Þorpshálfvitinn

SÖGUR FRÁ 1974

Miðbærinn í Lundúnaborg er ekki mikilfenglegri
á sunnudagsmorgnum en til dæmis Lækjartorg,
eða Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn.
Alls staðar er mannlífið samt við sig hérna megin á hnettinum.
Góðborgarinn heldur hvíldardaginn heilagan og forðast miðbæinn.
Furðufuglum á torgum stórborga hefur þó upp á síðkastið fækkað
og þeir hafa horfið í skuggann.
Þar kann tvennt að koma til.
Velferðarþjóðfélagið kippir úr umferð ýmsum karakterum, sem áður voru helsta skemmtiefni almennings.
Svo er hitt, að sjónvarp býður upp á mun breiðara úrval skemmtikrafta en gatan gerði hér áður fyrr,
áður en stofnanir og hæli náðu slíkum vinsældum, sem raun ber vitni.
Í sjónvarpinu koma fram menn af öllum gráðum heims, mestu sjení og heimsins mestu háfvitar.
Þess vegna eru torg nútímans svo til auð á sunnudagsmorgnum.
Ein er þó sú þjóð, sem á hvað erfiðast með að semja sig að nýjum siðum.
Þar er ríghaldið í gamlar venjur. Hér er átt við engil-saxa.
Hyde Park Corner, eða eitt hornið á stærsta skemmtigarði
Lundúnaborgar hefur löngum verið útileikhús.
Það er einn af merkari skap- og geðventlum heimsbyggðarinnar,
eins konar opin grúppu-dínamík,
þar sem allir mega segja allt.
Menn fá sér kassa til að standa á og af þeim kassa mega þeir segja allt
og leika þau hlutverk, sem fara hversdagslífinu illa,
en hæfa í því götuleikhúsi, sem hér verður til af sjálfu sér,
án opinberra styrkja. Hver veit nema ríkið græði a þessu leikhúsi.
Þeir eru ófáir ferðamennirnir, sem vilja sjá og heyra það,
sem sagt er og gerist á Hyde Park Corner á sunnudagsmorgnum.
Einlægni fer á kostum og ruddamennska ryðst fram í orðaflaumi
yfir höfuð almúga og ferðamanna.
Hér hafa bestu og vitrustu andans menn talað fyrir daufum eyrum
og hlæjandi fíflum.
Slíks eru dæmi frá öðrum stöðum og tímum í mannkynssögunni.
Hér þrífast stjórnmál án ritskoðunar.
Þarna er afríkumaður, dökkur á brún og brá.
Hann hreykir sér hátt og talar hárri röddu.
Klæði hans eru dýr og skrautleg.
Ræðuefnið er breska þjóðminjasafnið við Russelgötu,
The British Museum.
Hann segir, að safnið sé byggt utan um minjar,
sem bretar hafi stolið í Afríku.
Brátt er hann orðinn svo æstur, að annað hvert orð er blótsyrði.
Orðin “bloody” og “fucking” ráða ferðinni, en þau þekkjast varla í siðaðra manna máli.
Hann sagðist vera arkitekt og fer síðan að skilgreina þjóðarsál breta
út frá þeim byggingastíl, sem ryður sér til rúms í kringum
Hyde Park Corner og víðar.
Það er húsagerð eftirsríðsáranna.
“Svona er þjóðarsál þeirra,” æpir hann og bendir á næsta skýjakljúf,
“hornótt og köld, flöt og ópersónuleg.”
Ég velti því fyrir mér hvort hann mundi fá inni í Deginum og Veginum í Ríkisútvarpinu.
Á grasflöt rétt hjá situr akfeit kerling, nýkomin úr lagningu.
Hún er í bleikum kjól, peysu og með skræpótta perlufesti um hálsinn.
Iðja hennar er að lemja blikkkassa í gríð og ergi og góla óskaplega.
Menn hafa gaman að þessu einu sinni eða tvisvar.
Hvað ætli yrði gert við hana á sunnudagsmorgni á Lækjartorgi
í Reykjavík.
Á Hyde Park Corner hamast trúarofstækismenn.
Þeir hafa sérstaka nautn af að spá hinu versta.
Sérstaklega þykir þeim gaman að hrella lýðinn með rækilegum útlistunum
á heimsendi.
Þeir smjatta á orðum eins og “brennandi hold í helvíti” og froðufella og ranghvolfa augunum yfir angist sálarinnar.
Jesúskomplexinn holdgast á margvíslegan hátt á hverjum sunnudagsmorgni.
Áheyrendur hafa sérlega gaman að þessari tegund skemmtikrafta.
Stundum er engu líkara en að allir bíði og voni, að ræðumaður láti það nú endanlega eftir sér að albrjálast.
Í andlitum manna speglast sama áhorfendanautn,
sem sjá mátti á götum hvers sveitaþorps og vaxandi borgar, áður en velferðin kom til skjalanna.
Þegar þorpshálfvitinn var á ferð með börn bæjarins
á hælunum jesúsaði fólk sig yfir slíkri hryggðarmynd,
án þess þó að hirta afkvæmi sín fyrir að kvelja þennan vesaling og ergja.
Velferðarþjóðfélagið hefur nú svikið almenning um eitt merkasta skemmtiatriði tímans,
en það er að geta séð aðra manneskju vera algjörlega ónæma fyrir kvöl heimsins.
Það er stutt á milli öfganna, en eins og áður segir,
eru þeir í Ludúnaborg fastheldnir á gamla siði.
Þeir eiga að minnsta kosti einn dæmigerðan þorpshálfvita ennþá.
Hann stóð upp við járnrimlana á horninu því arna, ljós yfirlitum
með sléttt andlit og skolleitt þunnt hár.
Andlitið var barnslegt og góðlegt, sviplaust þó, augun ljósblá.
Eina sérkennið voru mjög útistandandi framtennur efri góms, gular og sterklegar.
Það var engu líkara en, að hann hefði keypt þessar tennur í minjagripabúð,
þar sem alls konar brandarar eru seldir,
en nei, þær voru fastar og grónar.
Það sá maður, þegar hann hló.
Hann gapti upp í ræðumann, sem stóð á kassa og slefaði af áhuga.
Hvert orð fór inn í þennan áhugasama áheyranda.
Ræðuskörungurinn var grannur maður um sextugt,
mjög greindarlegur, augun stór, skær og hlýleg.
Fötin voru hrein og smekkleg, en notuð og snjáð.
“Hvar byrjar spillingin?” spurði ræðumaður.
“Hvernig byrjar spillingin og hvar byrjar arðránið?”
Áheyrandinn flíraði upp á hann og dillaði sér á tám og hælum.
“Hún byrjar svona,” hélt ræðumaður áfram
og lét sem hann sæi ekki þennan fremsta í flokki meðal áheyrenda.
“Maður kaupir sér skika af landi – nokra hektara.
Hann ræktar það og uppsker. Það er nú all tog sumt.
Nágranni hans er aftur á móti leiguliði.
Hann ræktar einnig og uppsker. Báðir hafa skilað sömu vinnu.
Geta þá ekki báðir verið ánægðir?”
Það var þögn, því ræðumaðurinn var kominn að þungamiðju erindis sins.
Áheyrandinn var mjög spenntur.
Hann snerist í hring, dansaði nokkur spor og hrópaði:
“Og og – hvað svo?”
Ræðumaður lét sem hann sæi ekki þennan áhugasama áheyranda,
en dró djúpt andann og sagði svo:
“Sá, sem leigir jörðina sáir og uppsker.
Hann hefur framleitt verðmæti, sem eiga eftir að koma öðrum til góða.
Meinið er, að stór hluti framleðslunnar fer í leigu til
hins raunverulega eiganda, sem hefur ekki gert handtak til að skapa verðmætin.”
“Húrra!” hrópaði áheyrandinn.
Sumir hinna hlustendanna fóru að hlæja.
Ræðumanninum brá. Hann virtist vera öðru vanur, klóraði sér í höfðinu,
hagræddi treflinum um hálsinn og hrópaði svo:
“Eigandi jarðarinnar situr í hægindastól inni á skrifstofu í miðri London.
Hann á tíu slíkar jarðir.
Afraksturinn af erfiði annarra notar hann til að kaupa sér
ennþá fleiri jarðir.
Án þess að hafa sáð, uppsker hann ríkuleg laun fyrir
erfiði annarra manna.”
“Húrra!” hrópaði áheyrandinn aftur og nú af enn meiri gleði.
Hann nuddaði sér utan í rimlana og hló upp á ræðumann,
sem ekki gat lengur dulið reiði sína.
Augun voru ekki lengur stór og hlý, heldur sem hnífsoddar
og varirnar voru samanherptar.
Það var engu líkara en, að hann reyndi með hugarkrafti
að fjarlægja þennan áhugasama áheyranda,
sem opnaði munninn, hló til hans djúpum hlátri
og klappaði saman lófunum.
Ræðumaður greip um spjald sitt svo hnúarnir hvítnuðu.
Áheyrendum fjölgaði jafnt og þétt,
því að glíman við óvæntan aðdáanda var orðum ræðumanns
yfirsterkari.
“Herrar mínir og frúr,” sagði hann og horfði yfir til fjöldans, sem glotti.
“Herrar mínir og frúr. Nákvæmlega þannig látið þið arðræna ykkur.
Þið vinnið hörðum höndum við framleiðsluna,
en berið ekki úr býtum annað en brot af því, sem ykkur ber.
Hvað eigið þið? Hvers eruð þið megnug?
– Nei, þið eigið ekert. Hvenær sem er, er hægt að reka ykkur,
landlausan lýð, út úr verksmiðjunum og af landinu, út í atvinnuleysi,
fátækt og eymd. Hvenær sem er!”
Áheyrandinn nuddaði sér og ók utan í rimlana,
sem hann hélt um með báðum höndum.
Enn flíraði hann upp á ræðumanninn,
sem þurfti að taka á til að stilla sig um að fjarlægja þennan fáráð
með handafli.
Hann gerði enn eina tilraun til að ná til fjöldans:
“Ætlið þið, landlausu menn, að láta arðræna ykkur áfram?
Ég segi: Rísið upp, veltið af ykkur okinu.
Takið verksmiðjurnar, takið landið!
Látið skrifstofuvaldið vinna fyrir sínu brauði rétt eins og þið
vinnið fyrir ykkar brauði.”
Áheyrandinn trylltist bókstaflega af hlátri. Hann hélt um magann,
hló og klappaði saman lófunum og snarsnerist fyrir framan ræðumann,
eftir að hafa hlustað mjög rækilega á hvað hann sagði
og meira að segja lagt höndina bak við eyrað til að missa ekki af neinu.
Áheyrendur skemmtu sér dátt og biðu úrslitanna.
Þau gátu ekki varið langt undan.
Ræðumaður sté niður af kassanum, leit fast á aðdáanda sinn,
en snerist svo á hæli og skundaði burt með spjald og kassa.
Eftir stóðum við.
Ég velti því fyrir mér hvar hann mundi bera niður næst,
- hinn áhrifamikli áheyrandi.
Ég velti því fyrir mér, hvort sagan mundi endurtaka sig
hvern einasta sunnudag á þessu lýðræðishorni
- og kannski víðar.