Himintunglahundurinn Skotta, annar þáttur

Skógarbóndinn og hundurinn hans

Skotta fer í skógrækt

Skottu leiddist voðalega,
varð að finna nýjan vin,
sveif um loftin vúffandi,
stundum jafnvel grátandi.
Tárin urðu að snjókornum,
sem svifu niðr´ á jörðina,
duttu oná veiðimann.
Skotta vildi hitta hann.

“Viltu vera vinur minn,”
spurði hún og horfði upp
á þennan stóra bóndamann,
þá bæði sá og skildi hann,
að hundinn gæti hann sett á vakt
upp í græna lundinn sinn
til að halda fénu frá
trjám og gróðri landinu á.

Hann var búinn að græða upp
heila hlíð og reka frá
kindur, lömb og hestastóð,
vildi gera landið grænt.
Þetta var hans dýra lóð
og Ísalandsins hjartablóð.

“Allt í lagi,” sagði hann,
skógarbóndinn innst í dal.
Skotta hljóp í marga hringi,
vúffaði svo vel og lengi
til að sýna, að vildi hún
passa þetta mikla tún,
reka burtu lömb og hross,
sem eta upp allt, er gróið getur,
enginn kann né getur betur
unnið þetta vandaverk,
því Skotta er bæði stór og sterk.

Svo kom kvöld í þessum dal
og Ísalandi hátt og lágt.
Bóndinn fór í húsið inn,
Skotta settist upp á stein.
Nóttin kom og hún var ein.
Allt í einu heyrði hún
hófa dynja og hrossin hrína.
“Núna ætla ég að sýna
bóndanum þá snilli mína,
að fæla burtu þessa gesti,
sem ætla að eta allt sem grær.”

“Komið bara, komið nær,”
vúffaði hún á steininum.
Hestarnir þá stönsuðu,
hlustuðu og skulfu allir.
“Hothothot og burtu farið,”
þrumaði hún út í loftið.
Síðan hljóp hún inn á milli
tagls og hófa og beit í hæla.
Þannig tókst þá burtu að fæla.
Þeir þutu burt og voru allir
skíthræddir við Skottuna.

Bóndinn fékk sér morgunkaffi,
útvarpsfréttir, slappaði af,
opnaði svo útidyrnar,
sá að Skotta lá og svaf
eftir mikla vinnunótt.
Í hlíðinni var gróðursælt,
öll hans tré svo bein og fín
“Ætli Skotta hafi fælt
hross og rollur langt í burt?
Maður getur alltaf spurt,”
hugsaði hann og náði í bein
gaf Skottu það,
sem ei var sein
að eta það í nokkrum bitum,
vúffaði og gólaði,
honum fannst hún segja “já,”
síðan vék hún ekki frá
skógarbónda bænum á.

Fjölskylda frá Grænalundi
heyrði um þessa stóru tík,
sem enginn vissi hvaðan kom.
Öll þau fóru í jeppann inn
og brunuðu út hraðveginn,
norður og niður um göngin löng.
Minnsta barn tók með sér snæri,
ef Skotta væri ekki hundur,
en tígrisdýr frá heitu landi,
þá var um að gera að
temja dýrið og kenna því
að hlýða vel
og vera í bandi.

Amman reyndi að róa hana,
sýndi henni deyfisprautu,
og flösku niðrí sinni tösku.
Öll þau sungu ferðavísur,
um trjáræktina í dölum landsins.
Fáir nenntu að hafa kýr,
en kindur klifu landið bratt.
Best væri að klæða fjöllin öll
grænum skógi og rækta grænt,
gulrætur og lax í á.
Baulan bauð þau velkomin,
fjallið bláa, landsins prýði.
Hestastóð var þar á beit,
fögur, hrein og sælleg sveit.

Jeppinn sveif svo yfir brúna
upp að bæ og stansaði.
Öll þau biðu og kölluðu
“Skotta komdu og heilsaðu?”
Enginn sást né ansaði.
Þá fóru þau inn í húsið,
enginn bóndi, ekkert svar.
Minnsta barn var ekki ánægð.
“Hvar er afi?” spurði hún.
“Skotta hefur etið hann
og stungið af,”
Miðjubarn sagði og stóð á stól.

Þá heyrðu þau svaka gól.
Inn um dyrnar ruddist hundur,
glaður, hvítur, svartur allur,
fór að faðma Minnsta barnið.

Amman tók fram sprautuna
að deyfa þetta villidýr,
stakk í lærið, hélt í löpp.
Skotta vældi, varð svo slöpp,
missti máttinn, svaf nú vært,
eins og dauð á gólfinu.
“Jesús, guð og húsálfur,”
sú Elsta stundi skjálfandi.

Þá kom skógarbóndinn inn,
sá þar nýja hundinn sinn,
líflausan með opinn kjaft.
Hann tók fat með vatni í,
hellti því á Skottuna, sem
hreyfði sig og urraði,
svo flest þau stukku upp á borð,
nema bóndinn, sem nú strauk
Skottu ljúft og tautaði:
“Heilsaðu nú fólkinu.”
Skotta reis á fæturna,
rétti loppu að gestunum.
Soldið slöpp í löppunum,
reikaði svo út á tún.

Þetta er ekkert tígrisdýr
sagði Minnsta hlæjandi,
skrítinn hundur er það nú,
Miðjutelpan tautaði,
sú Elsta leyfði sér að segja
“Látum okkur allar þegja.”
Amman fór að laga mat.
Bóndinn kom og sagði að,
Skotta ræki fé úr hlíð,
hún væri bæði greind og blíð.

Nóttin kom og kalt var úti,
stormur hvein af heiðum ofan,
dimmt var yfir öllum dalnum,
Skotta beið og tíminn leið.
Um miðnætti hún heyrði jarm,
hvítar kindur þustu fram
stefndu beint á græðlingana,
gleyptu kvisti á augabragði.
Skotta gelti og hljóp í hringi
kringum féð svo það varð hrætt,
flúði út um alla móa,
hélt að Skotta væri tófa,
sem etur lömbin agnarsmá.
Allar hlupu niður að á,
en Skotta hélt sig trjánum hjá.

Svo var haldið hestamót
með veðhlaupum og verðlaunum.
Fjölskyldan frá Háabæ
Fór að horfa á hrossin öll,
síðan átti að fara á ball.
Skotta vildi fara með,
en öllum fannst hún alltof stór
í jeppanum ei sæti nóg.
Þau sögðu bless og óku burt.

Á árbökkunum mannmargt var,
bændaliðið var allt þar
að sýna og selja úrvalshross,
amman keypti ungan grip,
fagran, fráan, mesta hnoss.
Áður en hún vissi af,
stóð Skotta þar og brosti gleitt,
“Til hamingju,” hún vúffaði
másandi og dáldið sveitt.

Þegar ballið byrjaði
vildi Skotta dansa vals.
Fólkið hló og klappaði,
fjárhundarnir þögnuðu,
en almenningur fagnaði.
“Viltu selja þennan hund?”
spurði einn frá Hvanneyri.
“Ekki fyrir nokkurn mun,”
sögðu þau í einum kór.
“Hún er gull og gersemi,
feikna dugleg, sterk og stór.
Þá var sunginn lofsöngur
um landið mitt og landið þitt,
svo hestar hrinu, hundar geltu,
Skotta flúði yfir brúna,
hvarf á einu augabragði.
“flökkuhundur,” einhver sagði
og prestur fór að tala um trúna.

Svo var þessu móti lokið.
Allir fóru heim að sofa.
Skógarbóndinn gekk um landið
Skottu að finna, ef vera skyldi,
að fé og hrossum mundi hún sinna.
Hann gat engan veginn vitað,
að hún hafði í lofti hnitað
hringi stóra og hert á hlaupum,
þanið sig á himnaskautum,
til að komast út í geiminn,
frjáls og lipur, laus við heiminn.

Skottustjarnan himinhá,
lýsir bjart í hundaheimi.
Hún er bæði rauð og blá,
en menn fá ekki hana að sjá.
Seppar eins og háhýsi
halda vörð um búin þar,
enginn fær að koma inn,
án síns eigin hundapassa.
Óvelkomna setja í kassa
og senda þá á jörðu niður.
Þessir kassar lenda létt
sem fiður nið´rá landið slétt,
jökultind, eða sauðfjárrétt.

Skotta sagði sögu sína
um skógarbóndann og bæinn fína,
þar sem næturræningjar,
naga allan gróður burt.
Allir vúffar stjörnunnar
voru hissa, höfðu spurt,
hvaða dýr þar eru á ferð
og hvaða ráðstöfun þar gerð.
Skotta lýsti búskapnum
og bænum öllum,
veiðiá og háum fjöllum,
en fólkið flýr í borgirnar
og sveitin leggst í auðn.

Hundafundur haldinn var
um þetta mikla vandamál.
Þá var tekin ákvörðun,
sem öllum þótti afar snjöll:
Hundrað hundar stjörnu frá
skyldu þjóta hverja nótt
niðrá Háabæjarland,
reka burtu fé og hross,
bíta í hæla, urra og gelta,
fetta og bretta, síðan velta
hrossum, kindum, hrútum,
lömbum, láta fljóta niður á
og laxárfoss.

Fyrsta nóttin var svo björt,
að fé og hestar sáu þegar
hundrað hundar lentu létt,
sumir þó svo hratt og þétt
að nokkrir lentu utan vegar
og urðu soldið ruglaðir.
Skotta smalaði þeim saman,
rak þá upp í hlíðina,
fjölskyldan í Háabæ,
fylgdist með,
hafði aldrei séð,
annað eins og þvíumlíkt.

Hrossin hlupu niður að á,
Þar var soldið gras að fá,
en fjórar kindur fóru að naga
litlu trén í ystu röð.
Þá varð Skotta heldur glöð
og gat nú sýnt hvað gera skyldi,
gól og gjamm var fyrsta lota,
ef ekki dugði, varð að nota
kjaft og kló.
Sauðirnir nú flúðu hratt,
og bóndinn hló.

Fjölskyldan gat sofið rótt
alla þessa björtu nótt,
ekkert hross og engin kind
þorði að nálgast bæinn þann.
Núna vaxa tré og runnar,
Þétt í hlíðum Háabæjar.
Skotta og skógarbóndinn Gunnar,
frúarperlan, börnin öll,
dætur, synir, frændur, vinir,
græða landið, mela og fjöll.

Nú er Ísalandið sælt ,
skepnurnar í haga bíta
grasið, sem að þeim er ætlað,
grær í skjóli birkitrjáa,
furu og burkna og engin plága,
eyðileggur landið bláa.