Tilbrigði við Oedipus
© 2008 Inga Birna Jónsdóttir
SÖGUR FRÁ 1974
Dægurlag barst út á upplýsta götuna.
Margir voru á ferli.
Fólk var að fara á skemmtistaðina, út að borða,
eða á krána að fá sér í glas..
Þetta var mitt fyrsta kvöld í stórborginni.
Ég vissi af dansbar í kjallara nokkrum.
Mér var sagt, að þangað gætu allir farið að skoða lífið
án þes að verða fyrir áreiti.
Ég gekk niður nokkrar tröppur og framhjá fatahengi.
Úti var um 20 stiga hiti, en það var aðeins kaldara innandyra.
Maður í fatahenginu bauð gott kvöld.
Ég gekk inn um sveifludyr og bar blasti við.
Fátt var inni.
Barþjónninn stóð og fægði glas af mikilli nákvæmni.
Tvær ungar stúlkur sátu við barinn
og töluðu saman af miklum áhuga við ungan mann.
Auk þeirra var þarna miðaldra kona, sem sat fyrir miðju
barborðinu Hún var öll þykk að sjá, án þess að vera holdug,
sver armbönd og hringar á höndum, rósóttur kjóll og gróf,
hvít perlufesti.
Skraut hennar var keypt í einhverjum kjörgarðinum þar í borg
– ódýrt, glansandi og áberandi.
Ég sá þetta allt útundan mér, án þess að horfa beint á nokkurn mann.
Barþjónninn lagði frá sér þurrkuna og glasið og spurði hvað ég vildi.
“Einn öl takk,” sagði ég.
Yfirþyrmandi hávaði frá hátölurunum fyllti bæði dansherbergið innaf
og þennan litla bar. Fólk dreypti á glösum sínum.
Plötusnúðurinn sá að sér og lækkaði glymjandann.
Konan hallaði sér yfir auðan barstólinn og spurði: “Hvaðan ert þú?”
“Frá Íslandi,” sagði ég.
Rödd konunnar var djúp. Ég þóttist viss um, að hún væri íþróttakona.
Hún spurði hvað ég væri að gera í stórborginni,
“svona ung stúlka og þar að auki ein,” sagði hún
og horfði rannsakandi á mig.
Ég sagðist vera að fara í skóla, sem byrjaði eftir mánuð.
“Ég fer stundum í bæinn á kvöldin til að skoða mannlífið.
Það er mun margbreytilegra hér en heima hjá mér, sagði ég.
“Langar þig til að sá eitthvað sérststakt í stórborginni,” spurði hún.
“Já,” svaraði ég. “Mig langar að fara á tónleika og í leikhús.
Það er svo margt, sem freistar, en ég hef nógan tíma, heilan vetur.”
Hún færði sig um set yfir á auða stólinn, sem var á milli okkar.
Ég lauk við ölið í glasinu og hugsaði með mér,
að hér væri fremur dauft
og ef til vill væri betra að fara á annan stað, þar sem væri fleira fólk.
Hún spurði hvort hún mætti ekki bjóð upp á glas.
Vel falinn, en biðjandi tónn í rödd hennar gerði það að verkum,
að ég veigraði mér við að afþakka.
“Takk,” sagði ég,” kannski annan öl.”
Á broti úr mínútu bar þjónninn fram nýja drykki.
Konan færði sig ennþá nær mér. Skínandi blik var í augunum.
Það var hart sem stál, eins og hnífsblað, sem hefur verið bleytt og brýnt.
Þjónninn setti tvær kaldar ölflöskur á borðið.
Við skáluðum. Hún rauf þögnina.
“Á ég að sýna þér borgina?
Ég á góðan bíl og er búin í vinnunni klukkan fimm.”
Ákafinn í röddinni varaði mig við of snöggum kynnum.
Ég svaraði ekki, en virti hana fyrir mér.
Á andlitinu var þykkur, ljósbrúnn farði,
breiðar, reglulegar varirnar voru smurðar dökkum glanslausun varalit
og umgjörðin um stálgrá augun var vandlega máluð
í brúnum og bláum lit.
Það hafði áreiðanlega tekið sinn tíma að setja þessa grímu á andlit,
sem tekið var að reskjast.
Ég svaraði engu, en saup á glasinu.
Hún færði sig nær og augu hennar fóru ódulda skoðunarferð
um líkama minn,
“Ég er karlmaður,” sagði hún allt í einu.
Ég hefði átt að sjá það. Þessir vöðvar,
röddin, hendurnar og ég leit niður á fæturna. Það leyndi sér ekki.
“Ég er leigubílstjóri á daginn.
Þá er ég í karlmannsfötum og er alveg eins og hver annar maður.
Þá grunar engan neitt,
en á kvöldin og um helgar fer ég í kvenmansföt.
Á sunnudögum fer ég oft út að spássera.
Þá er ég í kvenmannsfötum og sé í speglun búðarglugganna
hvað ég líkist móður minni sálugu mikið.
Þú ætti að sjá mig í síðum kjól.”
Hún hló tilgerðarlega.
Svipurinn á mér virtist vekja með henni kátínu,
því hún hélt áfram að smáhlæja á milli setninga.
Hún kleip létt í öxlina á mér, eins og til að undirstrika
hvað þetta var sniðugt.
Ég gerði enga tilraun til að leyna undrun minni
og í huga mér vöknuðu margar spurningar.
“Ertu þá kynhverfingur, eða transvestiti?” spurði ég mjóróma.
“Já,” svaraði hann sinni djúpu, hrjúfu rödd og stálblikið var hárbeitt.
Nú fannst mér nálægð hans vera óþægileg og ég færði mig.
þar til ég hálfstóð við barinn.
Það dró úr ákafanum og hann dró sig dálítið til baka.
Blikið hvarf úr augunum. Hann hélt um glas sitt
og horfði á mig útundan sér.
Ég gat ekki stillt mig um að spyrja:
“Geturðu samt haft áhuga á kvenfólki?”
“Já,” svaraði hann og hló.
“Ég hef alls engan áhuga á karlmönnum,
finnst þeir beinlínis andstyggilegir. Þetta er bara svona.
Sumir eru svona og aðrir eru hinsegin.
Því má ég ekki vera eins og ég vil?
Ég amast ekki við öðrum, þótt þeir séu öðru vísi en ég.
Maður á að vera sanngjarn.
Ég fæ svo mikið út úr því að klæðast kvenmannsfötum.
Það eru fötin, sem heilla mig og ilmurinn.”
Hann talaði óhindrað og af ákafa og nú sneri hann sér aftur að mér
og nálgaðist ískyggilega mikið.
“Ég get hitt þig á morgun eftir klukkan fimm.
Ég skal sýna þér lystigarðinn.
Það er best að fara þangað á kvöldin, helst þegar farið er að dimma.
Ef þú vilt hitta mig klukkan níu einhvers staðar,
þá getum við keyrt þangað.
Ljósin í garðinum eru svo falleg og skrautleg.
Við getum lagt bílnum fyrir utan og farið gönguferð in í skóginn.”
Ég sá það fyrir mér – mig og þennan mann eigrandi um í myrkum skógi lystigarðsis, sem er ábyggilega feiknastór
og mannlaus eftir að skyggja tekur.
Ég sá fyrir mér tungl vaðandi í skýjum.
Ef til vill var það stálblikið í augunum,
sem olli þessum hugsunum mínum.
Mér datt ýmislegt í hug. Það voru illar og ógnvekjandi hugsanir.
Ég skammaðist mín fyrir að gera manninum upp slíkan óhugnað
af því einu, að hann hegðaði sér öðruvísi en fólk almennt.
Ákafi hans jókst.
Hann lýsti því með mörgum orðum hve skemmtilegt
þetta gæti orðið og hve mjög hann gæti orðið mér að liði fyrir sakir kunnugleika sins og vegna þess að hann hafði bíl til umráða.
Fleira fólk var komð inn á barinn. Nokkur pör sátu
í bás bakvið okkur.
Ég sagði:
“Ég get ekki skilið hvernig þú ætlar þér að ná til kvenfólks
klæddur sem kvenmaður. Það hlýtur að vera auðveldara að ná til kvenfólks
klæddur sem karlmaður.”
Hann svaraði einhverju og mér varð ljóst,
að sjálfur hafði hann ekki hugmynd um hvers vegna hann klæddist kvenmannsfötum
og gerði hosur sínar grænar fyrir kvenfólki.
Ölið var nú sopið af könnunni.
“Má ég fylgja þér heim?” spurði hann og greip hönd mína.
“Nei takk,” svaraði ég. “Ég er ekki að fara heim.
Ég er að fara í hús til vina minna.”
Þetta var ósatt. Ég var alein og vinalaus í stórborginni og ætlaði að taka strætisvagn heim. Ég steig af háum barstólnum,
rétti fram höndina og kvaddi.
Svo gekk ég rakleitt út og upp tröppurnar og andaði léttara.
Myrk sumarnótt borgarinnar var upplýst og iðandi.
Ég hraðaði mér í átt til torgsins.
Þaðan var stutt í strætisvagn. Mannhafið á torginu,
endalaus straumur, sem færðist eftir hljómfalli síhvikulla umferðarljósa
bar mig með sér.
Í strætisvagninum var fátt, sex til átta manns.
Ég settist aftast og var brátt djúpt sokkin í spurninguna: Hvers vegna?
– Það er svo fáránlegt – hugsaði ég
– af karlmanni að fara í kvenmannsföt
og ætla sér svo að “húkka” kvenmann á bar.
Hvernig á fólk að skilja slíkt?
Hvers vegna?
Strætisvagninn ók um mjó stræti miðborgarinnar og framhjá barnum,
sem ég hafði setið á. Á næstu stöð kom kynhverfingurinn inn.
Mér varð mjög bilt við.
Allar mínar verstu grunsemdir urðu sprelllifandi á ný.
- Var hann að elta mig?
- Ætlaði hann að ná mér á fáförnum vegi?
Á leiðinni var að minnsta kosti einn myrkur almenningsgarður
og ein auð lóð.
Ég leit eldsnöggt til hliðar og setti höndina fyrir vangann,
eins og ég væri að rýna út í myrkrið.
Hann settist framarlega.
Nú voru góð ráð dýr, hugsaði ég.
Hvað gat ég gert?
Ég ákvað að fara út úr vagninum, svo hann sæi mig ekki.
En hvað svo? Það var ekki víst, að ég gæti fengið leigubíl á þröngum
og fáförnum götum.
Ég ákvað að sitja í vagninum til endastöðvarinnar
og taka svo leigubíl þaðan.
Vagninn ók æ lengra frá miðborginni, bjarminn dofnaði,
húsin virtust vera dimmari og hærri og stór auð svæði
voru víðs vegar á milli.
Við ókum yfir sýki.
Farþegarnir tíndust út einn af öðrum uns við vorum eftir þrjú.
Einni stöð áður en ég átti að fara út, gat ég ekki stillt mig lengur.
Ég skaust út rétt áður en vagnstjórinn lokaði hurðinni.
Þá var að minnsta kosti öruggt, að kynhverfingurinn færi ekki út á sama stað.
Ég hraðaði mér áfram og nálgaðist gatnamótin,
þar sem vagninn stansaði næst.
Mikið rétt. Vagninn stansaði og maðurinn fór út.
Ég fékk brjóstþyngsli og vissi ekki hvað ég átti að gera.
- Átti ég að halda áfram og láta sem ekkert væri?
- Átti ég að fara í hliðargötu?
Ég hægði ferðina og beið átekta.
Þá sá ég það.
Maðurinn, sem hafði talað svo ákaft og af svo mikilli einlægni
inni á barnum með stálblik í augum og bros á vör,
- sá, sem hafði boðið upp á bjór og boðist til að keyra mig um alla borgina
og meira til ,
- sem á barnum var fær í flestan sjó og til í tuskið,
- hann gekk nú löturhægt áfram gangstéttina.
Hreyfingarnar voru svo hægar og silalegar, að engu líkara var en,
að hann hefði ekki mátt til að komast leiðar sinnar. Boginn í baki,
með lafandi handleggi og kvenmannstösku hangandi niður,
nær því niður á gangstéttina,
á háhæluðum skóm, sem virtust vera þungir sem blý,
með drjúpandi höfuð, gekk hann nú áfram – án efa á leið heim.
Ég sá fyrir mér mömmu hans, þreytta útivinnandi konu,
sem kom alltaf heim til stráksins síns á kvöldin. Og ég sá fyrir mér unglingsárin,
vanmáttinn og innlifunina.
Var hún dáin ? Var hann að bæta henni upp kvöldin,
þegar hún gat ekki notið neins, eins og þær, sem fóru á bari
og gengu fínar um bæinn á sunnudögum. Mér datt það í hug.
Ég gaf mér góðan tíma til að horfa á eftir honum,
þar sem hann beið eftir grænu ljósi. Utanyfir rósótta kjólnum
var hann í síðum jakka.
Útlínur hárkollunnar voru sléttar og felldar og þótt svalur andvari léki um strætið, bærðist ekki hár á höfði hans. Háhæluðu skórnir voru hvítir,
fæturnir grannir og vöðvastæltir. Hann var hokinn.
Þegar græna ljósið kom, voru hreyfingarnar svo kraftlausar
og niðurdregnar, að mér fannst með ólíkindum
að hann kæmist alla leið yfir gangbrautina og heim í myrkrinu.
Hann leit hvorki til hægri nér vinstri, en gekk beint af augum.
Þegar hann var kominn yfir götuna, rétti hann skyndilega úr sér,
sneri sér við og horfði yfir til mín. Ég heyrði hann ekki hlæja,
en ég sá í hvítar tennurnar.
Ég hrökk í kút og tók á rás út götuna og inn í húsið, sem ég gisti í
án þess að líta aftur. Með hrætt fuglshjarta í brjósti skellti ég hurðinni aftur
á eftir mér og stökk upp stigana alla leið upp á þriðju hæð.
Ég leit út um eldhúsgluggann, en sá engan.
Mér gekk illa að sofna við byrgða glugga og tvílæstar dyr.
Í borginni er göngugata.
Næsta sunnudag fór ég um þessa götu þvera og endilanga.
Veðrið var gott. Sól skein í heiði,
ferðamannastraumurinn var í hámarki.
Ég gekk niður götuna, virti fyrir mér fólkið
og leit í nokkra búðarglugga. Þá sá ég hvar hann kom gangandi.
Hann var klæddur sama kvenbúningi og kvöldið áður.
Nú var hins vegar allt annar svipur á andlitinu og taktur í hreyfingunum.
Hann tiplaði fjaðurlétt upp götuna og hélt á töskunni á kvenna vísu.
Höfuðið bar hann hátt og tók sig vel út.
Úr svipnum mátti lesa: – Hér kemur frú Jonsen, sú hin virðulega frú.
Ég sneri mér hálfvegis að búðargugga. Þegar hann gekk fram hjá,
hneigði hann höfuðið svolítið og brosti út í annað munnvikið.
Ég horfði á eftir honum, þar sem hann gekk um götuna
í rósótta sumarkjólnum. Grannir, stæltir fótleggir fetuðu ferðamanastrætið.
Enginn nema ég vissi hvað bjó á bak við dulargervið.
Hann hvarf mér sjónum í mannhafið.