Himintunglahundurinn Skotta, fyrsti þáttur
© 2008 Inga Birna Jónsdóttir
Kolla Kata fljúgandi í Grænalundi
Kolla Kata setti stút á munninn,
sagði hátt og hvellt:
“Ég vil fara ÚT!
Ætla að finna stjörnu til að sitja á,
horfa á allan heiminn.
Fá mér akbraut út og suður að keyra á.
Biðja fólk, sem býr á öðrum stjörnum
að hjálpa mér.
Finna fólk, sem kann að vera í góðu skapi
og húsálfa, sem segja satt.
Finna hreindýr að draga vagna milli stjarna,
renna létt um loftin blá,
inn og út um allar jarðir.
Skyndilega sá hún allt,
stjörnurnar í ljósadýrð,
akbrautir, vegi, dýr.
Kolla Kata glöð og kát settist
upp í vagninn þann,
sem rann af stað,
út í geiminn,
svo hún sæi allan heiminn.
Fyrsta stöð var Ísaland,
slétt og hvítt,
hátt og nýtt,
fullt af fólki, sem hún þekkti,
afi og amma,
pabbi og mamma.
“En, mig vantar lítinn hund,
sagði hún með tár í augum
og á einu augabragði
sat hjá henni hvutti nokkur,
sagði vúff og skilja má,
að þessi vera mundi hjálpa
á ferðinni um loftin blá.
“Skotta skaltu heita, sagð´ún,
fylgja mér í gegnum allt,
finna stjörnu,
er blikar skært
og sendir okkur SOS,
ef einhver ætlar eitthvað illt,
svo Kolla Kata og Skotta
geti hoppað upp
og stoppað það.
“Ég veit vel hvar stjarnan er,
vúffaði Skotta sigurviss.
“Segðu mér þá hvar hún er,
sagði Kolla Kata glöð.
“Undir okkur, vúffelívúff,
frá Skottu kom.
“Það er jörðin,
jörðin þín,”
hún bætti við.
“Látum okkur fara heim,”
Kolla Kata sagði þá.
“Ekki ég, nei ekki ég,”
frá Skottu kom.
Síðan þaut hún eins og píla
upp á stjörnuljós.
Kolla Kata kallaði á Skottuna,
en mamman kom.
Hún var heima í Grænalundi
um miðja nótt.
Stjörnuljós í glugganum
og Skottu vúff,
sem sagði blítt:
“Sofðu rótt.
í alla nótt.”
Fitustjarnan
Kolla Kata vaknaði
og fannst hún vera í fluguvél,
Skotta var við stýrið
og söng sinn vúffasöng.
“Stjarna skín svo undurfögur,
blikar nú á himni.
Guð má vita hver býr þar
og hvort við fáum inni.”
Lendingin var ljúf og mild,
Skotta sýndi mikla snilld.
Þegar vélin hætti að suða,
svifu þær á landið niður,
þar sem stjörnubúar biðu
kringlóttir og brosandi,
buðu upp á töfradrykk
og hringferð kringum landið sitt.
Allt var kringlótt þar í sveit,
blöðruhausar, magar,
meira að segja gömul geit.
Kolla Kata spurði mann,
sem var eins og mundi hann,
springa af spiki allt um kring:
“Hvað er það, sem gerir allt
svo kringlótt hér?”
“Það er loftið, vina mín,”
“grísafita í morgunmat,
engin vinna, bara rjómi,
smjör og bjór.
Af því verðum við svo stór.
Þú ert lítil stelputuðra,
Þess vegna er´ða engin furða,
að þú getur ekki notað
sýndarslæðu himinhvolfsins,
ratar ekkert, getur ekkert.
Ef þú borðar grísafeiti,
góðan skammt á hverjum degi,
máttu alveg flytja hingað,
verða löt og feit og sælleg.”
Skotta fór að urra á hann.
Kolla Kata bað um leyfi
til að fara í sitt rúmskip,
komast út úr Fitulandi,
fljúga heim í Grænalund
með sinn góða vitra hund.
Burt þær svifu heim á leið
og lentu niðri á flötinni.
Sváfu vært í sætum blundi,
góða nótt í Grænalundi.
Hávaðastjarnan
Svo kom þessi voða nótt
með húrlúmhæ,
ljós í hverjum glugga og bæ,
fólk að borða, fólk að horfa
á þær myndir, sem nú birtust
veggjum á, skjáum frá.
Það var skriðdrekanna dans
upp og niður hæð og hól,
hvert eitt hús og hvert eitt ból
hafði sína paraból.
Stríð og stormar,
sorg og sút,
klufu lönd og sendu út
enga gleði, bara eymd.
saga mannsins,
sagnageymd.
Hvinur mikill leið um loftin,
hávaði frá bíl og báti,
ekki nokkurt mannlegt eyra
heyrði blíða sönginn þann,
sem nú um himinloftin rann.
Manstu þetta stríð og hitt,
fólk að flýja,
hamagang, heimsku,
hungur, bardaga?
Skotta ærðist,
reyndi að slökkva
á einu tæki eftir annað.
Þá kom lúðralöggan fram,
rumdi, að það væri bannað
að hafa þögn og engin læti;
það væri svo svaka púkó,
- ger svo vel að fá þér sæti,
taktu þátt í miðlakæti!”
Æsingurinn kætir, bætir.
Þetta hefur verið sannað.
Kolla Kata heyrði ekkert,
því að hljóðhimnurnar brustu.
Hún sagði lágt og stundi við:
“Lát ei fólkið hafa hátt,
ég er að verða heyrnarlaus,
Þungur er minn litli haus.
Gef mér þögn, svo heyra megi
ljúfa tónlist á himnavegi.
í svona glaumi er svo fátt,
sem ómað getur í hjarta mínu.
Lát mig heyra stjörnuvals
Lát mig heyra tóna ljúfa.
sjá liti bjarta.
Hugur minn er ei til fals,
Skotta, viltu dansa vals,
Þú og ég um loftin blá,
hávaðanum burtu frá?
Skotta breiddi út faðminn sinn,
bauð Kollu Kötu upp í vals,
fögur sjón á sunnudegi,
skottís eins og einu sinni,
tangó – svo er mál að linni.
Heim að sofa í ró og næði,
hugur hreinn og laus við æði,
himintunglin há og flott,
hvíldu núna sætt og gott.
Stjörnuhrap í fjarlægð gaf,
ljósadýrð um himinhaf.
Undrastjörnu á
Í Grænalundi var stjörnubjart,
Kolla Kata sat á bekk
úti í garði að telja stjörnur,
hundrað milljón stór og smá.
Stjarnan, sem hún starði á
miklu stærri en aðrar stjörnur,
blikandi svo rauð og gul.
Hikandi fór Kata að hvísla:
Skotta, komdu með,
komdu með
upp á þetta skrítna tungl.
Ekkert svar og engin Skotta
Ætlarðu ekki að fara að hátta?”
spurði pabbinn sætt og þýtt.
Kolla Kata fór í rúmið,
þóttist sofa undurblítt.
hvíslaði þó ofurlágt:
“Skotta,Skotta, komdu nú,
flýttu þér, því nóttin kemur,
klukkan er að verða átta
og allt of snemmt að fara að hátta.”
Ekkert svar og engin Skotta,
“Kannski er hún farin burt,”
sagði KK afar leið.
“Ég kemst ekki á þessa stjörnu,
nema Skotta hjálpi til.”
Hún lagðist svo í rúmið sitt
og þóttist sofa.
Mamman kom að kyssa barnið,
pabbinn slökkti ljósið hennar,
svo fóru þau bæði að hátta,
klukkan var þó bara átta.
Þá kom Skotta eins og draugur,
vúffaði og beit í lakið,
svo að Kolla Kata snerist
hálfan hring og datt á bakið,
niðr´á gólfið kalt og nakið.
Svo þaut Skotta út um gluggann,
Kolla Kata strax á eftir,
upp, upp, upp á stjörnuloftið,
stefndi á undrastjörnuna.
“Hvað er að þér, hundur góður,
ertu orðinn alveg óður?
Skotta bara brunaði áfram,
lenti loks í gullnum sandi
undrastjörnu á.
Kolla Kata flýtti sér
sæti að fá
Skottu hjá.
“Ertu gengin göflum af,
skottuskjóða?”
stundi Kata mjög svo móð.
“Skotta ertu alveg óð?”
Sandur fauk í allar áttir,
síðan opnuðust þær gáttir,
sem sýndu dýr að ganga inn göng,
er liggja inn í mikinn sal.
Varlega þær fóru inn.
Var hér byggð?
Var hér land?
gulri og rauðri stjörnu á?
en þær sáu bara sand.
Allt í einu birtist maður
Stór og sterkur eins og tröll.
Á bak við hann var stærðar höll.
“Velkomnar,” hann sagði glaður,
“Komið upp í turninn minn.”
Þaðan sé ég veröld alla.
Komið með! Komið með!”
Skotta stökk á miklum spretti,
Kolla Kata hikaði.
Henni fannst hún vera að detta
út í loftið allt um kring.
Maðurinn þá fór að hlæja,
“já, já, sei, sei, jæja, jæja!
Loksins ertu orðin varkár.
Geimurinn er ekki eins smár
og margir halda.
Hann er víður.
Hann er hár.
Komdu litla Kolla Kata.
Þig mundi ég aldrei plata!”
Nú sat Skotta hátt á lofti,
hafði útsýn yfir heiminn,
vúffaði af voffagleði,
hélt þau mundu fara út,
vissi ekki að maðurinn
vildi fara með þau
inn í þessa risastjörnu.
Upp á sleða, oná braut
þutu þau í gegnum göng,
inn og niður djúpt að bruna,
inn í iður stór og djúp.
íklædd stórum huliðshjúp,
sáu mannkynssöguna,
stórt og flott,
illt og gott,
stríð og frið,
milljónir að ferðast um,
út og suður,
upp og niður,
lífið gegnum aldirnar
á jörðu niðri,
fjöll og firði.
“Þarna er ég!”
Kolla Kata hrópaði.
“Og þarna er mamma.
Pabbi er að skrifa á tölvu,
mamma er að stjórna fundi.
Þarna er líka hún amma mín,
hún Erla K.
sem flýgur um í heiminum
eins og fugl í geiminum,
er svo ung og sniðug amma,
mundi aldrei þusa og skamma.
“En,
hvar er Skotta?
KK spurði?
“Hún er ekki á jörðu niðri,”
sagði stjörnustjórinn mikli.
“Hún er gömul alheimsvera,
hefur meira en nóg að gera.”
Nú sá KK Skottu tróna,
stóra eins og tröll við hlið.
Hvað ertu að gera þarna?”
spurði KK alveg hissa.
“Ég er að passa dýragarð,
vúffelí og vúffela.”
Kolla Kata hló sig þreytta,
vaknaði í Grænalundi,
sunnudagur, sól í fjalli,
renndi sér á skíðunum,
niður eftir hlíðunum.
Jólanótt
Jólin voru nú að koma.
Margt og mikið var að gera.
Pabbinn keypti jólatré,
mamman fór í mikla veislu.
Gjafir voru í skrautpappír
settar undir jólatréð.
“Jólin koma! Jólin koma!”
Kolla Kata trallaði,
fór með pabba út að labba,
því kvöldin voru voða löng.
Jólasveinar einn og átta
komu fram í sjónvarpið,
sögðu sögur,
sungu ljóð um jólagrautinn sæta og góða.
“Eru jól á öðrum stjörnum?”
vildi Kolla fá að vita.
Svarið kom í svefni vært:
Stjörnubörnum er svo kært
að dansa kringum sólarlagið
himinhvolfi á,
meðan mannabörnin fá,
gjafir jörðu niðri á.
Skotta var í jólaskapi,
dró fram gjafasleða létt
eins og fis og þaut svo upp
á himinbrautar jólastétt.
Þar var veisla fyrir alla,
allar konur, alla karla,
sem að ekki eiga heima
í jólagleði mannanna.
“Ég vil með, ég vil með,”
sungu englar,
sungu álfar.
Skotta gaf þeim öllum far
inn og út í stjörnuheimi,
fór á jólaball með mörgum
langafa og langömmu,
sem að búa í himnaríki
og maður getur séð í kíki.
KK var hjá pabba og mömmu,
Skottu var samt ekki boðið
á jólakvöld í mannaheimi.
Hún varð því að vera á sveimi
langt langt úti í englageimi.
Kolla Kata fór að gráta,
engin Skotta á jólanótt,
en skildi fljótt,
að Skotta bjó í engla- og álfabæ,
og eftir jól hún kæmi aftur.
Þetta ákvað hulinn kraftur.
Jólasveinar einn og átta
ofan komu úr fjöllunum,
gjafir, gestir, jólaveisla.
Kolla Kata sá þá geisla,
sem jólin eru örlát á.
Stundum lá hún vakandi,
ef vera skyldi, að Skotta kæmi,
en það var alveg af og frá.
Hún er himintunglahundur,
tollir ekki jörðinni á.
Ég vildi, að ég hefði vængi,
hvíslaði hún út um gluggann,
Þá gæti ég svifið frjáls
út um alla heima og geima.
Þá var eins og veldissproti
flygi fyrir utan gluggann
og í lofti heyrðist þytur.
Svo sá Kolla Kata skuggann
af Skottu litlu fljúgandi.
“Skotta, Skotta,” hvíslaði hún,
“ertu búin að gleyma mér?”
Ekkert svar og engin Skotta,
Því úti í geiminn flaug hún bratt.
Aftur Kolla Kata grét.
Mamman kom og vildi vita:
- Var eitthvað að, eða hvað?
Kolla Kata sagði henni hve gaman var
að ferðast úti á stjörnubrautum,
svífa um á himnaskautum,
meðan allir sváfu vært.
Þá varð mamman felmtri slegin,
hringdi í lækni, sem hún þekkti,
Dr. Siggu Sigurðar.
Dr. Sigga velti vöngum,
vildi heyra söguna
um næturflakk á himnum uppi.
Mamman bað um lyfseðil,
svo að KK gæti sofið,
Því að nætursvefninn sætur
væri betri en villtur draumadans.
Pabbinn fór á apótekið,
keypti lyf og Kolla fékk
pillu svo hún hætti að flakka
allar nætur út og suður.
Þá varð rótt í Grænalundi,
Kollu Kötu ekki dreymdi
ævintýri á jólanótt.
Vúffelí
Nú var Kolla í miklum vanda,
mundi hún aldrei aftur sjá
Skottu líða um loftin blá?
Pillan, sem hún átti að taka,
svæfði hana sætt og rótt,
draumalaust, dimmt og hljótt.
Mamman kom með pilluna,
sem Kolla átti að gleypa fljótt.
“Sofðu rótt,” sagði mamman,
slökkti ljósið, fór svo sjálf
að sofa sætt hjá pabbanum.
Nú kom ekkert ævintýri,
engin Skotta, ekkert flug,
Kollu Kötu datt í hug
að gleypa ekki pilluna,
sem hún faldi í munninum.
Það var dimmt,
því að mamman hafði
slökkt allt ljós.
Það var dimmt og draugalegt,
veröldin svo hljóð og tóm,
næturró og þögnin þung,
engin Skotta,
engar stjörnur,
bara falin pilla djúpt
undir teppi á gólfinu,
svo að mamman héldi að,
Kolla Kata svæfi ljúft.
Kolla Kata hlustaði,
hún beið og beið
lengi, lengi og varð mjög leið.
Svo fór hún að hvísla lágt:
“Skotta, kæra Skotta, komdu.”
Allt í einu stökk hún inn
eins og fuglinn fljúgandi,
upp í rúm til Kollu Kötu,
sleikti hana og vúffaði,
hoppaði og dansaði.
Þær flugu svo í geiminn út
eins og þotur voru þær,
fljótari en hugur manns,
lentu svo með miklum glans
uppi á sjálfu tunglinu,
horfðu niður á jörðina,
háa og lága,
höf og fjöll.
Þeim fannst jörðin
fögur öll.
“Þarna áttu heima KK,”
vúffaði Skotta alvarleg.
“Manneskjurnar geta ekki
búið öðrum stjörnum á.
Okkar litlu ævintýri
enda brátt,
Því ég á heima
hundastjörnu á.
Nú er komin kveðjustund.
Þú ferð heim í Grænalund,
færð þér lítinn jarðarhund
að leika við.
Ég fer inn í hundaheiminn,
hætti að flakka um himingeiminn.
Vúffelí og þakkir fyrir
skemmtilegar næturstundir.
Sofðu rótt og Dr. Sigga
sér, að þú þarft engar pillur.”
Skotta breyttist þá í ský,
sem sveif í burtu létt og lipurt.
Kolla Kata svaf til morguns,
pillulaus og himinsæl.
Það var fagur sunnudagur
og hún sagði pabba og mömmu
söguna um sig og Skottu.
Þau óku út í Vatnamýri,
úti er ævintýri.