefst tittlingurinn hærra gjalds og segir:
“Haldast ei við höldar mínir,
þú hraklega borgar flutninginn.”
Þeir fara til konungs fuglanna og tittlingurinn “biðst af henni rétts og laga.”
Örninn vill hvorugum hjálp veita og rekur þá í burtu.
Fjölmóður er ævidrápa Jóns. Drápan er ákaflega löng og lýsir Jón þar ýmsu, sem á daga hans hefur drifið.
Dapur er hann yfir örlögum sínum, en beiskju gætir lítið.
Hann virðist hafa sætt sig við að vera hálfgerður útlagi í landi sínu, misskilinn og tortryggður af flestum.
Í formála kvæðisins segir hann:
“Hefi ég í mannraunir
margar ratað,
oft langt komið
líftóru minni,
orðið fyrir grimmdum
galdramanna,
þar sem flokk þeirra
forðast vildi.”
Einnig kveður hann:
“Því skal formálinn
frammjór vera,
svo sem fjölmóðs nef,
eða fleinn hans nasa;
um búkinn þykkur
sem bálkur rauna,
dyrðill lítill
dregst á eftir.”
Í sjálfri ævidrápunni bregður Jón fyrir sig latínu.
Vitað er, að hann lærði hjálparlaust erlendar tungur, svo sem þýsku.
Er því ekki ólíklegt, að latínan hafi freistað hans.
Hann segist hafa átt um tvo kosti að velja við Spánverjavígin.
Annar var að fara til Ögurs í flokk stríðsmanna, en hinn að vera friðlaus sem Spánverjar.
Freistandi hefur verið að vinna sér hylli Ara Magnússonar og berjast með honum.
En Jón skildi hvers konar glæpur það var að drepa vesæla skipbrotsmenn, sem enga björg gátu sér veitt.
Hann fór ekki til víganna, en flúði vestur í Dali. Um þetta kveður hann af snilld.
Í eftirmála drápunnar er ýmsan fróðleik að finna.
Hann ber vitni um, að Jón hefur kynnt sér trúarbrögð og menningu annarra fjarlægra þjóða. Um Kínverja kveður hann:
“Chinar hafa öðlast
kænskar íþróttir,
ríkdóm mestan
og mikil vísindi;
skyldi önnur þjóð
af öfund springa,
þó svo skaparinn
skikaði gáfum.”
Um Grikki kveður Jón:
“Grikkir hoppandi
góna í mána,
viljandi frá honum
vísdóm taka,
vilja síðan stritast
við stórlærða,
en lausingjum fylgir þó
lítil viska.”
Ævidrápunni lýkur svo:
“Mun mótgangsfólk
móðgast ekki
nér ragna fast
rauna-karli.
Þeir með huga góðum
Hlýða þessu,
Verði þeim að hægri
Harmar þeirra.”
Snæfjallavísur Jóns eru ekki allar til á prenti.
Snæfjallavísur hinar síðari eru þó prentaðar.
Þar getur að líta lang rammasta kraftakvæði íslenskrar tungu.
Í Málaversum segir hann:
“Límdur, klemmdur, knúður,
köfunar andi óprúður,
hlaðist á heitur hrúður,
hart sé skakinn og dúður,
haldist það um aldir,
í þeim heljar herfjötrum,
hann verði laminn og lúður.”
Ritgerð skrifaði Jón og nefndi “Um hulin pláss og yfirskyggða dali á Íslandi.”
Á handritið er skrifað, að hún sé eftir Jón Gvendsson málara og heiti “Um huldupláss og heimuglega dali.”
Ritgerðin er sem góð skáldsaga aflestrar, atburðarásin eðlileg og látlaus.
Jón segir frá sunnlenskum ferðamanni, sem fór frá heimkynni sínu í Árnessýslu. Hann ætlar noður í land til kaupsláttar. Norður í fjöllum villist hann í þoku. Hann mætir ríðandi manni og heilsast þeir.
Kaupamaðurinn segir honum erindi sitt og, að hann hafi villst.
Lýkur þeirra samtali svo um það, að kaupamaðurinn ræður sig til kaupsláttar hjá manni þessum.
Hann kveðst heita Ásbjörn og segist búa þar rétt hjá. Þeir ríða til bæjarins, stíga af baki, þokunni léttir og kaupamaður litast um.
Eru þeir í fögrum og frjósömum dal.
Þarna er kaupamaður um sumarið.
(Þórisdal. Hefur kaupamaður ætlað yfir Sprengisand. Heimildarmaður Haraldur Sigurðsson).
Jón gefur góða lýsingu á fólki, klæðnaði, mat og landslagi þarna.
Ásbjörn bóndi var í hvívetna ánægður með kaupamanninn og störf hans.
Sumarið leið og um Maríumessu var heyskap lokið.
Í kaup fékk sláttumaðurinn óvegið smjör, nokkur húðarskinn, slátur af einum sauð,
mjög vænt og var hann hinn ánægðasti.
Bóndi lánar honum gráan hest, mjög vænan og biður hann að sleppa honum, þegar hann komi heim.
Hann gefur honum öngul og færi og segir, að hann skuli ekki róa til fiskjar daginn eftir, að hann hafi dreymt sig.
Kaupamaður fer að öllu leyti eftir því, sem Ásbjörn hafði sagt honum.
Hann fer á vertíð um veturinn og fær alltaf fisk, þótt aðrir fái ekkert.
Mikil aflatíð kom og allir, sem vettlingi gátu valdið, fóru til veiða.
Nótt eina dreymir hann Ásbjörn koma til sín og kveða stöku.
Ekki fer hann á sjó næsta dag.
Bátarnir koma allir vel hlaðnir að landi um kvöldið, nema einn, sem týndist og aldrei kom fram.
Sumarið eftir býr kaupamaður sig til kaupsláttar. Hann ríður til þess staðar, sem þeir Ásbjörn höfðu áður hist á. Ásbjörn kemur þangað einnig og tekur kaupamanninn í vinnu sem hið fyrra sumar. Allt fer á sömu leið. Þeir skilja að hausti með vinskap. Lýkur Jón frásögn sinni með því, að kaupamaður hafi orðið gildur bóndi og átt börn og buru.
Jón skrifaði margar aðrar ritgerðir, svosem “Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur” og “Um nokkurar grasa náttúrur. “Tidsfordríf” ritaði Jón og gætir þar mikillar hjátrúar. Þrennar rímur kvað hann og alls konar kveðskapur liggur eftir hann, en því miður fæst af því prentað.
Almenningur á Vestfjörðum var ákaflega trúaður á afturgöngur, sendingar og alls kyns galdrakukl.
Landslag er þar hrikalegt og hættulegt yfirferðar. Þar urðu slys tíð og menn týndust.
Trú manna var, að fólk, sem hrapaði í hömrum, gengi oftast aftur og það, sem týndist,
hefði verið bergnumið af huldufólki og álfum.
Vetrarharka var mikil, myrkur ríkti mikinn hluta árs, úti fyrir ströndum kváðu við nístandi ískur frá hafísnum og bæirnir voru mjög einangraðir. Þegar á veturinn leið, var fólk orðið sljótt af skorti á nauðsynlegum næringarefnum. Þetta hafði allt lamandi áhrif á íbúana. Taugaveiklun magnaðist og draugar réðu lögum og lofum í hugum flestra.
Við slíkar aðstæður ólst Jón Guðmundsson upp. Hann varð snemma mjög námfús. Ekki gekk hann menntaveginn, en las allt, sem hann náði í. Sjálfur segir hann, að faðir hans hafi átt “reisubók” Bjarnar Jórsalafara. Líklegt er, að faðir Jóns hafi átt fleiri bækur og enn fremur, að Jón hafi lesið þær og lært. Rúnir kunni hann og notaði við særingar sínar.
Jón var hagur á marga hluti. Hann var t.d. skáld og fræðimaður mikill, málari og tannsmiður. Þess má t.d. geta, að hann samdi og seldi kver, sem í voru ýmis ráð og leiðbeiningar m.a. við eldsgangi, blóðrás, líkamsgirndum, vitfirringu, skipsskaða, stuldi, at burtstefna refum, ristingar við gulusótt, útsótt, hósta, kláða og höfuðverk.
Má nærri geta, hvor þar hefur ekki kennt margra grasa.
Eftir siðaskiptin voru Vestfirðingar grunaðirum fastheldni við kaþólskan sið.
Er vitað,að kaþólskar venjur héldust þar lengi og helgi á ýmsum messudögum kaþólskrar kirkju
hélst langt fram um aldir.
Jón var kaþólskt sinnaður og fór ekki dult með það.
Enginn af samtíðarmönnum hans þorði að herma orð hans vegna siðskiptanna.
Allur mótþrói í þeim efnum sem svo mörgum öðrum hafði verið brotinn á bak aftur.
Jón Guðmundsson var afburða gáfaður maður.
En ekki varð íslenska þjóðin þeirrar gæfu aðnjótandi að hann væri settur til mennta.
Hann hefði þá haft tækifæri til að leita sér nægrar þekkingar og velja sér þá vísindagrein,
sem hefði orðið honum, eða var honum kærust.
Ólíklegt er, að hann hefði þá leiðst út í draugagrillur og orðið fyrir ofsóknum lærðra manna,
sem sáu hvílík vitleysa draugatrú hans var, svo nálgaðist geðveiki.
Mikið hafa þó seinni kynslóðir fengið í arf frá Jóni.
Hann gaf góðar heimildir um þá og óöld, sem almenningur á Íslandi átti við að búa.
Heimspekingur hefur hann verið og var hugarheimur hans harla ólíkur því, sem almennt var,
þótt af sömu rótum væri runninn.
Hann hugsaði sér, að áður en guð hafi skapað Evu, hafi Adam getið huldufólkið.
Það hafi hold, blóð, heyrn og mál, en sé sálarlaust og trúi þó á guð.
Er þetta all skemmtilega frumleg vitleysa.
Íslendingar trúðu almennt á særingamátt Jóns og er því ekkert eðlilegra en,
að hann yrði hálfruglaður af draugatrú og baráttu sinni við drauga.
Mestan hluta ævinnar hraktist hann úr einum stað í annan.
Líf hans var sífelldur flótti frá mönnum og draugum og barátta við þá.
En ekki er minnst á, að Jón hafi reynt að beita göldrum sínum til ills.
Jón var góðmenni og vildi gera fólki gott, lækna það, fræða og hjálpa.
En aldarandinn stuðlaði fekar að því að ala á ókostum hans en kostum.
Í Jóni Guðmundssyni hefur búið brautryðjandi og skapandi vísindamaður,
sem hefur ekki notið sín sem skyldi vegna hjátrúar.
MR, Reykjavík 24. febrúar 1954
****************************
HVAÐ VELDUR EINKUM
HINUM NÁNU TENGSLUM NORÐURLANDA?
Voru það frændþjóðir Íslendinga, sem fjarlægðust þá á 13. öld?
Norðurlandaþjóðirnar eru nágrannar. Það er því eðlilegt og æskilegt, að þessar þjóðir bindist vináttuböndum.
Aldrei hefur þörfin fyrir nána samvinnu verið meiri en nú.
Þjóðirnar, sem byggja Norðurlönd eru komnar af sama kynstofni.
Skapgerð þeirra er lík. Stolt, sjálfsbjargarhvöt og fróðleiksfýsn hefur löngum verið einkenni þeirra.
Erfið náttúruskilyrði hafa gert íbúana harða í lund og þrautseiga.
Þessi sameiginlegi arfur kynslóðanna tengir Norðurlandaþjóðirnar vináttuböndum, sem seint munu slitna.
Á dögum forfeðra okkar studdust þjóðirnar hver við aðra til þess að geta aukið þekkingu sína
á andlegu og verklegu sviði.
Í fyrstu var það tungumálið, sem gerði þetta auðvelt.
Íslensk skáld flykktust t.d. til konungshirðanna og höfðingjanna.
Þar hlutu þau áhugasama áheyrendur, sem kunnu að meta list þeirra.
Oft fengu skáldin ríkuleg laun fyrir kvæði og sögur.
En brátt jukust samgöngur frændþjóðanna við önnur lönd álfunnar.
Íslensk skáld voru ekki lengur aufúsugestir konunga og höfðingja.
Fólkið kaus heldur að hlusta á lúðraþeytara og sjá trúða en hlusta á dróttkvæði.
Tungur frændþjóðanna breyttust og einnig hugmyndaheimur þeirra.
En Íslendingar varðveittu gimstein sinn, tunguna, sem frændþjóðirnar glötuðu.
Þegar litið er yfir sögu Norðurlanda, sést, að hún er mjög fjölþætt og atburðarík.
Þjóðirnar hafa oft deilt innbyrðis, en oftast voru deilur útkljáðar við samningaborðið.
Norðurlandaþjóðirnar hafa háð sína sjálfstæðisbaráttu og hafa náð takmarki sínu,
en samningaumleitanir standa enn við Færeyinga og Grænlendingar munu án efa s
ækjast eftir sjálfstæði frá yfirráðum Dana.
Íslendingar lutu stjórn Dana í margar aldir. Ekki er hægt að segja, að sú stjórn hafi farist Dönum vel úr hendi.
Eftir langa og harða baráttu hlutu Íslendingar þó sjálfstæði sitt með lýðveldisstofnun árið 1944.
Hugir margra Íslendinga til Dana voru blandnir beiskju.
Sárin greru, en örin sáust, hurfu ekki með það sama.
Finnar öðluðust sjálfstæði sitt sama ár og Íslendingar fengu heimastjórn, árið 1918.
Árið 1908 réðust Rússar inn í Finnland og lögðu það undir sig.
Sjálfstæðisbarátta Finna var hörð og löng, en þeir sigruðu.
Og hvað er betra en langþráður og torsóttur sigur?
Færeyingar hafa háð sína sjálfstæðisbaráttu engu síður en Íslendingar og Finnar.
Árið 1940 náðu þeir stórum áfanga á þeirri torsóttu braut. Þá var sett á laggirnar innlend stjórn og tekinn upp þjóðfáni.
Danir létu Noreg af hendi við Svía árið 1814.
Norðmenn reyndu að losna undan yfirráðum þeirra, en í þeirri baráttu nutu Svíar stuðnings stórvelda álfunnar.
Árið 1905 urðu sambandsslit milli Svía og Norðmanna. Lá um skeið við stríði milli þjóðanna, en úr því varð þó ekki. Þessar deilur og barátta ríkjanna mynduðu talsverðar erjur og hatur á milli þjóðanna.
Enn eimir eftir af andúð Íslendinga á Dönum og kemur hún gleggst í ljós í handritamálinu, sem nú er mesta hitamál.
Á Norðurlöndum vaknaði sú hreyfing, er “skandunavismi” nefnist.
Voru það einkum ungir menntamenn, sem stuðluðu að framgangi hennar.
Fylgismenn hreyfingarinnar stefndu helst að því að efla menningar- og stjórnmálasamvinnu þjóðanna.
En þó að stefna þessi, eða hreyfing hafi ekki unnið neina stórsigra í hugum fólksins,
hefur hún oft haft mikil áhrif fyrr og síðar.
Af merkustu fylgismönnum “skandinavismans” má nefna Björnstjerne Björnson, norska stórskáldið.
Með skrifum sínum tók hann m.a. þátt í baráttu Íslendinga.
Skáld, fræðimenn og listamenn taka oft mikinn þátt í umræðujm un tengsl þjóða, þar á meðal Norðurlanda.
Nú eru það ekki eingöngu þjóðhöfðingjar og fylgifiskar þeirra, sem njóta góðs af.
Þorri almennings er sólginn í bókmenntir.
Þegar fjölhæfur listamaður, góð skáld og fræðimenn fara til annarra landa og láta ljós sitt skína,
myndast tengsl milli ættjarðanna og framandi landa í þeirri vináttukeðju, sem tengir þjóðirnar saman.
Á Íslandi höfum við oft séð og heyrt marga góða listamenn frændþjóðanna.
Þjóðleikhúsið hefur oft boðið þeim til Íslands og gegnt miklu menningarhlutverki.
Íslenskir rithöfundar og fræðimenn hafa leitað til Noregs og Danmerkur.
Þeir hafa fært löndin nær hvert öðru.
Því hefur verið fleygt, að treysta beri vináttubönd Norðurlanda í þágu heimsfriðarins.
Norðurlandaráð hefur verið stofnað í þeim tilgangi.
Samþykkt var í ráðinu að mæla með upptöku Kína í Sameinuðu Þjóðirnar.
En þegar á hólminn var komið og greiða skyldi atkvæðii, sátu fulltrúar Íslands hjá.
Ekki mun slík framkoma af hálfu Íslendinga treysta tengsl þjóða.
Ekki er nþóg að segja nokkur fögur orð og hlaupa svo frá öllu saman. Verkin tala.
Stórt skref í áttina til nánari samvinnu var stigið, þegar sjúkrasamlög Norðurlanda tókust í hendur. Ferðamannastraumurinn eykst í sífellu. Sumir leita sér lækninga í löndum grannþjóðanna, aðrir verja sumarfríinu til að kynnast nágrannaþjóðunum. Mikil skriffinska er þessum ferðalögum samfara. Menn verða að fara frá einni skrifstofu til annarrar og fá ýmisleg skjöl, sem síðan þarf að stimpla. Þetta er ferðamönnum til mikilla óþæginda og trafala.
Ef vegabréf og allt, sem þeim fylgir væru afnumin, mundu þjóðirnar færast nær hver annarri.
Íslendingar eru á vegamótum. Um tvær leiðir er að velja:
leiðina til frændþjóða okkar Norðurlandaþjóðanna og leiðina í faðm þjóðar, sem er okkur ólík og óskyld, Bandaríkjamanna.
Fjöldi Íslendinga umgengst daglega þá menn, sem verja skulu landið, Ameríkumenn.
Þeir hafa dvalist hér í örfá ár, en áhrifin frá þeim sjást glöggt á æskulýð landsins.
Það eru arftakar þeirrar kynslóðar, sem fer með völdin, sem eru að “ameríkaniserast.”
Enn sem komið er, gætir þessara áhrifa ekki svo mikið, að við þurfum að örvænta.
Samt virðast þau vera geigvænlega mikil eftir stutta veru útlends hers hér á landi.
Það eru þá Íslendingar, sem á 20. öld eru að fjarlægjast frændþjóðirnar.
MR. Reykjavík, 25. október 1954