Himintunglahundurinn Skotta, þriðji þáttur

Prinsessan í glugganum

Úti í löndum langt í burtu
í litlu ríki milli fjalla
býr hún Katrín einkadóttir
með pabba og mömmu
í stóru húsi,
konungshöll með háum turnum
og hallarfrúin passar þessa
þægu telpu,
landsins principessu,
sem á að erfa ríkið allt.

Katrín er nú fjórtán ára,
falleg telpa með ljósa lokka,
kann að lesa og líka að kokka
banana með súkkulaði.
Það var mynd af henni í blaði,
Þar sem sat hún úti við glugga
og horfði út á torgið stóra,
Þar sem gengu menn og konur,
börn og hundar, hestar, allir,
sem að frjálst um bæinn fara.

Fáir sáu, að Kata sat þar
ein við gluggann og horfði niður.
Það var ekki góður siður
að horfa upp á kóngsins skjá.
Samt hún brosti, samt hún lyfti
höndinni í kveðjuskyni,
eins og principessur gera,
Því þær vilja gjarnan vera
kurteisar og vel upp aldar.

Svo var það
einn fagran morgun,
að hún sat við gluggann sinn.
Sólin skein og Kata vildi
gjarnan vera ein af þeim,
sem úti mega ganga og gera
allt það,sem þá langar til,
sparka bolta, hoppa og skoppa,
slást við stráka, hlæja dátt,
en þetta má ei principessa,
hugsa, hvað þá segja hátt.

En -
Þarna stóð nú allt í einu
ungur drengur, tötralegur,
horfði upp í gluggann hennar,
brosti, kinkaði svo kolli.
Kata brosti blítt á móti,
gleymdi að vera principessa,
varð bara svo glöð og hlessa.
Strákurinn þá fór að ganga
á höndum eins og apaköttur.
Kata hló og skríkti af kæti.

“Hvað er nú að gerast hér?”
heyrðist sagt á bak við hana.
“Hvaða voðalegu læti?”
sagði einhver hátt og hvellt.
Jú, Hallarfrúin átti að passa
prinsessuna dag og nótt,
Sjá um, að hún hefði hljótt
um sig allan daginn langan,
væri principessa prúð.

Strákurinn nú vinkaði
og Kata litla kinkaði
kolli, brosti, fór svo inn
Í hallarskuggann
með bangsann sinn.
“Má ég bjóða stráknum inn?”
spurð´ún síðan pabba sinn,
kónginn mikla og mömmu sína.
“Það er alveg af og frá,”
sögðu bæði í einum kór.
“Þú ert ekki nógu stór
til að velja vini þína.
principessa á að sýna
góða siði og varast skal,
ókunnuga á götum úti.
Þú skalt heilsa kurteislega,
hreyfa hönd til vinstri og hægri,
muna að þú ert konungleg,
falleg, sæt og virðuleg.

Daginn eftir sat hún svo
falleg, sæt og virðuleg,
horfði út á torgið stóra,
sá hunda hoppa,
hlaupa og skoppa.
Þar var einn svo miklu stærri
en allir hinir, hvítur, svartur,
sem dansaði og hló af kæti
Þá strákur kom að gæla við hann,
strjúka feldinn og Kata fann,
að þetta voru miklir vinir.

Snjórinn féll í flögum niður
á torgið, þar til hvíta teppið
huldi það og þök og stétt.
Strákurinn þá fór að ganga
eins og væri hann að skrifa
á hvíta örk með skónum sínum
og í tveimur skýrum línum
stóð nú nafn hans þarna niðri:
- Óli heiti ég og hef
þennan hund, sem er með mér,
í láni Himintunglum frá.
Skotta heitir hún og er
sá besti vinur, sem ég á.

Skotta lyfti löpp að heilsa
principessu vinalega,
svo fór hún að hlaupa í hringi,
teikna tungl í hvítan snjóinn.
Kata andaði á gluggann
svo að skrifa mætti í móðu
“Katrín heiti ég og er
alltaf lokuð inni hér,
því principessur mega ekki
leika sér við hvern sem er.”

“Við verðum að gera eitthvað
mikilvægt í málinu,”
sagði Óli við Skottuna.
Skotta svaraði með góli.
Þau fóru inn í stóra búð
fulla af húsasmíðavörum,
keyptu kaðal, körfu og slá,
fóru með það torgið á,
en þá var Kötu hvergi að sjá.
Hallarfrúin sá um að
Kata færi í freyðibað.

Kata sat við gluggann sinn.
hrein og fín með slöngulokka.
Skotta hljóp í marga hringi,
beygði sig og sveigði eins og
kynni hún þær siðareglur,
er vera ber í konungshöllum.
Kata hló og heilsaði
til vinstri og hægri er vera ber.

Óli skrifaði í snjóinn
Skeyti handa prinsessunni:
“Opna glugga upp á gátt,
ég fer upp á þakið hátt,
sendi körfuna til þín,
ég hala hana upp til mín.”

Kata leit í kringum sig;
Hallarfrúin svaf svo vært
á konunglegum sisselong,
að óhætt var að læðast út
og setjast niðrí körfuna.
Það gekk fljótt og Óli dró
kaðalinn með körfuna
upp á þak með Kötu í.
Skotta endasentist um
hallarþakið vítt og breitt.
Kata fór í sláið sitt,
svo enginn sæi hver hún var.
Þau fóru niður brunastigann,
út á torgið, upp á hjólið.
Svo var hjólað vítt og breitt
um allan bæ og inn á róló.
Skotta fór í rennibraut.
Kata vildi bara róla
frjáls og frí og sagði Óla,
að hún vildi aldrei aftur
fara heim í höllina.

“Jú, jú,” sagði Óli þá.
Þú átt bæði pabba og mömmu.
Ég á bara eina ömmu.
Vertu góð við alla heima,
líka gömlu hallarfrúna.
Þegar Skotta nennir því,
Fer hún út um alla geima.
Hún á nefnilega heima
Í hundahúsi bak við tunglið.
Þar er enginn kóngur lengur,
svo pabbi þinn fær kannski að vera
Himintunglahundakóngur
og ég get verið vikadrengur.

“Jæja,” sagði Kata þá.
“Förum heim á hallarþakið.
Þú lætur mig síga niður.
Eins og heima er alltaf siður,
borðum við af gullnum diskum
jarðaber með þeyttum rjóma,
eplasafa og hunangstertu.
Taktu sláið, komdu aftur.
Það er í þér slíkur kraftur,
að pabbi og mamma og hallarfrúin,
bjóða þér og Skottu inn
Í höllina að drekka te
og fara í bað,
Því að þú ert flökkudrengur,
sem þarf að skúra og skrúbba
og sjá hvað er bak við svartar rákir
andlitinu þínu á.

Skotta renndi sér á súlu
nið´rá hallartorgið stóra.
Óli setti Kötu í körfu,
kom henni svo inn um gluggann.
Þar stóð hallarfrúin hissa,
gapandi af undrun var hún.
Óli flýtti sér í burtu, en frúin
náði að greina skuggann.

“Ég skal segja hennar hátign
mömmu þinni hvað þú gerir,
stelst í burtu eins og vofa,
meðan aðrir þurfa að sofa,”
sagði hún við Kötu litlu,
sem hló og sagði:
“Mér finnst svo gaman
að leika mér við Skottu og Óla.”
“Ef þú heldur þessu áfram,
ferðu á heimavistarskóla,”
sagði frúin stutt í spuna.

Kóngurinn og drottningin
vildu vera góð við Kötu,
en flökkukind hún mátti ei vera.
Hvað var núna best að gera?
“Þú skalt bjóða Óla heim,”
sagði drottningin og hló.
“Látt´ann hafa hundinn með,”
bætti kóngapabbinn við.
Hallarfrúin hristi sig,
sagðist vera mædd og hrædd
Við fátæklinga og götulýð.
“Vertu róleg,” sagði kóngur,
“heimavarnarliðið verður
kallað til og enginn getur
stjórnað betur slíkum fundi
með þessum Óla og hans hundi.”

Óli fór í sparifötin,
svartar buxur, hvítan jakka,
Þvoði Skottu hátt og lágt,
kenndi henni að hneigja og þakka
fyrir bita af hundakexi,
hjólið þvegið, svo var allt
tilbúið til hallarferðar.
Síðan fóru þau af stað
út á torgið, upp að dyrum,
Þar stóð vörður og smellti hælum,
svo kom principessan fína
út í dyrnar og gesti sína
leiddi upp í gullna sali.

Þar sat kóngur,
Þar sat drottning,
hásætið var perlum vafið.
Þar stóð hallarfrúin stíf
undir stórri svartri hlíf,
fannst að þessir gestir væru
ekki nógu aðalbornir
til að vera vinir Kötu.
Skotta urraði á frúna,
sýndi tennur, kóngur hló.
Óli hneigði sig og brosti,
Heimavarnarliðið kom,
upp úr slíðrum sverðin dró.

“Hver ert þú og hvaðan ertu?”
spurði drottningin og hló.
“Ég á heima í Svörtugötu,”
svaraði Óli kurteislega.
“Þar býr pabbi, en mamma er dáin,”
skeifa kom á fríðan munninn.
Tárin duttu niður kinnar
á Heimavarnarliði og Kötu.
Hallarfrúin dæsti og sagði:
“Aldrei hef ég séð þá götu.”

“Hó, hó, hó,” þá kóngur sagði,
“götu þessa vil ég sjá.
Ekkert hér í mínu ríki má hulið vera.
Það er af og frá.
Hafið gullvagn minn uppbúinn,
Drottningin, Kata, ég og frúin,
Óli litli og hvuttinn hans,
heimavarnarliðið allt
förum út í Svörtugötu
til að sýna okkar Kötu,
hvernig fólkið býr í bæ,
förum strax, nú hó og hæ!”

Gullvagninn var skreyttur fánum,
Gulum, rauðum, grænum, bleikum.
Hersingin nú fór af stað.
Skotta hljóp á undan öllum
yfir torg og gegnum götur,
Þar til kom að timburhliði,
sem á stóð skrifað
“Líf í frelsi, Líf í friði.”
Hestar voru inni fyrir,
engir bílar, malarvegir,
lítil hús að falli komin,
ónýt hjól og brotnir bátar.
Skotta rak upp mikið gól.

“Hvar er þessi Svartagata?”
spurði kóngur alveg hissa.
“Hún er á bak við moldarvegginn,”
sagði Óli og áfram héldu
kóngur og drottning og þeirra lið.
Loksins birtist mikið hlið,
rammgert, lokað, lás á slá.
Óli barði fjögur högg og
snögg sem elding Skotta óð
beint á dyrnar og opnaði.
Komið inn! Velkomin!
sagði rödd í hátalara.
Hersingin fór inn um hliðið,
Kóngur, drottning, allt var liðið
ofurhissa, hallarfrúin í yfirliði.

Inni fyrir var kastali,
rammgerður úr steini höggvinn.
Á skilti stóð með stórum stöfum:
“VELKOMIN Í SVÖRTUGÖTU.”
Þið eruð nú í Töfralandi.
engin lög og engar reglur
Gilda hér á sunnudögum.
Komið inn í Paradís,
við gefum súkkulaðiís.”

Vagn á teinum rann nú fram.
Öll þau fóru upp í hann.
“Þetta er eins og Tivolí,”
sagði drottningin og hló.
Hallarfrúin var nú vöknuð
dauðadái sínu af;
dæsti, stundi, vildi ekki
fara inn í kastalann.
Varð að bíða á þúfu úti
meðan vagninn áfram rann.
Skotta var í vanda stödd,
vildi gjarnan hjálpa til.
“Farðu hundur!” hvæsti frúin,
“að fara heim sem skjótast aftur,
er það eina, sem ég vil.”

Skotta hljóp þá upp í vagninn,
studdi á hnapp með nefinu,
Inn í göng þau brunuðu,
upp, upp, upp sívala braut,
þar til út á þakið náðu
með útsýn yfir allan bæinn.
Í hásæti úr silfri sat nú
Drottningin af Svörtugötu.
Heilsaði hún komufólki,
kyssti Óla sinn á kinn.
“Hvað ert þú að bauka, drengur?”
spurð´ún sonarsoninn sinn.

Óli sagði ömmu sinni,
Drottningunni af Svörtugötu
að landsins principessa vildi
ekki bara sitja ein
og horfa á aðra skemmta sér.
Hún vill eiga góða vini,
geta farið út að leika,
ekki vera pössuð eins og
páfagaukur er í búri.
Amman hló og sagðist vita
hvað yrði til bragðs að taka,
en fyrst af öllu vild´ún láta
sækja veslings Hallarfrúna.

“Enginn má í mínu ríki,”
sagð´ún “eiga bágt og bíða
meðan öðrum líður vel.
Skotta mín, nú þér ég fel
að fara og sækja þessa frú.
Taktur rennibrautarvagninn nú.
Vertu fljót og vertu trú.”

Skotta hvarf á augabragði,
gestirnir þá fengu sæti
í mjúkum sófum við veisluborð.
Amman mælti töfraorð.
Á sömu stundu sat hún þarna
Hallarfrúin feimin, hrædd
í vagninum, sem Skotta stýrði.

Drottningin í Töfralandi
brosti breitt og mælti blítt:
“Í Töfralandi er gott að vera,
velkomin, hér máttu vera
glöð og njóta guðaveiga.
Saman skulum við nú eiga
skemmtilegan sunnudag,
dansa, brosa, fetta, bretta,
gleyma öllum vandamálum,
gleði ríkja í okkar sálum.”

Í fyrsta sinn í tíu ár
brosti Hallarfrúin nú,
settist svo í stóran sofa,
Þáði glas af kjarnasafa.
Kóngur hló.
Óli spurði ömmu sína
hvort hún vildi líka bjóða
Heimavarnarliðinu,
sem var á verði í hliðinu.
“Alveg sjálfsagt,” sagði amman.
Aftur Skotta brunaði
niður allan sívalninginn
og fyrr en varði liðið kom,
heilsaði að dáta sið.

Svo var dansað, sungið, etinn
Frúarinnar kostur mikill,
hljómsveit kom að leika valsa,
tango, mars og líka salsa.
Þá var kátt í kastalanum.
Svo kom hlé og nú var spjallað,
Drottning landsins vildi heyra
Hvaðan amma Óla var.

Svörtugötudrottning sagði:
“Svartaland er mikið ríki
út´í geimnum langt í burtu
með fjöll og dali,vötn og sýki,
þaðan koma herir miklir,
svífa frjálst um himinhvolfin,
gæta þess að enginn geti
hafið stríð á himnum uppi.
Við erum hér í kynnisferð,
skoðum Mannheim og svo er gerð
nákvæm skýrsla um ástandið”.

Kóngur landsins hætti að dansa,
hljómsveitin þá gerði hlé.
Kata hljóp til mömmu sinnar,
fann, að eitthvað var að ske.
Heimavarnarliðið stóð
eins og tindátar í sögu.
Hallarfrúin fór að gráta,
heit af dansi, rjóð og móð.

Svörtugötudrottningin
hélt nú ræðu til að segja
Kónginum og Drottningunni
allan heila sannleikann.
“Ég er Himintungladrottning,
fædd á stjörnu langt í burtu,
sé um himingeima alla,
fer í ferðir, bý til palla,
sem ég lendi á á stundum.
Svörtugötukastalinn er mitt
Himnafarartæki,
Út tog suður oft ég sæki,
Vitneskju um aðrar stjörnur.
Óli litli sonur minn og Skotta
Okkar fréttamiðlar,
fundu litla principessu,
sem döpur sat við gluggann sinn.
Ákváðu að hjálpa henni
að komast bæði út og inn.

Nú varð þögn, því enginn vissi
hvað þau áttu að gera og segja,
nema Hallarfrúin rjóða,
spurði hvort þau vildu bjóða
henni að koma með í geiminn.
Svörtugötudrottningin tók þá fram
sinn veldissprota,
setti vængi á Hallarfrúna,
sagði svo og lagði á,
að hún yrði leyfi að fá
frá Jarðarkóngi og Drottningu.
Þau flýttu sér að segja “já.”
Þá breyttist hún í ljósa veru
með bros á vör, svo allir sáu,
að hamingjan var hér á ferð.
Kóngur klappaði og hló,
Drottningin var himinsæl,
Kata skelli..skellihló,
Skotta rak upp gleðivæl.

Svörtugötudrottningin
studdi á hnapp á sæti sínu,
rennibrautin fór í gang
með vagna handa gestunum,
svo þau gætu farið úr
Þessum loftsins kastala.
Óli kyssti Kötu sína,
sagðist mundu koma aftur,
ef hún þyrfti á hjálp að halda.
Ekkert þeirra þorði að malda
Í móinn, eða spyrja frekar,
kvöddu þetta himnalið,
fóru út um Svartahlið,
Kóngur, Drottning, Prinsessan.